02.03.1988
Efri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5272 í B-deild Alþingistíðinda. (3523)

231. mál, aðför

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þar sem skráður frsm. á nál. hefur fjarvistarleyfi mæli ég fyrir áliti allshn. á þskj. 633, en hér er fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum um aðför, frv. sem er komið til þessarar deildar frá Nd. og það var flutt af hv. allshn.

Upphaf þessa máls er að flutt var hér á haustdögum frv. til l. um breytingu á lögum um aðför sem vísað var til allshn. Nd. sem sendi frv. til umsagnar ýmissa aðila, þar á meðal réttarfarsnefndar sem sendi rækilega umsögn. Þar kom fram að sú nefnd taldi ákjósanlega þá breytingu á 33. gr. aðfararlaga að heimila fógeta að boða dómfellda til framkvæmdar aðfarargerðar á starfsstöð sinni, eins og það er orðað, en hins vegar var bent á að á frv. væru annmarkar sem réttarfarsnefnd taldi nauðsynlegt að bæta úr og gerði nefndin raunar tillögu um hvernig breyta skyldi frv. í það horf þannig að það mætti sem best vera.

Allshn. hv. Nd. gerði þessar tillögur réttarfarsnefndar að sínum og flutti nýtt frv. þess efnis á sérstöku þskj. Allshn. þessarar hv. deildar leggur til að frv. verði samþykkt eins og það kom frá Nd. Í nál. kemur fram að Guðrún Agnarsdóttir og Eyjólfur Konráð Jónsson voru fjarverandi afgreiðslu málsins, en hv. þm. Skúli Alexandersson sat fund nefndarinnar og er samþykkur þessu áliti.