02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5326 í B-deild Alþingistíðinda. (3554)

293. mál, áfengislög

Unnur Sólrún Bragadóttir:

Herra forseti. Það var aldrei ætlun mín að koma með innlegg í bjórmálið svokallaða en ég tel þó að hjá því verði ekki komist og því örfá orð. Ég er á móti frv. og ætla að rökstyðja það lítillega í þeirri von að það komi málstaðnum að gagni.

Í fyrsta lagi ofbýður mér umstangið vegna málsins á hinu háa Alþingi. Mér finnst þessum mikla tíma illa varið og eins og svo margir aðrir hef ég fengið á tilfinninguna að það sé sannast sagna ekkert þessu máli merkilegra að mati fjölmiðla. Ég tel hinu háa Alþingi skylt að afgreiða þetta mál með hraði á hvorn veginn sem svo niðurstaðan verður.

Það hvarflaði að mér hvort það væri með vilja gert að hafa bjórmálið á dagskrá núna þegar kjaramálin eru í brennidepli, hvort þessi umræða eigi að beina athygli almennings og fjölmiðla frá því sem þar er að gerast. Einhverjir munu hrista höfuðið og segja sem svo: Hvað er hún nú að rugla? Kjaramálin koma hinu háa Alþingi ekkert við, hvað þá bjórnum. Þau er vandamál verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda. En mér er spurn: Eru ekki gengisfellingar inngrip í kjaramál? Eða afnám vísitölubindingar? Hvað með matarskattinn svokallaða? Eða hefur ekki aukin áfengisneysla áhrif á kjör allt of margra? Eru markmið stjórnenda þessa lands ekki æði augljós og stefnumarkandi í kjaramálum þegar allar hækkanir eru frjálsar nema launahækkanir? Og í ljósi yfirstandandi efnahagsaðgerða ætli einhver hlakki ekki til að fá bjórpeninga í ríkiskassann? Ég ætla að tala undir ályktun formannafundar aðildarfélaga Alþýðusambands Austurlands, en þar segir, með leyfi forseta:

„Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa miðað markvisst að því að gera hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari. Stjórnlaust brask með fjármagn hefur ofurselt húsbyggjendur ríkisreknum okurlánamarkaði með þeim afleiðingum að raunverulegum öreigum fjölgar með hverri vikunni sem líður.“

Þeir hjá Alþýðusambandi Austurlands sjá sem sagt næg önnur verkefni fyrir hið háa Alþingi en bjórkarp. Ég vil enn fremur minnast á bréf sem mér var að berast frá kvenfélaginu á Breiðdalsvík þar sem hv. þm. eru hvattir til að fella bjórfrv. og beita kröftum sínum og áhrifum til að bæta atvinnuástand, en þar var einmitt verið að segja upp öllu starfsfólki frystihússins. Nei, í stað þess að taka á þeim alvarlegu vandamálum sem blasa við þorra launafólks í dag er ótrúlegum tíma þingsins eytt í að fjalla um leyfi eða ekki leyfi til bjórsölu og það ekki í fyrsta skipti. Þetta er að verða fast aðalstykki í hinu háa Alþingi.

Í annan stað finnst mér ólykt af bjórmálinu. Þar á ég við alla þá fjársterku aðila sem bíða í ofvæni eftir jákvæðu svari frá hinu háa Alþingi og þá miklu fjárhagslegu hagsmuni sem í húfi eru hjá mörgum. Bjór er bara enn ein tegund áfengis sem mér finnst satt að segja nóg af í samfélaginu fyrir. Það eru nú þegar svo margir sem eiga um sárt að binda vegna áfengis og ekki á það bætandi. En þegar gróðinn er annars vegar þá er það hann sem skiptir máli fyrst og síðast en ekki hagsmunir og velferð fólks. Það höfum við margreynt.

