02.03.1988
Efri deild: 64. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5284 í B-deild Alþingistíðinda. (3532)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Júlíus Sólnes:

Virðulegi forseti. Ég mun nú hefja mál mitt þó það sé fremur fáliðað hér í hv. Ed., en það er engu að síður nauðsynlegt að ég fái tækifæri til að koma á framfæri nokkrum athugasemdum varðandi það lagafrv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum sem við höfum haft til meðferðar í fjh.- og viðskn. í morgun.

Hv. 7. þm. Reykv. hefur í máli sínu gert grein fyrir áliti minni hl. fjh.- og viðskn. og hef ég ekki miklu þar við að bæta en þó langar mig til að taka upp nokkur atriði. Ég held að við getum verið sammála um það allir sem sátum fund nefndarinnar í morgun að það hafi verið mjög fróðlegar og upplýsandi umræður sem þar fóru fram. Var einkar fróðlegt að hlusta á og fá álit hinna ýmsu fulltrúa sem voru kallaðir á fund nefndarinnar.

Ég hafði hugsað mér að eiga nokkur orðaskipti hér við hv. 3. þm. Vestf., ég skulda honum nokkur svör við ýmsum athugasemdum sem hann gerði við ýmislegt það sem ég hafði fram að færa varðandi þá kjarasamninga sem nýlega hafa verið gerðir, en nú sé ég að hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason er genginn í salinn og eins og ég sagði þá langar mig til að eiga nokkur orðaskipti við hv. þm. (KP: Ekkert sjálfsagðara.) Hv. þm. var að sjálfsögðu, og ég skil það ósköp vel, ekki sérlega ánægður með það að ég skyldi ráðast að kjarasamningunum með þeim hætti sem ég gerði við 1. umr. um þetta frv., en ég taldi í máli mínu að með þessum ráðstöfunum, svo og þeirri gengisfellingu sem er kannski kjarni þeirra, væri verið að taka það aftur af láglaunafólkinu sem það náði með kjarasamningunum sem voru undirskrifaðir í síðustu viku. Ekkert það sem hv. þm. Karvel Pálmason kom með í sínu máli til þess að hrekja þessar staðreyndir, sem ég taldi mig vera að flytja, hefur breytt skoðun minni. Ég er jafnsannfærður um það eftir sem áður að það er laukrétt sem ég sagði að með þessum ráðstöfunum, svo og ýmsum þeim hliðarráðstöfunum sem nú er verið að gera og öllum þeim hækkunum sem dynja yfir núna á hverjum degi, þá er búið að taka allt aftur sem láglaunafólkið fékk í þessum samningum - og meira til er ég nokkuð sannfærður um. Í gær voru tilkynntar hækkanir á öllum landbúnaðarafurðum frá 6 og upp í 9% ef ég man rétt. Ég hef nú ekki haft tækifæri til þess einu sinni að lesa blöðin almennilega þessa undanfarna daga því að svo mikið er um að vera hér hjá okkur á hinu háa Alþingi.

Ég fékk inn um dyrnar í morgun hjá mér gíróseðla frá tryggingafélaginu mínu þar sem mér var gert að greiða af þeim bifreiðatryggingum sem ég er með. Það mun vera orðið mjög algengt að menn hafi einn til tvo bíla í hverri fjölskyldu og jafnvel láglaunafólkið rekur a.m.k. einn bíl. Það er að verða algengast. Og eftir þeim upphæðum sem voru á þessum seðlum sem ég fékk til mín í morgun ásamt með öðru, þá fæ ég nú ekki séð hvernig fólk ætlar að fara að. Þessar litlu kjarabætur sem það fékk eða taldi sig hafa fengið í samningunum, ég held að þær séu roknar út í veður og vind. Enda er mjög fróðlegt að velta fyrir sér t.d. ummælum framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands, Þórarins V. Þórarinssonar, en hann hefur látið þau orð falla að þessir samningar hafi í för með sér minni kjararýrnun en aðrir samningar, þannig að um kjararýrnun er augljóslega að ræða. Og með þeim hækkunum á þjónustugjöldum sem eru nú að dynja yfir okkur - og þar gengur nú hið opinbera fram fremst allra, eins og oftast gerist, að hið opinbera gengur ævinlega á undan í því að hækka þjónustugjöld umfram alla aðra — þá er ég ekki í nokkrum vafa um það að það sem ég sagði hér við 1. umr. var ekki ofsagt. Hugsanlega hefði ég átt að taka miklu sterkara til orða þegar ég taldi að það væri búið að taka allt aftur af láglaunafólkinu sem það fékk í þessum samningum. En ég er ekki að ásaka þá fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar sem stóðu í þessum samningum. Verkalýðshreyfingin,á erfitt uppdráttar þessa mánuðina og þessi árin. Ég minni á það að verkalýðshreyfingin hefur nú staðið í þrotlausri baráttu í ein 70 ár við að reyna að bæta hag hinna lægst launuðu og árangurinn lætur enn þá á sér standa.

