02.03.1988
Efri deild: 64. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5297 í B-deild Alþingistíðinda. (3534)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Ingibjörg Daníelsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ítreka það sem ég sagði í gær að mér finnst flestar af þeim leiðum sem fyrirhugaðar eru í frv. að settu marki rangar og óréttlátar.

Ég minni sérstaklega aftur á eina þeirra, þ.e. skerðingu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Eins og fram hefur komið er framlag úr sjóðnum allt að 55% af tekjum hinna smærri sveitarfélaga og mér er ómögulegt að líta á þessa ráðstöfun ríkisstjórnarinnar öðruvísi en sem vilja hennar til þess að leggja hina fátækari hreppa í eyði.

Aðrir tekjustofnar þessara sveitarfélaga eru mjög af skornum skammti, t.d. er yfirleitt um litlar útsvarstekjur að ræða og fasteignagjöld eru í lágmarki. Ýmis sameiginlegur kostnaður er mjög mikill vegna mannfæðar, t.d. varðandi rekstur grunnskóla og heilsugæslustöðva en það er tiltölulega mun dýrara að reka mjög smáar stofnanir þó það sé ekki alltaf viðurkennt af ríkisvaldinu. Má þar nefna að í sambandi við gæslu í grunnskólum er bara greidd viss upphæð á hvert barn. Það sem gengur þá af verða sveitarfélögin að taka á sig.

Það er líka hægt að nefna snjómokstur vega en Vegagerðin greiðir aðeins fáeinar ferðir í sambandi við mokstur á þeim vegum sem ekki teljast til stofnbrauta og það segir sig sjálft ef sveitarfélagið er fátækt er hreinlega ekkert mokað og getur verið ófært dögum saman og jafnvel vikum nema þá fyrir einhver torfærutæki.

Síðan er hægt að nefna smölun afréttarlanda en það er víða orðið mjög erfitt að manna þessar smalamennskur og þar af leiðandi eru þær mjög dýrar. Eftir því sem þrengt er meira að þessum litlu sveitarfélögum verður mannlífið þar daprara og drungalegra og þeir sem sjá sér fært drífa sig á braut.

Uppbygging þjónustu við aldraða er víða mjög brýn en hún er ekki fyrir hendi í flestum hinna smærri sveitarfélaga. Þar er þessi þjónusta þó hvað nauðsynlegust vegna þess að meðalaldur er víða mjög hár því yngra fólkið hefur ekki eftir miklu að slægjast heima fyrir og fer því flest í burtu. Því er ekki hægt nema að litlu leyti að treysta á nágrannana til hjálpar.

Hæstv. forseti. Ég legg ríka áherslu á að farið verði að lögum varðandi tekjur Jöfnunarsjóðs og vara við þeim afleiðingum sem skerðing sem þessi hefur óhjákvæmilega í för með sér.