Einhverjir munu þá fullyrða að þarna sem annars staðar munum við sameina gróðasjónarmiðið og vilja meiri hluta þjóðarinnar. En ég veit að meiri hluti þjóðarinnar vill einnig svo margt annað brýnna, heilnæmara og jákvæðara og tel ég að hinu háa Alþingi beri fyrst að taka á slíkum málum. Um jafnréttistal og tvískinnung í sambandi við neyslu bjórs hér á landi, þ.e. að sumir geti nú þegar neytt bjórs en aðrir ekki þá vil ég bara segja þetta: Ef misréttið í samfélaginu fer svona fyrir brjóstið á sumum hv. þm. þá ættu þeir frekar að einbeita sér að öðrum mikilvægari jafnréttismálum, t.d. launamisréttinu í landinu, máli sem ótvíræður meiri hluti fólks vill að tekið verði á og mundi gjörbreyta andrúmsloftinu í samfélaginu og lífi fjölda fólks til betri vegar. Á hinn bóginn tel ég að sé bjór bannaður eigi hann að vera það í orðsins fyllstu merkingu. Þó nokkrir meðmælendur bjórs rökstyðja skoðun sína þannig að fólk eigi að geta valið. Hverjum og einum eigi að vera frjálst að kaupa bjór ef hann vilji. En áfengisneysla er ekki einkamál neytandans og við megum ekki gleyma því að eitt helsta hlutverk Alþingis er að setja samfélaginu reglur og verða þm. að treysta sér til þess.

Ég er líka sannfærð um að drykkja mundi færast í yngri aldurshópa, þ.e. að yngri börn mundu drekka bjór en þau sem nú drekka sterk vín. Ég er líka sannfærð um að áfengi yrði mun ríkari þáttur í félagslífi unglinga. Bjórneysla er litin öðrum augum en neysla annarra áfengistegunda og þætti mörgum ekkert tiltökumál þó unglingar sætu yfir bjór í góðum félagsskap eða þó þeir sæjust með bjórdollur á almannafæri.

Ég þekki nokkra sem eru það sem kallað er hófdrykkjumenn en fullyrða að ef bjórinn væri til staðar mundi drykkja þeirra tvímælalaust aukast. Þess vegna segjast þeir vera á móti bjór. Ég þekki einnig fjölda fólks sem er æstir fylgismenn bjórs vegna þess að með bjórnum sjá þeir ný tækifæri til neyslu áfengis sem félli innan siðferðisramma samfélagsins. Þeim þætti gott að fá sér bjór í kaffitímanum, einn þegar heim er komið að erfiðum vinnudegi loknum, eins konar verðlaun, með kvöldmatnum er kjörið að fá sér einn og víst verður sjónvarpskvöldið huggulegra með bjórkollu í hönd. Þá er það nú ekki dónalegt að hafa bjór að bjóða gestum, en þó væri hann líklega albestur í timburmönnunum. Og hver veit nema það kæmi lítið bjórhorn í kaffistofu hins háa Alþingis. Þá þyrfti ekki að stofna til opinberra veisluhalda til þess að komast í veigarnar.

Það má minna á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur nýlega ráðlagt að til þess að minnka heildaráfengisnotkun eigi að beita áfengispólitík Íslendinga, þ.e. að selja áfengi á fáum útsölustöðum, hafa það dýrt og banna bjór. Það væri svo aldeilis kaldhæðni örlaganna ef hið háa Alþingi samþykkti yfir okkur bjórinn á sama tíma og forseti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar boðar stefnu Íslendinga í fyrirbyggjandi aðgerðum í heilbrigðismálum. Í framhaldi af því væri fróðlegt að fá að heyra afstöðu hæstv. heilbrrh., sem ég sakna hér, til bjórfrv.

Að síðustu er það sannað að það er þó skárra að drekka í slurkum en að vera sísuplandi. Áhættan á lifrarsjúkdómum, svo sem lifrarkrabbameini og skorpulifur, er minni.

Í sjálfu sér sætti ég mig við afstöðu þeirra þm. sem eru fylgjandi bjórfrv. og segja að það geri ekkert til þó að áfengisneysla aukist. Þeirra afstaða byggist á rökum. En að fylgja bjórfrv. og halda því fram að bjórinn muni engin áhrif hafa á alkóhólneyslu landsmanna er dómgreindarskortur og má líkja við afneitunartímabil alkóhólista þar sem fyrst er dregin niðurstaða og síðan búin til rök til að undirbyggja hana.

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að tíunda hér þau læknisfræðilegu rök sem mæla gegn aukinni neyslu áfengis eða neyslu þess yfir höfuð en höfða til skynsemi hv. þm. og skora á hið háa Alþingi að fella þetta frv. hið fyrsta.