Það hefur verið mikið rætt um það og búið að fara um það mörgum orðum úr ræðustól á hinu háa Alþingi, svo og annars staðar í þjóðfélaginu, með hvaða hætti við eigum að bæta laun hinna lægst launuðu. En það hefur því miður aldrei tekist í neinum kjarasamningum og allar aðgerðir til þess að bæta hag hinna lægst launuðu enda á einn veg: Þær leiða einfaldlega til þess að aðrir þjóðfélagshópar, aðrir launahópar fá sömu kjarabætur. Allar aðgerðirnar verða til þess að launabætur rjúka upp allan launastigann. Í þessu ljósi ber að skoða gagnmerka tillögu sem hv. 16. þm. Reykv. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir mælir fyrir í Sþ. um launabætur. En þar er um að ræða að láglaunafólk fái launabætur ef það getur ekki nýtt allan persónuafsláttinn að fullu til þess að ná skattleysismörkum. Í þeirri till. er reyndar gert ráð fyrir að skattleysismörk verði hækkuð í 55 þús. kr. sem er í samræmi við framfærslukostnað vísitölufjölskyldunnar sem mun vera nú vel yfir 115 þús. kr. á mánuði. Á þeim grundvelli höfum við reiknað út að einstaklingur þurfi a.m.k. 55 þús. kr. til framfærslu. Þetta vildi ég sagt hafa varðandi ummæli hv. þm. um kjaramál og skal ég ekki eyða frekari orðum á kjaramálin.

Mig langar til þess að fara svo nokkrum orðum um það sem kom fram í viðræðum við hina ágætu fulltrúa sem við ræddum við í morgun í hv. fjh.- og viðskn. Er þar fyrst að greina frá viðræðum sem við áttum við fulltrúa Seðlabankans en þar staðfestu þeir - sem reyndar kemur ekkert á óvart og öllum sem hafa viljað kynna sér þau mál ætti að vera orðið ljóst - að það hefur engin raunvaxtalækkun orðið. Nafnvextir hafa verið leiðréttir til jafns við þá raunvexti sem eru t.d. á lánskjaravísitölulánum þannig að þegar hæstv. ráðherrarnir koma svo fram í sjónvarpi til að berja sér á brjóst og segja: Nú hafa vextir lækkað, sjáið bara til hvað við erum snjallir, nú er þetta allt saman farið að virka, þessar efnahagsráðstafanir okkar - þá er þetta ein blekking vegna þess að raunvextir eru eftir sem áður 9,5% af lánskjaravísitölulánum og aðrir vextir, þ.e. nafnvextir á skuldabréfum og ýmiss konar öðrum fjárskuldbindingum, hafa verið leiðréttir til jafns við þessa raunvexti. Eftir sem áður stynur almenningur og atvinnulífið í landinu undan óheyrilega háum raunvöxtum.

Það var einkar fróðlegt að heyra álit forstöðumanns Þróunarfélags Íslands, Gunnlaugs Sigmundssonar, en við áttum við hann mjög fróðlegar og fjörugar umræður um erlendar lántökur. Og í nál. minni hl. er tekin setning sem Gunnlaugur viðhafði í þessum umræðum og mig langar til að lesa hana, með leyfi hæstv. forseta: „Öll okkar samskipti við þetta kyrkjandi ríkisvald eru á einn veg.“ Gunnlaugur komst einnig þannig að orði að hann vildi mjög gjarnan losna úr faðmlögum við ríkisvaldið með Þróunarfélagið. En Gunnlaugur var sömu skoðunar og við þm. Borgarafl., að ríkisstjórnin og reyndar stjórnvöld oft á undan misskilja erlendar lántökur og þær hættur sem felast í erlendum lántökum og með hvaða hætti skuli stýrt erlendum lántökum.

