02.03.1988
Efri deild: 64. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5315 í B-deild Alþingistíðinda. (3542)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að verða við tilmælum forseta um að halda ekki óeðlilega langa ræðu. Þó að okkur kunni kannski að greina á um hvað er eðlilegt í því efni verður að spyrja að leikslokum og ég er ekki með neinar hótanir uppi, hæstv. forseti.

Fyrst vil ég aðeins víkja að því að ég held að það sé út af fyrir sig ekkert á móti því að það fari fram í þinginu almennar umræður um efnahags- og atvinnumál. Ég held að það sé satt að segja hollt að menn viðri sín sjónarmið rækilega í þeim efnum vegna þess að þar er oft komið inn á grundvallaratriði og endar þá gjarnan með því, þegar þannig háttar til og farið er yfir grundvallaratriðin, að menn kannski skilja hver annan betur þó menn séu ekki alveg hundrað prósent sammála í einstökum atriðum. Þess vegna held ég að það sé af hinu góða að menn taki sér smálotu í að ræða um hin almennu efnahagsmál.

Ég vil aðeins víkja að því sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði síðast, fyrst það að það væri nauðsynlegt að verja kjarasamninga. Það getur út af fyrir sig verið nauðsynlegt að verja kjarasamninga. Ég var í þessum kafla ræðu minnar áðan einkum að tala við þá hv. þm. Karvel Pálmason og Karl Steinar Guðnason, sagði sem svo að ef menn vildu verja þá hækkun sem komið hefur fram í samningum VMSÍ og VSÍ sé óhjákvæmilegt að menn þori um leið að taka á afleiðingum markaðsstefnunnar, gróðahyggjunnar, gróðastarfseminni sem hefur verið uppi hér í þessu landi. Ég tel reyndar að þeir samningar sem gerðir hafa verið séu ekki nógu góðir og í þeim efnum getum við því miður ekki aðeins spurt, því það mundi einfalda margt fyrir stjórnendur landsins, um atvinnuvegina. Við hljótum fyrst að spyrja um það fólk sem þarf að lifa af þeim kauptöxtum sem verið er að semja um. Ég hygg að allir þm. geti verið mér sammála um að enginn þeirra mundi treysta sér til að draga svo mikið sem fram líftóruna með 31 500 kr. á mánuði. Að því leytinu til ná þessir samningar ekki máli að mínu mati. Ég tel að lægstu laun hefðu þurft að hækka meira og ég tel að eðlilegt sé að menn velti því fyrir sér hvort það er til pólitískt vald í landinu til að lyfta upp þessum launum.

Hv. þm. Halldór Blöndal vék síðan aðeins að verðbólgunni og sagði: Á árunum 1970–1980 át verðbólgan upp sparnaðinn í landinu. Það er alveg rétt að hún gerði það. Af hverju var það? Það var vegna þess að verðtrygging fjárskuldbindinga var bönnuð með lögum. Hver bannaði verðtryggingu fjárskuldbindinga? Það var viðreisnarstjórnin með lögum sem voru sett 1966. Viðreisnarstjórnin kom í veg fyrir að unnt væri að verðtryggja fjárskuldbindingar í þessu landi og það tók 13 ár að skapa aðstæður til þess ai3 hægt væri að taka upp verðtryggingu fjárskuldbindinga. Það var ekki gert fyrr en með lögum nr. 13/1979, sem viss maður ekki allfjarri mér, stendur þarna í gættinni, kom dálítið nálægt að semja og ég svo að samþykkja og neyddist til að samþykkja sumt af því nauðugur. En ekki þetta ákvæði. Það var gott og skynsamlegt ákvæði. Ég held að það sé nauðsynlegt að átta sig á að viðreisnarstjórnin bannaði að menn fengju að verðtryggja fjármuni, verðtryggja lífeyrissjóði. Það var þess vegna sem þessir sjóðir brunnu upp í eldi verðbólgunnar. Þetta var m.ö.o. liður í þeirri stefnu Sjálfstfl. að það mætti ekki vera um að ræða neinar sjálfvirkar viðmiðanir í launum eða efnahagsstærðum yfir höfuð.

