01.03.1988
Neðri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5270 í B-deild Alþingistíðinda. (3520)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal lofa því að valda ekki hæstv. forseta neinum meiri áhyggjum í sambandi við þessar umræður með þessum fáu orðum sem ég ætla að segja hér í lokin.

Mér finnst ástæða til að endurtaka hér, þar sem hv. þm. voru að tala um það að hér væri ekki um neinn ágreining að ræða og engar efnislegar umræður um þetta mál, að ég held að þeir sem tala þannig hafi ekki hlustað vandlega á þær umræður sem hér fóru fram í dag. Efnislegi ágreiningurinn í þessu máli stendur um tvennt. Annars vegar það að undirbúningur, sem þarf að vera í sambandi við endurskoðun á félagslega kerfinu, hefur ekki farið fram. Og það hafa ekki enn þá komið neins staðar fram, hvorki í þessu frv., skýringum með því né í umræðum, svör við því hvernig þetta skarast við það kerfi sem við búum við í dag. Það hefur heldur ekki komið fram, sem er aðalatriðið, að við teljum að ef á að flýta þessu máli umfram þá endurskoðun sem ætti að vera komin í gang, ef á að flýta því þannig, þá ættum við að taka mið af því ástandi þessara mála sem er þessa stundina. Við höfum ekki nema takmarkað fjármagn. Þess vegna lögðum við áherslu á að það væri alveg nægjanlegt í fyrstu lotu að taka þetta inn í félagslega kerfið, þ.e. að bæta við 33. gr. laganna sérákvæði um sérstakar kaupleiguíbúðir. Ég vil leggja áherslu á að það er hægt að leysa þetta mál á einfaldan hátt meðan beðið er eftir heildarendurskoðun á félagslega kerfinu, án þess að það þurfi að vera fyrirferðarmikill lagabálkur hér sem menn greinir á um grein til greinar.

Ég vil segja það að það hlýtur að vera ljóst öllum hv. þm. að okkur vantar fjármagn í almenna húsnæðiskerfið til að standa við þau loforð sem þegar er búið að senda út. Hvers vegna eigum við þá endilega að fara að setja nýjan þátt inn í almenna kerfið um kaupleiguíbúðir sem hafa enga takmörkun í för með sér um það hvort það er einhver milljónamæringur eða fátæklingur sem getur sótt um eða notið þess? Það eru engar takmarkanir um það. Þetta er almennt kerfi.

Ég hjó eftir því hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. að hann var að tala um húsnæði fyrir hjúkrunarfólk, kennara, lækna og fleiri sem þyrfti að leysa fyrir sveitarfélögin á þennan hátt. Ég held að það væri miklu hyggilegra fyrir þá staði víðs vegar um landið sem þannig stendur á að fá viðráðanleg lán í leiguíbúðir, raunverulegar leiguíbúðir og leysa þessi vandamál á þann hátt, eins og mörg sveitarfélög hafa gert og eru að reyna að gera. En það þarf að greiða fyrir því með því að breyta 33. gr. að því er varðar lánstímann sem færir leiguna niður um nokkrar þúsundir króna pr. mánuð fyrir viðkomandi aðila.

Af því að ég er kominn hingað upp ætla ég að benda á eitt atriði sem ég veit að í þessari stöðu er mjög alvarlegt mál. Og það er að í öllum umræðum um þetta mál hefur einn hlutur gleymst. Ég vitna þar til þess dreifibréfs sem félmrn. sendi um landið til þess að kanna viðhorf sveitarstjórnarmanna. Það var ekki einn einasti stafur í þeirri tilkynningu um það hvaða skuldbindingar viðkomandi aðilar væru að taka að sér. Ekki til. Ég er alveg sannfærður um það að meiri hluti af sveitarstjórnarmönnum um allt Ísland hefur ekki hugmynd um hvaða skyldur og skuldbindingar þeir eiga að taka á sig í sambandi við þetta nýja kerfi. Í almenna kerfinu verða þeir að standa undir 30% fjárútvegun og þeir verða að standa ábyrgir fyrir lánum, byggingu og rekstri. Í félagslega kerfinu verða þeir að koma með 100% fjármögnun og standa ábyrgir fyrir því. Þeir verða að bera ábyrgð á þeim skuldbindingum, þeim lánaskuldbindingum sem kerfið gerir ráð fyrir. Það er einmitt þetta atriði sem ég held að menn þurfi að átta sig á, a.m.k. áður en málið er endanlega afgreitt. Þess vegna mun ég leggja höfuðáherslu á það að fá að senda viðkomandi aðilum þetta frv. til umfjöllunar, öllum sveitarfélögum á landinu til þess að fá skýrt fram viðhorf þeirra til þessa ákvæðis.

Við sem höfum staðið í sveitarstjórnarmálum vitum hvað það hefur gilt fyrir mörg sveitarfélög að standa undir verkamannabústaðakerfinu sem er þó besta kerfi sem Ísland hefur búið við í húsnæðismálum í áratugi. Þess vegna er full ástæða til þess að menn komi með varnaðarorð við meðferð svona máls. Og ég frábið mér það að við séum að tala hér eitthvert hjal, barnahjal hér í þessum ræðustóli í sambandi við þetta mál. Við erum að tala um alvarlegt mál sem hefur áhrif út um allt Ísland hvernig með verður farið hér á hv. Alþingi. Það er fullkomin ástæða til þess að gjalda varhuga við því að taka við hverju sem er.

Ég ætla að láta það vera mín lokaorð að ég þekki vel til húsnæðismála á Norðurlöndum. Ég hef kynnt mér þau sérstaklega. Og ég veit í hvaða ógöngur Norðurlöndin hafa lent, einmitt í sambandi við ýmiss konar svona kerfi. Það er deilt hart í öllum þessum löndum. Kaupleigukerfi hefur verið kippt til baka í Finnlandi og það eru harðar deilur núna á milli valdaaðila í Svíþjóð um kerfið þar.

Ég held að það sé alveg fullkomin ástæða til þess að við hér á Íslandi a.m.k. áttum okkur á því hvað við erum að fara út í áður en við göngum endanlega frá því. Ég tel mig það ábyrgan í þessari stöðu sem þm. að ég vil a.m.k. vita hvað ég endanlega samþykki áður en ég segi já og amen fyrir fram.