Ég er nefnilega alveg sammála forstjóra Þróunarfélagsins, að atvinnulífið á Íslandi á að fá frjálsan aðgang að erlendu lánsfé og það án ríkisábyrgðar. Sá aðilinn sem hins vegar á að takmarka erlendar lántökur, og helst ekki taka nein erlend lán, það er ríkisvaldið sjálft og önnur opinber fyrirtæki. Þróunarfélagið er þrátt fyrir allt hlutafélag þó svo að ríkið eigi þar stærsta hlutinn. Engu að síður ber að líta á Þróunarfélagið sem sjálfstætt hlutafélag og í því tilliti verður að líta á Þróunarfélagið sem hvert annað atvinnufyrirtæki.

Ef atvinnufyrirtækin í landinu fengju tækifæri til þess að taka erlent lánsfé beint án afskipta ríkisvaldsins og án ríkisábyrgðar þá er ekki nokkur vafi á því að vextir mundu stórlækka og atvinnulíf gæti fengið þar nauðsynlega innspýtingu, vítamíngjöf til þess að fara út í eðlilegar fjárfestingar og byggja upp ný atvinnutækifæri. Það er nefnilega mesti misskilningur að allt erlent fjármagn sé af hinu vonda. Ef ekki er til nóg fjármagn í landinu til þess að kosta þá nauðsynlegu uppbyggingu á atvinnulífinu sem við þurfum á að halda þá er ekkert óeðlilegt við það að taka erlent lánsfé. En það er langeðlilegast að gera það beint og milliliðalaust þannig að Jón Jónsson geti samið við erlendan banka um að fá erlent lánsfé án þess að ríkið skipti sér þar nokkuð af. Það er síðan Jón Jónsson sem verður að vera ábyrgur fyrir því að hann geti endurgreitt lánið og að sjálfsögðu erlendi bankinn sem féllst á að lána honum það. Ríkisvaldið þarf ekki að hafa svo miklar áhyggjur af Jóni Jónssyni, hann mun sjá um sig.

Fulltrúar Landsvirkjunar komu á fund okkar og þeir töldu að þeir gætu út af fyrir sig lifað við þennan niðurskurð sem nemur 75 millj. kr. — Hæstv. forseti. Ég tel nú afar óeðlilegt að hér sé enginn ráðherra viðstaddur sem þetta mál varðar, þ.e. hvorki hæstv. fjmrh. né hæstv. viðskrh., og ég veit ekki hvort það er eðlilegt að við höldum þessari umræðu mikið áfram án þess að hafa nokkurn hæstv. ráðherrann til þess að beina til þeirra spurningum. (Forseti: Hv. þm. hefur ekki fyrr en nú óskað eftir nærveru þeirra og ég óska eftir að vita hvaða ráðherra hann vill fá.) Ég mundi telja eðlilegt að hæstv. fjmrh. væri hér í salnum þegar við erum að ræða hér um þessar merkilegu ráðstafanir ríkisstjórnarinnar. (Forseti: Ég mun gera ráðstafanir til þess að hann komi hingað.) Ég bið forláts, virðulegur forseti, en ég áleit að hæstv. ráðherrann hlyti að vera á leiðinni hingað. En nú hef ég talað allnokkra stund og sé að hann kemur ekki í salinn, þannig að ég taldi þá að lokum nauðsynlegt að vekja athygli á þessu.

Til þess að tefja ekki umræður í hv. þingdeild skal ég halda hér nokkuð áfram í trausti þess að hæstv. ráðherrann birtist. Ég ætla að fjalla aðeins um ummæli og það sem forráðamenn Landsvirkjunar höfðu að segja við okkur nefndarmenn í morgun. En eins og ég var byrjaður að segja frá áðan töldu þeir að niðurskurðurinn kæmi e.t.v. ekki mjög illa við Landsvirkjun að þessu sinni, þar sem þeir hafa þegar náð nokkrum skuldbreytingum sem gera það að verkum að þeir geta sparað við sig greiðslur sem nema um 30 millj. kr. á ári. Hins vegar vil ég ítreka það sem kemur fram í nál. að forráðamenn Landsvirkjunar telja að allar aðgerðir ríkisvaldsins í þá veru að þrengja möguleika fyrirtækisins til þess að taka ný erlend lán til þess að skuldbreyta eldri óhagstæðari lánum, þær virka að sjálfsögðu íþyngjandi og enda á einn veg: þær hækka raforkuverð til landsmanna. Fyrirtæki eins og Landsvirkjun hlýtur að verða að hafa frjálsan aðgang að því hvenær sem færi gefst að grípa tækifærið og skuldbreyta eldri óhagstæðum lánum ef ný betri lán fást.