Síðan víkur hv. þm. Halldór Blöndal að því að sá sem hér stendur sé haldinn þeim gömlu trúarbrögðum að það eigi að loka öllu og hefta allt. Þá vil ég segja við hv. þm. Halldór Blöndal: Hann er haldinn þeim gömlu trúarbrögðum að ég sé haldinn þessum trúarbrögðum því að Sjálfstfl. lifir m.a. á því að Alþb. sé haldið þessum trúarbrögðum og þess vegna reynir íhaldið að halda þessu við. En þetta er misskilningur, hv. þm.

Auðvitað er staðan þannig í okkar þjóðfélagi að margvíslegar efnahagslegar ákvarðanir verða til á milli einstaklinganna í samfélaginu og er útilokað að skrifa það niður í lögum í smáatriðum hvernig það á að ganga fyrir sig. Hins vegar geta menn tekið ákvarðanir um að veita efnahagskerfinu aðhald, t.d. að koma í veg fyrir auðsuppsöfnun hjá tilteknum þáttum í þjóðlífinu, eins og t.d. versluninni eða hvað það nú er. Þess vegna er það algjör misskilningur að um einhver trúarbrögð sé að ræða í þessum efnum hjá okkur. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að ef hægt væri að losa menn við svoleiðis lagað úr pólitík væri margt betra en það er í dag því ég held nefnilega að menn séu margir býsna mikið haldnir af trúarbrögðum, ritúölum, og séu orthodox úr hófi fram á flestum sviðum. Menn eiga að beita skynsemi í þessum efnum en ekki ofstæki.

En af því að hv. þm. Halldór Blöndal var að kvarta undan því að það væri mín skoðun að það ætti að skammta og skammta er best að rifja upp hverjir það eru sem eru að skammta, hverjir hafa tekið upp einhverja hörðustu skömmtunarstjórn sem um getur á Íslandi síðan fjárhagsráð leið sem íhaldið stofnaði á sínum tíma, um það leyti sem ég var að fæðast eða upp úr því.

Hvaða skömmtunarstjórn er það sem er hér í gangi? Hér mega menn ekki veiða fiskkvikindi án þess að hafa pappír úr sjútvrn. með stimpli í bak og fyrir. Hér mega menn ekki framleiða landbúnaðarafurðir án þess að vera með pappíra úr landbrn. og stimpil í bak og fyrir. Og ætli það sé ekki skömmtunarstjórn á húsnæðismálunum hjá krötunum núna þar sem menn verða að bíða fram á næsta áratug (JúlS: Næstu öld.) eftir því að fá húsnæðislán, jafnvel fram á næstu öld. Ég hygg að það sé leitun á annarri eins skömmtunarstjórn og þeirri sem nú situr í landinu undir forustu Sjálfstfl. Og að heyra svo þann ágæta mann, formann fjh.- og viðskn. deildarinnar, vera að tala um að Sjálfstfl. vilji frjálsa útflutningsstarfsemi. Það vill hann nefnilega ekki. Hann er að því leytinu til dálítið líkur mér, Sjálfstfl. Ég vil ekki þessa frjálshyggjuvitleysu í útflutningnum og Sjálfstfl. hefur tekið viðskrh. á beinið fyrir það trekk í trekk sem betur fer. Þetta er einmitt dæmi um trúarbrögð. Hv. þm. Halldór Blöndal hefur lært að það gildi í Sjálfstfl. að útflutningsstarfsemin eigi að vera frjáls. (HBl: Ég sagði ekki útflutningsstarfsemin.) Frjáls útflutningsstarfsemi, sagði hann aftur og aftur, og að hún eigi að vera frjáls. Þetta er dæmi um trúarbrögð, um ritúal. En svo gerir hann allt annað þegar hann kemur út úr messunni. Þegar búið er að framkvæma skurðgoðadýrkunina í Valhöll gera þeir allt annað. Þá eru þeir auðvitað á móti þessu frjálshyggjurugli í útflutningsversluninni, skárra væri það nú, og þannig séð er Sjálfstfl. nokkuð góður, enda er kostulegt að rifja upp að það þurfti krata í viðskrn. til þess að menn færu að hrófla við ágætu kerfi sem hefur verið í þessum efnum um langt árabil.

