29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

23. mál, einnota umbúðir

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég er einn af flm. þessa máls sem hér hefur hlotið góða umræðu og undirtektir. Mig langar að koma fáeinum ábendingum á framfæri við umræðuna. Þetta mál hefur eðlilega komið í umræðu í samfélaginu í auknum mæli, nú þegar menn horfa fram á þá miklu mengun sem er af völdum einnota umbúða. Það eru mörg félagasamtök sem hafa ályktað um þetta og þrýst á um aðgerðir af hálfu stjórnvalda. Ég nefni áhugasamtök um náttúruvernd á Austurlandi sem héldu aðalfund sinn í ágústmánuði sl. og ályktuðu sérstaklega um þetta mái. Þannig hefur rignt ályktunum um þetta, nú síðast á náttúruverndarþingi eins og fram hefur komið.

Hæstv. ráðherra fjallaði um þetta mál og ég þakka þann stuðning sem fram kom hjá honum og skilning á því að þarna væri aðgerða þörf. Mér fannst alveg ástæðulaust fyrir ráðherrann að finna að því þó að rætt væri um drög að reglugerð sem hefur verið unnið að á vegum áhugasamtaka, þar sem eru Landvernd, Náttúruverndarráð og Hollustuvernd ríkisins raunar sem þriðji aðili, og orðið hafa til drög að reglugerð á vegum Hollustuverndar. Ég sé ekki annað en að það sé fagnaðarefni einmitt að þetta mál skuli koma til umræðu hér á mótunarstigi þannig að bæði ráðuneyti og Hollustuverndin geti tekið mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma á Alþingi. Við megum ekki vera viðkvæm fyrir því þó að mál af þessu tagi færist hér inn á vettvang Alþingis þó svo að þau séu í meðferð hjá stofnunum í okkar stjórnkerfi. Ég held að hæstv. ráðherra eigi alls ekkert að vera sár yfir því, heldur þvert á móti fagna því að þau drög eru dregin inn í þessa umræðu. Það kann að vera, eins og ráðherrann hæstv. nefndi, að það skorti lagaheimildir fyrir álagningu endurnotkunargjalds og framleiðslugjalds sem er til umræðu í þessu samhengi og þá er að afla þeirra. Ég hygg einmitt að flutningur þessarar þáltill. geti orðið til þess að greiða fyrir slíkri lagasetningu, ef ráðherrann eða aðrir koma með tillögur þar að lútandi. Ég skildi hæstv. ráðherra þannig að hann hefði hug á að afla slíkra heimilda og ég hvet hann eindregið til þess að svo verði gert.

Hér voru einnig teknar inn í umræðuna að vísu ekki einnota umbúðir heldur bifreiðar sem úreldast þó tiltölulega fljótt og sú mikla mengun sem af þeim stafar. Þar sem hér eru stórir hlutir á ferðinni er þetta auðvitað enn augljósara en með umbúðir um drykkjarvörur, en fjöldinn er þó meiri þar eins og hér hefur komið fram. Ég held að það sé mjög skynsamleg hugmynd að leggja sérstakt gjald á bifreiðar til þess að tryggja förgun og endurvinnslu á því sem hægt er að nýta úr ónýtum bílum.

Í þessu samhengi vil ég minna á þá viðleitni sem var hér frá árinu 1980, og reyndar löngu fyrr en hún tók á sig form sérstakrar lagaheimildar árið 1980 eða 1981, þ.e. að stofna stálbræðslu hér á Íslandi. Þetta mál var borið fram af Sveinbirni heitnum í Ofnasmiðjunni, þeim mikla dugnaðar- og áhugamanni sem barðist fyrir þessu fyrirtæki í gegnum áratugi. Iðnrn. tók þetta mál upp og aflaði lagaheimildar, eins og ég hef getið um, á þeirri tíð sem ég starfaði þar sem ráðherra. Þetta mál fór hins vegar, við getum sagt í vaskinn í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það fékk satt að segja hörmulega meðferð af þeim ráðherrum sem um það fjölluðu á þeim tíma, fjármála og iðnrh. þeirrar ríkisstjórnar sem hér sat á síðasta kjörtímabili, og var það hin ömurlegasta saga sem rædd var hér í þingsölum á sínum tíma. Ég held að ef hugmyndin um endurvinnslugjald hefði verið komin til viðbótar við annað inn í þá umræðu hefði það orðið þessu máli til stuðnings. Þarna var ekki hugmyndin um ríkisfyrirtæki að meiri hluta til, heldur þvert á móti að styðja við einkaframtak sem ætlaði sér og var algerlega forgönguaðili í þessu máli. Það var komið svo langt að það var búið að afla loforða, það voru hafnar byggingarframkvæmdir, þegar botninn datt úr þessu vegna þess að ríkisstjórnin studdi ekki við málið með þeim hætti sem lögin, sem samþykkt höfðu verið á Alþingi, gerðu ráð fyrir. Þetta var mjög miður og nú er þetta mál úr sögunni a.m.k. í bili að ég best veit.

Hér hefur verið rætt um umhverfisráðuneyti og hæstv. ráðherra vék að því máli í tengslum við ákvæði í stjórnarsáttmála um umhverfismál. Mér fannst ekki koma fram í máli ráðherrans eindregin skoðun á því hvernig þessum málum bæri að skipa. Ég vona að hann verði stuðningsmaður þess innan ríkisstjórnar að færa helstu málaflokka umhverfismála saman í eitt ráðuneyti, sem þarf auðvitað að bera nafn umhverfismála, svo veigamikill málaflokkur sem hér er á ferðinni. Þar sem ráðherrann starfar við ráðuneyti sem hefur mjög þýðingarmikinn málaflokk af þessu tagi, þar sem eru mengunarmálin, hvet ég hann eindregið til þess að ljá því lið í ríkisstjórninni að þau verði látin fylgja. Það er mjög einföld stjórnkerfisbreyting og ekkert auðveldara en að halda aðgreindum heilbrigðisþættinum sem að sjálfsögðu er eðlilegt að sé undir heilbrrn. og hins vegar mengunarþættinum, þeim málum sem mengunardeild Hollustuverndar ríkisins hefur með höndum. Hæstv. ráðherra er eflaust kunnugt um að forstöðumaður mengunardeildarinnar, Ólafur Pétursson, er eindreginn stuðningsmaður þess að þetta mál verði fært undir umhverfismálin í stjórnkerfinu.

Ég bið hæstv. ráðherra að opna hug sinn í þessum efnum og láta ekki þá embættismenn sem eru mótdrægir slíkri tilfærslu ráða ferðinni en þá er að finna innan heilbrrn. eins og víðar í ráðuneytum þar sem hafa verið hindranir frá embættismönnum gegn því að ná fram alveg brýnum og nauðsynlegum stjórnkerfisbreytingum á þessu sviði. Ég þarf ekki að nefna nöfn. Hæstv. ráðherra þekkir þau sjónarmið, en hér er spurningin um pólitískan vilja og pólitíska aðgerð sem ekki má stranda á þvergirðingi embættismanna.

Þetta vildi ég sagt hafa, virðulegur forseti, um leið og ég vænti þess sannarlega að þetta máli fái stuðning í þinginu og fái afgreiðslu sem fyrst. Þetta er að vísu margþætt mál en ekki flókið og ég trúi ekki öðru en að eindreginn vilji og stuðningur sé við þetta mál eins og það er lagt fyrir í þáltill. sem hér er rædd.