Þá kem ég að þeim kafla sem fjallar um viðræðurnar við fulltrúa sveitarfélaganna. En fulltrúar sveitarfélaganna voru mjög harðorðir í garð hæstv. ríkisstjórnarinnar og heyrðust orð eins og svik, svo ekki sé meira sagt. Í máli þeirra kom fram að allar götur frá því að farið var að skerða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þá hefur ríkið „stolið“ af sveitarfélögunum um 1 milljarði kr. sem er engin smáupphæð.

Hæstv. forseti. Er nokkuð vitað um ráðherra? (Forseti: Ég hef gert ráðstafanir til að fjmrh. komi.) (SkA: Það er nú séns að taka upp þögnina.) (KP: Sumir eru ragir við það.) Já, ég hafði nú ekki hugsað mér að slá hér nein ný met eða komast í metabók Guinnes. Ég læt meðflokksmanni mínum og samþingmanni mínum það alveg eftir.

Ég sé, hæstv. forseti, að hæstv. viðskrh. er nú að ganga í salinn og reyndar sé ég svona glitta í hæstv. fjmrh. Ég mundi þá kannski vilja taka upp aftur þá umræðu sem ég var reyndar búinn að fjalla nokkuð um, en það er um erlendar lántökur. Ég vildi gjarnan eiga nokkur orðaskipti við hæstv. ráðherrana um hugtakið „erlendar lántökur“. Það er nefnilega vaxandi spurning og ýmsir fulltrúar atvinnulífsins í landinu spyrja: Er ekki kominn tími til að breyta algjörlega þeirri stýringu sem verið hefur á erlendum lántökum fram til þessa? Eins og fulltrúi og forstjóri Þróunarfélagsins, Gunnlaugur Sigmundsson, sagði við okkur í morgun, svo ég endurtaki nú það sem ég sagði áðan, þá óskar hann eftir því að losna úr faðmlögum við ríkisvaldið og fá að reka Þróunarfélagið sem hvert annað atvinnufyrirtæki þó svo að ríkið að sjálfsögðu eigi þar... (Gripið fram í: Á það ekki félagið?) Ja, við skulum segja að ríkisvaldið á þar stærsta hlutinn en það breytir því ekki að hér er um sjálfstætt hlutafélag að ræða. En ég tek þetta nú bara sem dæmi því að ég á hér almennt við atvinnufyrirtæki sem eru í fjárfestingum til þess að byggja upp og skapa ný atvinnutækifæri. Ég held þeirri skoðun fram sem ég hef heyrt mjög víða í þjóðfélaginu að slík fyrirtæki eigi að fá frjálsan aðgang að erlendu lánsfé, án ríkisábyrgða og án nokkurra afskipta ríkisins. Þetta hefði tvennt í för með sér. Þetta mundi geta rennt styrkari stoðum undir íslenskt atvinnulíf og orðið til þess að efla útflutningsgreinarnar. Þetta mundi verða til þess að lækka vexti vegna þess að það er nóg framboð nú á erlendu lánsfé á mun hagstæðari kjörum en þeim okurvöxtum sem hér eru við lýði, á þeim lánskjörum sem eru hér innan lands. Og að lokum, svo ég endurtaki það sem ég sagði áðan: Því þarf ríkisvaldið að hafa áhyggjur af því þó Jón Jónsson taki lán hjá erlendum banka? Væntanlega hlýtur erlendi bankinn að kanna mjög aðstæður Jóns Jónssonar, rannsaka hvort það sé þorandi að lána honum. Ef svo illa fer að Jón Jónsson getur síðan ekki borgað þetta lán, ja, þá er það vandamál erlenda bankans. Ég sé ekki að ríkið þurfi að hafa svona miklar áhyggjur af þessu eins og það hefur haft hingað til. Hins vegar er ég jafnsannfærður um það að þar sem á að takmarka erlendar lántökur það er hjá ríkinu sjálfu. Það á ekki að taka nein erlend lán. Það á að reyna að draga saman útgjöld frekar en að mæta aukinni tekjuþörf með erlendum lántökum. Þar er ég alveg sammála niðurskurði á erlendum lántökum.

