29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

23. mál, einnota umbúðir

Flm. (Kristín Einarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið til máls um þessa tillögu og ég vil sérstaklega þakka hæstv. heilbrrh. fyrir undirtektir og fagna því að það sé verið að vinna að þessu máli í ráðuneytinu.

Vegna orða Ragnhildar Helgadóttur, hv. 3. þm. Reykv., um aukna fræðslu í umhverfismálum vil ég benda á tillögu Kvennal. um umhverfisfræðslu sem er á þskj. 10. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að efla og samræma fræðslu um umhverfismál í grunnskólum og framhaldsskólum landsins og á meðal almennings.“ Ég gleðst yfir stuðningi hv. þm. við þetta mál þó að hún hafi kannski ekki heyrt þegar mælt var fyrir því núna í síðustu viku.

Varðandi það að talað var um að það þyrfti kannski að breyta lögum var mat þeirra sem leitað var ráðgjafar hjá að þess þyrfti en ef annað kemur í ljós þarf bara að setja reglugerð og er það þá allt í lagi.

Það væri kannski rétt að það yrði ekki einungis heilbrrn. sem mundi fjalla um reglugerð af þessu tagi, heldur yrði það þá væntanlega líka menntmrn. vegna þess að Náttúruverndarráð heyrir undir það og e.t.v. enn fleiri ráðuneyti þar sem umhverfis- og mengunarmál falla undir mörg ráðuneyti eins og fram hefur komið.

Vegna undirtekta við þetta mál vænti ég að við sjáum fljótlega fullbúna nýja reglugerð varðandi þetta mál og þá kannski breytingar á lögum, en það sem mikilvægast er að það verði einhver breyting til batnaðar á ástandinu vítt og breitt um landið vegna mengunar samfara notkun einnota umbúða.