01.03.1988
Neðri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5271 í B-deild Alþingistíðinda. (3521)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vona að hv. síðasti ræðumaður hafi ekki átt við ummæli mín sem ég lét falla um þá sérkennilegu orðræðu sem hér hefur staðið í dag á köflum um málsmeðferðina í þessu sambandi. Umræður um frv. efnislega gegna allt öðru máli og er að sjálfsögðu eðlilegt og nauðsynlegt að menn ræði það út í hörgul.

En ég ætla að leyfa mér, herra forseti, þó það sé kannski naumur tíminn til stefnu að leggja eina beina spurningu fyrir hæstv. núv. félmrh. og hæstv. fyrrv. félmrh. sem talaði hér áðan af gefnu tilefni. Ég gat ekki betur heyrt en hæstv. fyrrv. félmrh., hv. þm. Alexander Stefánsson, væri í raun andvígur því að þessi breyting gengi fram núna vegna þess að hún tæki peninga frá almenna útlánakerfinu sem væri í fjárþröng. Og þá kemur næsta spurning: Ætlar hv. 1. þm. Vesturl. eða ætlar hann ekki að styðja ákvæði frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum sem fjalla um skerðingu á framlögum til húsnæðislánakerfisins? Og ætlar hæstv. félmrh. að styðja eða styðja ekki sama ákvæði í sama frv.?