Þess vegna erum við síður en svo ánægðir með þær ráðstafanir að setja sérstakt gjald á erlendar lántökur. Og nú er lagt til að tvöfalda þetta gjald sem verður til þess eins að þau fyrirtæki sem eru háð því að taka erlend lán til atvinnuuppbyggingar verða að hleypa því út í verðlagið með einum eða öðrum hætti. Þetta verður einfaldlega til þess að hækka verðlag í landinu. Það er alveg ljóst. En ég hefði viljað heyra álit hæstv. viðskrh. á þessum hugmyndum um að gefa erlendar lántökur að einhverju leyti frjálsar, en á móti ber að sjálfsögðu að draga verulega úr erlendum lántökum ríkisins sjálfs.

Ég var að fjalla um niðurskurðinn á Jöfnunarsjóði, þ.e. framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna. Í þeim viðræðum sem við áttum við fulltrúa sveitarfélaganna á fundi fjh.- og viðskn. í morgun voru fulltrúar sveitarfélaganna hvað harðorðastir í garð þessara ráðstafana og gagnrýndu mjög þennan niðurskurð. Það er mjög athyglisvert sem kemur fram hjá fulltrúum sveitarfélaganna hvað þessi niðurskurður hefur í för með sér.

Það er talið að heildarvelta sveitarfélaganna á þessu ári verði um 12,5 milljarðar kr. og þar af hafi sveitarfélögin um 20% til eignabreytinga. Hér er því um að ræða 2,6 milljarða kr. sem sveitarfélögin hafa fyrirhugað að verja til eignabreytinga og þetta þýðir 10% skerðingu á þeim lið. Þetta kemur að sjálfsögðu ekkert mjög illa við stóru sveitarfélögin, aðallega þó sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu. Það kom fram í máli fulltrúa sveitarfélaganna. En litlu sveitarfélögin úti á landi þola mjög illa þessa skerðingu. Mörg minni sveitarfélaganna hafa um helming tekna sinna gegnum jöfnunarsjóðsframlagið sem þýðir að sjálfsögðu að skerðingin á þeirra möguleikum verður miklu, miklu meiri en t.d. skerðingin á eignabreytingarmöguleikum stóru sveitarfélaganna hér eins og Reykjavíkur, svo maður taki hana nú sem dæmi, enda hafa hæstv. ráðherrarnir fyrst og fremst beint spjótum sínum að Reykjavík þegar þeir hafa óskað eftir því að dregið verði úr framkvæmdum á vegum sveitarfélaganna. Þó kom einnig fram í máli fulltrúanna að Akureyri stendur mjög illa. Þeir segja að þessi niðurskurður komi einkar illa við Akureyri. Fjárhagsástand Akureyrarbæjar hefur undanfarin ár verið með þeim hætti að þeir þola þessa skerðingu verr en öll hin stóru sveitarfélögin. Þeir hafa haft alla sína tekjustofna eins háa og þeim hefur verið framast unnt undanfarin ár og hafa þess vegna engar viðbótartekjur eins og sum stærri sveitarfélaganna hafa getað búið til með því að hækka vissa tekjustofna, en það var rúm til þess hjá mörgum hinum stærri sveitarfélaga.

Þá er annað sem er athyglisvert, og kom fram í máli fulltrúa sveitarfélaganna. Í janúar og febrúar hefur verið greitt til sveitarfélaganna miðað við óskert framlag í Jöfnunarsjóð. Þessi skerðing kemur því enn þá frekar illa við Jöfnunarsjóðinn. Nú þarf að endurskoða greiðslurnar sem eftir eru ársins og það getur orðið með þeim hætti að sum sveitarfélaganna verði raunverulega stopp, þau hafi þar af leiðandi enga frekari fjármuni til eignabreytinga. Þau verði búin að nota upp allt fé til eignabreytinga þessa fyrstu tvo mánuði ársins.

