02.03.1988
Efri deild: 64. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5298 í B-deild Alþingistíðinda. (3535)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það kom upp í fjh.- og viðskn. í morgun óvissa um það hvernig farið yrði með greiðslur vegna bóta fyrir eyðingu refs og minks sem talið er að á næsta ári muni nema 8 millj. kr. og munu renna til veiðistjóra af fjárlagalið 04–205 og færast síðan sem tilfærsla til sveitarfélaga.

Ég átti viðræður um þetta mál við hæstv. fjmrh. og hæstv. landbrh. og niðurstaðan af því varð sú að þessi greiðsla skuli innt af hendi úr ríkissjóði og koma áhrif þess fram í því að í stað 61 millj. kr. tekjuafgangs í fjármálum ríkissjóðs á yfirstandandi ári eins og fram kemur í grg. frv. lækkar hann í 53 millj. kr. Lánsfjárþörf brúttó hækkar samsvarandi úr 5 milljörðum 114 millj. kr. í 5 milljarða 122 millj. kr. Brtt. er flutt á sérstöku þskj. og hefur henni verið dreift og vil ég biðja hæstv, forseta að leita afbrigða svo að brtt. megi koma fyrir. Ég tek fram að þessi brtt. er flutt í samræmi við þá skoðun sem fram kom í nefndinni eins og ég skildi hana og hygg að ekki sé ágreiningur frá einstökum nefndarmönnum um það.

Ég tek það aðeins fram vegna ummæla hv. 7. þm. Reykv. um eignabreytingar hjá Akureyri eins og þær líta út samkvæmt fyrri umræðu fjárhagsáætlunar þar að gert er ráð fyrir að á fjárhagsáætlun renni 114 millj. kr. til eignabreytinga, ríkissjóður leggur fram 37 millj. og lán er tekið upp á 107 millj. og þessu fé ráðstafað með þeim hætti að til framkvæmda renna 90 millj. kr., innstæða hjá ríkissjóði vegna staðgreiðslu þar sem greiðsla desemberlauna dregst fram í janúar er 54 millj. kr. og til afborgunar lána 115 millj. kr. Ég tel rétt að þetta komi fram vegna villandi upplýsinga sem gefnar voru í nefndinni í morgun og óbeint komu fram í ræðu hv. 7. þm. Reykv. sem raunar hefur síðan, eins og ég, fengið fyllri upplýsingar frá bæjarfulltrúum á Akureyri og er þetta ekki stórmál.

Ég vil aðeins segja varðandi þau viðtöl sem nefndin átti við ýmsa fulltrúa opinberra stofnana í morgun að það er rétt, sem fram hefur komið, að þessir áhugasömu embættismenn vilja auðvitað gjarnan gera meira fyrir sínar stofnanir en heimildir Alþingis standa til. Það kom fram við gerð fjárlaganna nú í desembermánuði að hugur þeirra stefndi hærra. Eins tekur þessa embættismenn auðvitað sárt að ekki skuli verða orðið við ýtrustu kröfum þeirra nú en þeir verða að sætta sig við það að við þær aðstæður sem við búum við er óverjandi annað en að draga að nokkru úr útgjöldum ríkissjóðs til þess að mæta þeim kostnaðarauka sem ráðstafanirnar hafa í för með sér og þarf ekki að hafa mörg orð um það. Við þekkjum þetta öll.

Ég vil svo aðeins taka eftirfarandi fram út af þeim ummælum sem fram hafa komið vegna misvísandi upplýsinga um verðlagsþróun, viðskiptahalla og fleira frá Þjóðhagsstofnun annars vegar og fulltrúum fjmrn. hins vegar. Það er ekkert óeðlilegt þegar reynt er að spá eitt ár fram í tímann þótt sérfræðingarnir séu ekki sammála um einstök atriði. Ef svo væri mundi það einungis sýna það að embættismönnunum væri stýrt stranglega af ríkisstjórninni og mættu ekki segja annað en þeir fengju uppáskrifað þaðan. Auðvitað reyna þessir menn að gefa sem fyllstar upplýsingar hver og einn. Forsendur eru að nokkru mismunandi sem þeir gerðu grein fyrir í nefndinni en ég held að heildarmyndin sé sú sama, að með þessum ráðstöfunum væri í fyrsta lagi stefnt að því að draga úr viðskiptahalla sem þó verður of mikill. Í öðru lagi benda spárnar eindregið til þess að verðlagsþróun síðari hluta ársins verði með þeim hætti að verulega dragi úr verðbólgu sem er auðvitað öllum mikið kappsmál og grundvöllur þess að festa skapist í efnahagslífinu sem aftur er forsendan fyrir því að rekstur atvinnufyrirtækjanna gangi betur sem síðan getur leitt það af sér að kaupmáttur geti vaxið á ný.

Með þetta í huga er það auðvitað rétt, sem hv. 7. þm. Reykn. sagði áðan, að aldrei hefur tekist að bæta kjörin til langframa hér á landi með neinum kjarasamningum sl. 70 ár. En hitt er auðvitað jafnrangt að lífskjör hér á landi hafi ekki batnað á sl. 70 árum. Auðvitað duga kjarasamningar ekki einir til ef menn vilja bæta kjörin. Auðvitað verður sá grundvöllur að vera fyrir hendi að fyrirtækin standi undir útgjöldum þjóðfélagsins, að verðmætasköpunin sé það mikil að hægt sé að reka þetta þjóðfélag. Hitt getum við að sjálfsögðu ekki hugsað okkur að erlendar skuldir vaxi svo að til neyðarástands komi hér á landi.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta að svo stöddu en ítreka beiðni mína um að leitað verði heimilda til að brtt. megi fram koma.