Ég ætla síðan að víkja að ræðu hæstv. fjmrh. sem hann flutti bersýnilega til að stytta umræður og auðvelda niðurstöður mála. Hann skýrði frá því að samgrh. hefði líka látið bóka andstöðu sína. Af því að þetta dróst loksins upp úr honum núna er kannski fróðlegt að vita: Voru kannski fleiri ráðherrar sem bókuðu andstöðu sína? Bókuðu þeir allir? Væri kannski hægt að fá bókanirnar eins og þær leggja sig og birta þær sem þskj. út úr þessari makalausu ríkisstjórn? Hæstv. ráðherra lét þess ekki getið.

Hins vegar rifjaði hann upp nokkra sagnfræði sem er sú að þrátt fyrir ungan aldur hefði ég um skeið, sem hér stend, farið með félagsmál og heilbrigðismál og flokksbróðir minn Ragnar Arnalds með fjármál. Mikið rétt. Hann upplýsti jafnframt, þessi hógværi leiðtogi Alþfl., sem er svo skínandi ánægður með sjálfan sig þessa dagana þegar hann er að fara svona með varaformann Alþfl., að það hefði ekki margt tekist vel í þeirri stjórn þar sem við Ragnar höfðum með þennan málaflokk að gera. Margt má um það mál segja. Sumt tókst vel, annað miður.

Það var t.d. nefnt af hæstv. ráðherra að hlutfall húsnæðislána í okkar tíð hafi verið heldur lágt, það er rétt, og við vorum gagnrýnd fyrir það af Alþfl. og Framsfl. og Sjálfstfl. í kosningunum 1983 að þetta væri allt of lágt, þetta væri aumingjadómurinn í okkur og ekkert annað. Sjálfstfl. birti tillögur fyrir kosningarnar 1983 um að það ætti að hækka þetta upp í 80%, Framsfl. sömuleiðis í grænum pésa sem var dreift um allt landið og þar sem stóð: „Framsfl. ætlar að hækka húsnæðislánin í 80% af kostnaðarverði staðalibúðar og auka lífshamingjuna í landinu“, Hvorugt hefur nú gengið mjög vel, verð ég að segja.

Hæstv. núv. félmrh. las mér auðvitað lesturinn í þeirri stjórn og sömuleiðis hv. þm. Alexander Stefánssyni í síðustu stjórn fyrir að þetta væri alveg ómögulegt kerfi, allt í steik og allt í vitleysu. Staðreyndin er hins vegar sú að lánin voru lág, en menn fengu þau. Menn fengu lánin. Nú er hins vegar komið upp nýtt kerfi í þessum efnum sem er þannig að lánin eru sögð há, en menn fá þau ekki fyrr en á næsta, þar næsta eða jafnvel þar þar næsta kjörtímabili þegar hæstv. félmrh. er farinn úr stólnum fyrir löngu. Ég held að í rauninni sé það húsnæðiskerfi sem Alþfl. núna ber ábyrgð á fyrst og fremst gallað vegna þess að það vekur mönnum tálvonir, dregur upp tálmynd sem er ekki hægt að standa við vegna þess að peningarnir eru ekki til. Ég held að það sé betra í húsnæðismálum eins og öðrum málum fyrir ráðherra að koma hreint til dyra og segja: Ég hef þessa peninga til ráðstöfunar og menn geta fengið þessa peninga innan tiltekins tíma eftir ákveðnum reglum, en vera ekki að vekja upp hjá mönnum falskar vonir um hlutina sem enginn getur staðið við. En það er það sem íhaldið, framsókn og kratarnir hafa verið að gera á undanförnum árum, vekja upp von hjá fólki um að það yrði hægt að leysa húsnæðisvandamálin svo að segja einn, tveir, þrír fyrirhafnarlaust áður en nokkur maður þyrfti að borga. Og vei þeim fyrir þennan blekkingarleik!