Við þm. Borgarafl. hér í Ed. áskiljum okkur rétt til að greiða atkvæði gegn þessum lið ráðstafananna. Við teljum að þessar ráðstafanir séu mjög ófullkomnar og hvergi líklegar til þess að leysa þau vandamál sem blasa við í íslensku efnahagslífi, enda höfum við ekki haft nándarnærri nógu mikinn tíma til þess að fara ofan í þessi mál og þá hugsanlega að koma með brtt. Og það er trú mín að það muni ekki líða á löngu þar til að koma þurfi með nýjar efnahagsráðstafanir og á nýjan leik keyra í gegn á hinu háa Alþingi frv. til ráðstafana í ríkisfjármálum og efnahagsmálum.

Þá var einkar fróðlegt að eiga orðaskipti við fulltrúa fjmrn. og forstjóra Þjóðhagsstofnunar. En þar var verið að tala um hver yrði viðskiptahallinn á árinu. Þar er nokkur ágreiningur, sem reyndar kom fram í máli hæstv. fjmrh. í umræðunum í gær. Hann telur að viðskiptahallinn verði ekki nema 8,5 milljarðar kr., en Þjóðhagsstofnun telur að hann verði 10,5 milljarðar kr.

Við óskuðum eftir því að fulltrúar ráðuneytisins og forstjóri Þjóðhagsstofnunar gerðu okkur grein fyrir þessum mismun, í hverju hann væri fólginn. Það kom fram í máli fulltrúa ráðuneytisins að hér væri um það að ræða að þeir teldu að meira mundi draga úr einkaneyslu innan lands en Þjóðhagsstofnun telur að verði, svo og að þeir telja að það verði meiri verðmætaaukning á sjávarafurðum, bæði með framleiðniaukningu hjá ýmsum fyrirtækjum í sjávarútvegi svo og vegna aukinnar markaðssóknar erlendis. Fulltrúi og forstjóri Þjóðhagsstofnunar taldi þetta vera tálvon þó hann kannski kæmist ekki þannig að orði. En hans skoðun var sú að ef eitthvað þá mundi viðskiptahallinn verða enn þá meiri. Hann vildi ekki nefna neinar tölur en sá grunur læðist að okkur að hefði forstjóri Þjóðhagsstofnunar fengið að segja sannleikann umbúðalaust eins og hann blasir við honum, þá hefðum við séð þarna miklu, miklu hærri tölur um hver viðskiptahallinn verður á árinu 1988.

Hæstv. félmrh. er ekki til staðar í deildinni. Ég ætla nú ekki að gera virðulegum forseta þann óleik að fara að krefjast þess að hæstv. félmrh. verði kallaður hér á fund í deildinni. Það hefur verið mjög erfitt að fá hana hingað. Hún kom hér fyrr í dag og ætli við verðum ekki að láta það vera nóg. Það er búið að fara svo illa með hæstv. félmrh. í hv. Nd. að ég veit ekki hvort við eigum að fara að bæta þar um betur í Ed. (KP: Hún stendur nú fyrir sínu.) Það kann vel að vera, hv. þm., en ... (Forseti: Skilur forseti það rétt að hv. þm. óski þrátt fyrir allt ekki eftir að gerð sé tilraun til að kalla á félmrh.?) Nei, ég mun ekki gera kröfu til þess.

Mig langar til að fara nokkrum orðum um það sem kom fram í máli hæstv. félmrh. áður en fundi var frestað til þess að við gætum haldið þingflokksfundina, en þar fjallaði hún um þær upplýsingar sem við fengum hjá fulltrúum Húsnæðisstofnunar sem komu á fund fjh.- og viðskn. í morgun. Við spurðum fulltrúa Húsnæðisstofnunar sérstaklega um það hverju það breytti að forgangshópurinn, sem svo er kallaður, var stækkaður með þeim breytingum á húsnæðislögunum sem voru samþykkt á Alþingi fyrir jólin. En forgangshópurinn er þeir sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð. Og með þeirri breytingu sem varð fyrir jólin bættust við þeir sem eiga við húsnæðisvandamál að stríða í þeim skilningi að stór fjölskylda búi í litlu húsnæði eða húsnæðisaðstæður séu mjög slæmar. Þetta hefur stækkað forgangshópinn nokkuð og hefur það leitt til þess að umsóknum að sjálfsögðu fjölgar, þ.e. umsóknum frá forgangshópnum. Hins vegar töldu fulltrúar Húsnæðisstofnunar að skerðingarákvæði frv. sem var samþykkt rétt fyrir jólin þar sem þeir sem eiga fleiri en tvær íbúðir eiga að sitja eftir á hakanum og eins þeir sem eiga mjög stóra íbúð skuldlausa. Þeir töldu að hér væri um mjög fámennan hóp að ræða þannig að þetta hefði óveruleg áhrif.

