02.03.1988
Efri deild: 64. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5312 í B-deild Alþingistíðinda. (3541)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka hv. 7. þm. Reykv. fyrir þau ummæli hans að ástandið í þjóðfélaginu sé nú þannig að víðtæka þjóðfélagslega samstöðu þurfi til að ná því markmiði, sem við í rauninni öll viljum ná og skýrt kom fram í hans ræðu, að hér væri stöðugleiki í efnahagslífinu, að hér næðist að verja kjör hinna lægst launuðu og okkur tækist svo að komast fram úr þeim stundarörðugleikum sem við stöndum nú frammi fyrir að sá mikli ávinningur sem náðst hefur á síðustu missirum glatist ekki heldur geti orðið okkur viðspyrna til þess ekki aðeins að halda því sem við höfum náð heldur byggja upp til framtíðarinnar því að vitaskuld tek ég undir þau ummæli, sem hann hafði áðan, að það hefði verið dapurlegt á 8. áratugnum og fram eftir þeim 9. að verðbólgan fór oft og tíðum dagvaxandi, að hinir mætustu menn urðu að grípa til gengisfellinga með reglulegu millibili, að ekki réðst neitt við peningamálin, að við söfnuðum erlendum skuldum.

Hitt er hins vegar alger misheyrn hjá hv. þm. að ég hafi sagt að síðan 1971 hafi engin verðmætasköpun orðið í þessu þjóðfélagi. Það sagði ég alls ekki. Það sem ég sagði var að verðbólgan hefði eytt sparifé landsmanna, að á verðbólguáratugnum, ég vil segja að eftir að verðtrygging lána og gengistrygging lána varð almenn regla í útflutningsatvinnuvegunum, brann eigið fé þessara fyrirtækja upp. Ef við förum á hinn bóginn 17 ár aftur í tímann og minnumst þess þegar sú vinstri stjórn var mynduð sem þá sat illu heilli í þrjú ár var þannig umhorfs í atvinnulífinu að Fiskveiðasjóður lánaði óverðtryggðar íslenskar krónur til byggingar fiskiskipa, að öll rekstrarlán útgerðarinnar voru í íslenskum óverðtryggðum krónum, að svo mikill sparnaður var í landinu á þeim tíma að við gátum að verulegu leyti staðið undir þörfum atvinnurekstrarins með innlendu fé. Það sem síðan gerðist á næstu árum, þrátt fyrir opinbera stýringu á vöxtum eða réttara sagt vegna opinberrar stýringar á vöxtum, vegna of mikilla afskipta ríkisvaldsins af peningamálunum, var að spariféð brann upp og hin skuldugustu fyrirtæki, sem höfðu átt undir högg að sækja við stjórnarskiptin 1971, urðu á næstu missirum að forríkum fyrirtækjum sem mörg hver hafa síðan verið burðarásar í sínum sveitarfélögum. Með þessum orðum mínum var ég síður en svo að segja að öll verðmæti hafi gufað upp. Það voru ekki mín ummæli, enda færði hv. þm. glögg rök fyrir því að ef slíkri fullyrðingu hefði verið haldið fram væri hún dæmalaust vitlaus.

Hitt sagði ég, og um það held ég að við séum sammála, ég og hv. 7. þm. Reykv., að í verðbólgunni þegar hún var mest var misskiptingin líka mest í þessu þjóðfélagi. Þá tókst verr en á öðrum tímum að halda hinum almennu lífskjörum hér á landi milli einstakra starfshópa í jafnvægi. Það var alkunn staðreynd, sem allir vissu, að þeir efnameiri, þeir sem höfðu rýmstu fjárhagsgetuna gátu með margvíslegum hætti hagnýtt sér einmitt verðbólguna sem aftur bitnaði með fullum þunga á hinum sem naumust höfðu fjárráðin. Þetta vitum við og um þetta þurfum við ekki að deila.