Síðan kemur hæstv. fjmrh. með þessa yfirgengilegu hundalógík. - Hundalógík, sagði ég, hann var ekki víttur fyrir það og ég vonandi ekki heldur, þá hundalógík að þar sem ráðherrar innan ríkisstjórnar þurfa oft að semja um mál sín á milli og fagráðherrar nái því ekki fram sem þeir vilja í öllum tilvikum vegna stöðu ríkissjóðs þýði það í hverju tilviki vantraust á viðkomandi fagráðherra þó að menn semji sig að niðurstöðunum. (Gripið fram í.) Það er einmitt það sem ég var ekki að segja, hæstv. ráðherra. Það er athyglisvert með þessa krataráðherra. Þeir skilja ekki hvað er þingræði. En þingræði er þetta: Ríkisstjórn leggur tiltekna tillögu fyrir þingið. á bak við það hafa átt sér stað pólitískar umræður og samningar á milli flokka og milli ráðherra. Þessi tillaga er pólitísk tillaga ríkisstjórnarinnar í heild.

Það kann vel að vera að einn hafi náð þessu fram, annar tapað hinu, en það er niðurstaðan. Núna er mismunurinn hins vegar sá að það er verið að ganga yfir málaflokk hæstv. ráðherra félagsmála í þessari tillögu, flytja vantraust á hana með 8. gr. þessa frv. Nefnið þið mér eitt einasta dæmi, gluggagægjar Alþfl., nefnið þið mér eitt einasta dæmi um að svona hafi áður verið að málum staðið. Þið getið það ekki. (HBl: Frv. Ólafs Jóhannessonar um efnahagsráðstafanir.) Nei, nei. Það var ekki afgreitt fyrr en að undangengnum samningum milli flokka og ráðherra um málið. Það er ekkert dæmi um vinnubrögð af þessu tagi, ekki neitt. Og ætla sér að líkja saman almennri undirbúningsvinnu við fjárlög eða skattalög við það sem hér er á ferðinni sýnir að menn skilja ekki þingræðið, átta sig ekki á því um hvað þingræðið snýst.

Svo leyfði hæstv. fjmrh. sér að tala um að á þessum tíma hefði byrjað misgengi launa og lána. Ja, þvílíkt! Ja, þvílíkt! Hverjir ætli hafi lagt fram frv. í þinginu í formi fskj. í desember 1978 þar sem var kveðið á um að laun mættu ekki hækka nema um ákveðið stig en að lánskjaravísitala ætti að mæla hækkanir á skuldbindingum. Hverjir skyldu hafa lagt það frv. fram? Hverjir skyldu hafa samið það? Jón Baldvin Hannibalsson, þáv. þm. eða varaþm. Alþfl. Frv. komst hins vegar aldrei hér inn sem þskj., en það var aftur á móti birt í Alþýðublaðinu og það vill svo vel til að ég á það plagg. Þar er í raun og veru upphafið að misgengisstefnunni þar sem það var ákveðið fyrst að launin skyldu ekki hækka nema um þessar tilteknu prósentur þó að lánskjaravísitala æddi upp úr öllu valdi. Hugmyndafræðingar misgengisins eru kratarnir. Þannig liggur það mál.

Síðan ætluðu þeir að sprengja stjórnina 1978 og 1979 af því að menn vildu ekki kokgleypa þessi ósköp og það tók marga mánuði í stjórninni að snúa þá niður af þessari vitleysu, tókst að vísu um skeið, en endaði svo með því að þeir sprungu á limminu af því að þeir höfðu ekki þrek til að takast á við þann vanda sem fylgdi olíuverðhækkuninni sumarið 1979. Svo koma þessir menn hér og bregða öðrum um hundalógík. Ég held að aðrir ættu að hafa þau orð uppi.

Staðreyndin er sú að málflutningur hæstv. fjmrh., útúrsnúningur hæstv. fjmrh. er gersamlega fráleitur á mínu máli. Hins vegar er þessi útúrsnúningur hans honum ekki ósamboðinn. Hann er honum fullkomlega samboðinn því að þannig hefur málflutningur hæstv. fjmrh. verið í svo að segja öllum málum í þinginu núna á undanförnum mánuðum. Ég hirði ekki um að eiga orðastað við þann hæstv. ráðherra og formann Alþfl. frekar. En ég endurtek það sem ég sagði áðan: Hér liggur fyrir tillaga frá hæstv. fjmrh. um vantraust á hæstv. félmrh. Ég mun greiða atkvæði á móti þeirri vantrauststillögu á hæstv. félmrh. hvað svo sem Alþfl. gerir í þessari deild.