Ég hef reyndar kannað það hjá öðrum sérfræðingum Húsnæðisstofnunar, sent ekki komu til viðtals hjá nefndinni, að í reynd mun þetta verða svo að þetta frv. breytir engu. Því áður var það ævinlega gert að húsnæðismálastjórn tók á öllum þeim vandamálum sem til hennar bárust vegna fólks sem bjó við slæmar húsnæðisaðstæður og reyndi að leysa þau mál sem um forgangshóp væri að ræða. Hinir voru hvort sem var, samkvæmt gömlu lögunum, í forgangshópi og málum annarra var hvort sem var skotið aftur fyrir í biðröðinni þannig að viðmælendur mínir sem ég hef átt orðaskipti við um þessa hluti segja að frv. hafi í raun og veru engu breytt.

Við fengum í leiðinni þær upplýsingar að þessa mánuðina berast um 400–600 umsóknir á mánuði og þannig er komið að því að um næstu áramót liggja fyrir 12 000 umsóknir óafgreiddar í húsnæðislánakerfinu.

Hæstv. félmrh. gat þess að það hefði verið hún sjálf sem hefði skipað endurskoðunarnefndina, hina vísu menn sem hæstv. fjmrh. sagði okkur frá í gær, og er allt gott um það að segja. - Hér sé ég að hæstv. félmrh. gengur í salinn og er það ekki verra en ég hafði ekki sérstaklega óskað eftir því. Það er vel að hún komi hér þrátt fyrir allt til þess að hlýða á mál okkar.

Ég er að fjalla hér um húsnæðismálin og ég vildi einungis segja það að húsnæðislánakerfi sem situr uppi með 12 000 umsóknir óafgreiddar við árslok 1988 er ónýtt eins og við bentum á fyrr í haust þegar við lögðum fram frv. til laga um húsnæðislánastofnanir og svo síðar þegar við gerðum viðamiklar brtt. við frv. hæstv. félmrh. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þá gerðum við grein fyrir alveg nýju kerfi húsnæðislánamála sem er endurskoðað kerfi frá grunni.

Það kann vel að vera að endurskoðunarnefndin gluggi eitthvað í þessar tillögur og geri þær að sínum. Þannig má vera að við komum að einhverju liði og hjálpum hæstv. félmrh. við að leysa húsnæðismálin og skal ekki standa á okkur að hjálpa til við það. Ég tel það ekkert eftir mér að hafa lagt í það ásamt hv. 11. þm. Reykv. Guðmundi Ágústssyni að vinna nýjar tillögur í húsnæðislánamálum sem nefndinni eru þar með frjálsar til afnota að sjálfsögðu.

Ég held ég fari að stytta mál mitt. Ég hef farið í gegnum bæði nál. og nokkur þau atriði sem vöktu athygli mína í meðferð fjh.- og viðskn. á frv. í morgun. Mig langaði svo að lokum að fara nokkrum orðum um stórmerkilegt plagg sem hagfræðideild Seðlabankans, þ.e. þeir fulltrúar Seðlabankans sem komu á fund nefndarinnar í morgun, skildi eftir hjá okkur sem sýnir hvernig staða útflutningsatvinnuveganna hefur verið frá því 1979 fram til dagsins í dag. Þetta plagg gerir ráð fyrir og reiknar vísitölu samkeppnisstöðu sem svo er kölluð en það er mælikvarði á það hversu hagstæð skilyrði eru búin útflutningsatvinnugreinunum.