Hv. þm. vék svo að þessum gömlu trúarbrögðum sínum, sem ég raunar veit að hann á erfitt með að losa sig við, að halda því fram að með því að loka hagkerfinu hér, með því að taka upp skömmtunarstjórn hér á landi í innflutningi, með því að setja hvers kyns hömlur á útflutninginn, með því að stjórna vöxtunum frá degi til dags með opinberum tilskipunum sé hægt að halda einhverju jafnvægi í íslenskum efnahagsmálum og hægt að treysta til frambúðar verðmætaaukningu í þjóðfélaginu. Þetta eru örgustu ósannindi, einhver mestu öfugmæli sem ég hef heyrt á minni lífsfæddri ævi. Þvert á móti sýnir reynslan síðan losað var um höftin að þjóðin kann að nýta sér það nú eins og jafnan áður í sögunni að hafa meira olnbogarými. Ég hygg að enginn vafi sé á því að hin frjálsa markaðsstarfsemi hafi valdið því á örskömmum tíma að ótrúlega miklu meiri verðmætasköpun hefur orðið hér á landi en ella mundi. Hitt er svo algjörlega rétt hjá hv. þm., sem hann lýsti með skáldlegum hætti þegar hann talaði um að hengja gengið upp á snaga, að við erum ekki búnir að koma okkar markmiðum til fulls fram, sjálfstæðismenn. Okkur hefur ekki tekist að skapa hér hið frjálsa opna hagkerfi sem við viljum einmitt skapa. Við þurfum að ná því fram að gjaldeyririnn verði með öllu gefinn frjáls. Það er mikið hagsmunamál, ekki síst fyrir framleiðsluatvinnuvegina og hinar strjálu byggðir. Ég veit að hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson skilur það sem sýndi fram á með glöggum rökum að auðvaldið í vondri merkingu þess orðs eru ekki útgerðarmennirnir, eru ekki þeir sem að sjávarútveginum vinna. Það eru ekki þeir menn sem vilja sölsa undir sig verðbólgugróðann heldur hafa andstyggð á slíku fé. Það eru þeir menn sem Ólafur Thors barðist mest og best fyrir og það eru þeir menn sem Sjálfstfl. hefur helgað sína baráttu frá öndverðu. Það er hin frjálsa útflutningsstarfsemi. Þess vegna er það svo í málflutningi okkar sjálfstæðismanna, sem ýmsum þykir kannski svolítið einhæft, að í okkar ræðum hvar sem við erum staddir leggjum við jafnan ríka áherslu á að nauðsynlegt sé að tryggja með sem víðtækustum hætti að undirstöðuatvinnuvegirnir geti gengið, þ.e. að útflutningsatvinnuvegirnir og samkeppnisgreinarnar hafi sem rúmastar hendur. Við höfum í þeim efnum m.a. lagt áherslu á að umhverfi sem þessi fyrirtæki vinna í hér á landi sé sambærilegt við það sem gerist erlendis. Það er af þessum sökum sem við höfum beitt okkur fyrir margvíslegri lagfæringu á tollalöggjöf, á lögum um söluskatt. Það er af þessum sökum sem við erum nú ákveðin í að ná því fram að löggjöf um virðisaukaskatt verði lögfest um næstu áramót. Það er af þessum sökum sem við höfum verið hörðustu talsmenn þess í þessari stofnun að útflutnings- og samkeppnisgreinarnar fái hinn uppsafnaða söluskatt til baka og við viljum ekki að þeim sé safnað í sjóð heldur ætlumst við til þess að fyrirtækin sjálf fái þessa peninga sem þeim er nauðsynlegt til að rétta þeirra samkeppnisstöðu við gagnvart erlendum aðilum. (SkA: Af hverju höfðuð þið hina skoðunina í sumar?) Þetta er kjarni málsins í því sem ég vil segja, en ég þakka og ítreka þakklæti mitt til hv. 7. þm. Reykv. fyrir að hann skuli hér svo eftirminnilega hafa látið þá skoðun koma fram að þeir menn sem nú eru að reyna að efna til illinda í þjóðfélaginu, sem eru að reyna að sprengja upp þá skynsamlegu og hógværu kjarasamninga sem gerðir voru, eru að vinna illt verk. Ég skil vel að hann að sögðum þessum ummælum skuli hafa miklar áhyggjur af því ef þessi launastefna skyldi nú fara úr böndunum og svo skuli fara sem oft áður að þeir sem hærri hafi launin geti sölsað meira undir sig, annaðhvort með samningum eftir á eða með launaskriði og sérsamningum sem við þekkjum dæmi um.

Ég tek undir það með hv. þm. að við urðum fyrir vonbrigðum með það, sjálfstæðismenn, að sá mikli efnahagsbati sem náðst hafði skyldi ekki endast út sl. ár og þá skuli hafa komið upp það mikla þensluástand sem við upplifðum. Nú kann ég ekki að skilgreina þenslu. Ég veit ekki hvort hægt sé að segja að þensla geti þýtt eitthvað á þá lund að tilteknar atvinnugreinar eða starfsgreinar hafi aðstöðu til þess á einhverjum tíma að draga til sín fólk og fjármagn meira en eðlilegt getur talist frá öðrum starfsgreinum, nái til sín meira af þjóðarauðnum en réttmætt getur verið. Þetta átti sér vissulega stað í byggingariðnaðinum. Auðvitað var líka eðlilegt að slíkt ástand skapaðist á því ári sem vinnulaun fólks voru undanþegin opinberum gjöldum í raun þar sem tekjur sl. árs komu aldrei til skattlagningar jafnframt því sem hagur sjávarútvegsins hafði verið mjög góður sem auðvitað þýðir jafnan að miklir peningar fara út í þjóðfélagið. Það þýðir líka velmegun í verslun, í þjónustugreinum og ýtir undir hvers konar opinbera fjárfestingu. Það má vera og er auðvitað rétt eftir á að við hefðum betur gripið fyrr inn í, en þá kemur að hinu, sem ég hef áður minnt á, að reynsla er fyrir því að til efnahagsráðstafana er illt að grípa nema fólk almennt finni að þær séu nauðsynlegar. Ég veit ekki hvort ég má segja í þessu sambandi að það var nú svo óvænt nú, þegar krafan kom um gengisfellinguna eftir áramótin, að það var eins og sumir stjórnmálamenn töluðu um gengisfellingu eins og hún væri einhver sérstök kjarabót fyrir fólkið í landinu. Það var að heyra á sumum mönnum sem um gengisfellinguna töluðu. Auðvitað er gengisfelling ekki kjarabót fyrir fólkið í landinu í þeim skilningi að hún bæti kjörin í bráð, en hitt er auðvitað rétt, og það vitum við hv. 4. þm. Vesturl. báðir jafn vel, að í lengd getur gengisfelling verið nauðsynleg til að tryggja rekstrargrundvöll undirstöðuatvinnuveganna og þannig til langframa (SkA: Það er ekki bara að rétt gengi sé nauðsynlegt.) styðja að sómasamlegum lífskjörum sem réttilega eru ekki einungis þeir peningar sem maður fær úr launaumslaginu heldur líka öll þau réttindi og öll sú trygging sem þjóðfélagið getur gefið þegnunum í víðasta skilningi þess orðs.