02.03.1988
Efri deild: 64. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5310 í B-deild Alþingistíðinda. (3539)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð út af spurningu síðasta hv. ræðumanns sem spurðist fyrir um hvað ríkisstjórnin hygðist gera í sambandi við almannatryggingabætur eða elli- og örorkulífeyri. Því er til að svara að í athugasemdum fjárlagafrv. fyrir árið í ár er gerð grein fyrir því hvernig lífeyristryggingarnar voru útreiknaðar og hvaða upphæðir það eru sem þar er gert ráð fyrir og hvernig hugsað var að greiða bætur á þessu nýbyrjaða ári. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Á árinu 1988 er miðað við sömu forsendur og í hækkun launaliða frv., þ.e. bætur hækki um 3% 1. jan. 1988, 2% 1. febr. og 2% 1. júlí. Hækkanir þessar eru í samræmi við breytingar á almennum kauptöxtum.“

Hér mun vera miðað við kauptaxta opinberra starfsmanna.

Við höfum nú þegar látið koma til framkvæmda tvær af þessum hækkunum eins og hér greinir frá, 1. jan. 3% hækkun og 1. febr. 2% hækkun, þannig að nú þegar hafa bæturnar almennt hækkað um 5% og auk þess má minna á að í tengslum við breytingar á tekjuöflun ríkissjóðs, sem mikið voru hér í umræðu um áramótin í þinginu, fólst m.a. í hliðarráðstöfunum ríkisstjórnarinnar hækkun á almannatryggingabótunum. Þetta fól í sér hækkun umfram þessar prósentutölur, sem ég áður greindi frá, 2% almenna hækkun og 5% hækkun á tekjutryggingu og heimilisuppbót, þannig að þessar bætur hækkuðu samtals um 5% almennt 1. jan. og 8% tekjutryggingin og heimilisuppbótin þannig að nú þegar á þessu ári hafa bætur almannatrygginga, elli- og örorkulífeyrir, hækkað verulega. Ég geri ráð fyrir því hins vegar að þetta verði tekið til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi á morgun vegna þess að í 79. gr. almannatryggingalaganna segir svo, með leyfi forseta:

„Nú verður breyting á vikukaupi í almennri verkamannavinnu og skal ráðherra þá innan sex mánaða breyta upphæðum bóta skv. lögum þessum“. Það er vissulega hér verulegt svigrúm til úrbóta ef almennar breytingar verða á kauptöxtum, en ég lít svo á að nú þegar hafi þær hækkanir sem komið hafa til framkvæmda verið á móti þeim hækkunum sem nú hefur verið samið um í almennum kjarasamningum Verkamannasambandsins og vinnuveitenda, en ítreka að þetta mun verða tekið til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi á morgun og þá rætt um það nánar hvernig við skuli bregðast og þá hvaða bætur eru hugsaðar á elli- og örorkulífeyri í framtíðinni og í framhaldi af þessum samningum og öðrum sem við getum átt von á.

Ég vænti þess að þetta hafi svarað fsp. hv. þm. Ég held að það hafi ekki verið annað sem til mín var beint varðandi þessa umræðu.