Árið 1979 var þessi vísitala 100 stig en þá telja fulltrúar Seðlabankans að hafi verið eitt mesta góðæri sem við höfum búið við. Árið 1979 er því talið toppár í þeim skilningi að þá hafi útflutningsatvinnuvegirnir búið við sérlega hagstæð ytri skilyrði. Þessi vísitala fer síðan lækkandi fram til 1984. Þá fer hún enn á ný yfir 100 stig eftir að hafa verið í 91–99 stigum árin þar á undan. Hún kemst síðan hæst í 107,3 stig 1986 en dettur niður í 96,5 stig á árinu 1987. Ef við skoðum þessi tvö ár og reyndar spá fyrir árið 1988 hefur vísitalan verið ársfjórðungslega eins og hér segir: Á fyrsta ársfjórðungi 1986 er hún 105,2 stig, á öðrum ársfjórðungi 1986 er hún 109,7 stig sem er það hæsta sem þessi vísitala kemst í á þessu tímabili. Á árinu 1986, á þriðja ársfjórðungi, er hún 108,2 stig. Síðan lækkar hún á fjórða ársfjórðungi í 106,2 stig. Á fyrsta ársfjórðungi 1987 er hún 105,0 stig. Fram að kosningum 1987 er þessi vísitala enn þá mjög há og skilyrði eru öll mjög hagstæð í íslensku þjóðarbúi. Síðan sígur allt á ógæfuhliðina. Á öðrum ársfjórðungi 1987 dettur hún niður fyrir 100 stig, verður 99,0 stig. Á þriðja ársfjórðungi verður hún 95 2 stig og síðan á fjórða ársfjórðungi 1987 er hún 88,5 stig. Spá fyrir 1988, miðað við óbreytt gengi, er að þessi vísitala samkeppnisstöðu verði 86,3 stig á fyrsta ársfjórðungi, 82,5 stig á öðrum ársfjórðungi og 80,8 stig á þriðja ársfjórðungi og síðan fari hún niður í 80 stig á fjórða ársfjórðungi. Við 6% gengisfellingu breytist þessi spá í að vísitalan verður 88,0 stig á fyrsta ársfjórðungi, 87,1 stig á öðrum ársfjórðungi, 85,1 stig á þriðja ársfjórðungi og 84,3 stig á fjórða ársfjórðungi 1988.

Það er því alveg ljóst að hæstv. ráðherrarnir þurfa enn að takast á við geysileg vandamál sem er að rétta við stöðu útflutningsgreinanna því að það er hrikaleg þróun sem hér kemur fram, að vísitala samkeppnisstöðu skuli komin niður fyrir 90 stig og ætla að haldast þar allt árið 1988 og það virðist ekkert lát vera á því eða útlit fyrir að þetta breytist. Þetta hlýtur að sjálfsögðu að tengjast þeirri fastgengisstefnu sem ríkisstjórnin hefur gert að hornsteini efnahagsstefnu sinnar þó svo að hæstv. viðskrh. hafi komið inn á það í ræðu sinni í gær að hornsteinninn hefði eitthvað verið fluttur til en það væri búið að múra hann fastan aftur. Það er þá ekki verra en svo að það þarf kannski að færa hann til enn á ný og múra hann svo aftur fastan. Þannig er auðvitað hægt að tala um fastgengisstefnu með því að hæstv. ráðherrarnir verði að burðast með þennan hornstein sinn út og suður og múra hann alltaf fastan jafnharðan.

Með þessu er ég ekki að segja að við séum fylgjandi gengisfellingarleiðinni. Það hafa allir farið í gegnum hana og vitað að hún ein og sér leysti engin okkar vandamál. Hins vegar hlýtur að verða að viðurkenna þá staðreynd að þegar allur kostnaður innan lands hækkar upp úr öllu valdi, og það er eins og ég gat um áðan í ræðu minni, þá gengur ríkisvaldið alltaf fremst fyrir vagninum í að hækka þjónustu sína en verð útflutningsafurða okkar stendur nánast í stað miðað við að dollarinn vegur mjög þungt í myntvoginni. Því hlýtur að sjálfsögðu að fara illa og það verður að taka þeim afleiðingum sem þetta hefur í för með sér sem er hinn gífurlegi viðskiptahalli. Hann stafar af því að alls kyns skran, liggur mér við að segja, er núna á útsöluverði vegna þess hve hinir erlendu gjaldmiðlar eru ódýrir svo og að til viðbótar hefur komið veruleg tollalækkun.

Nei, hæstv. ráðherrar. Ég held að mikið verk sé fram undan og þessar efnahagsráðstafanir leysa í raun og veru ekki neitt. Þær eru hálfkák, eins og ég gat um í ræðu minni í gær, sem kannski bjargar einhverju næstu dagana en ég spái því að áður en langt um líður þurfum við að taka miklu stærri og sársaukafyllri spor til þess að koma einhverju lagi á okkar efnahagsmál.