02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5344 í B-deild Alþingistíðinda. (3558)

293. mál, áfengislög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég missti því miður af hluta af ræðu hæstv. heilbrmrh., en einhvern veginn sló það mig þannig að um hana hefði e.t.v. mátt hafa það sem hét á máli teiknimyndasögupersónunnar Charlie Brown „wishywashy“. Þegar sumir hlutir voru ekki alveg klárir notaði Charlie Brown þetta orðalag.

Enn erum við farin að ræða bjórinn, herra forseti, og maður er orðinn með vissum hætti leiður á því. Ég er þó ekki leiður á því að ræða málið efnislega. Það sem ég er orðinn býsna leiður á eru sífellt árangurslausari tilraunir til að ræða þetta mál af einhverju viti, til þess að ræða það með rökum. Ég verð að segja að oft hef ég verið óánægður með íslenska fjölmiðla, oft hafa mér fundist þeir bregðast því hlutverki sínu að reyna að miðla almenningi upplýsingum og flytja gagnstæð sjónarmið fram þannig að fólkið í landinu geti í gegnum fjölmiðlana myndað sér hlutlægar skoðanir á málum. Í engu máli sem ég hef fylgst með undanfarið hafa fjölmiðlar brugðist jafnhrapallega skyldu sinni og þessu.

Ég er einnig orðinn á því, með þínu leyfi, herra forseti, alveg hundleiður að standa sífellt frammi fyrir spurningum blaðamanna og fréttamanna á Alþingi sem og annars staðar þar sem manni er skipað að lýsa afstöðu sinni til þessa máls eins og maður væri í einhverju krossaprófi og bara helst með já-i og nei-i. Ég hef mátt hvað eftir annað búa við það að starfsmenn þessara fjölmiðla hafa sett upp á sig snúð ef maður hefur neitað að láta í ljós afstöðu sína með svo einföldum hætti. Ég hef undanfarið í tvígang eða þrígang algerlega neitað að svara spurningum fréttamanna um afstöðu manna í þessu máli vegna þess að ég hafði áður orðið fyrir því að út úr rökum mínum eða rökstuðningi fyrir minni afstöðu var snúið á hinn hrapallegasta máta.

Það er mikill misskilningur að ræða þetta bjórmál eins og þar sé bara um svarta og hvíta hlið að ræða því það gæti vissulega verið svo og er svo með ýmsa hv. þm. að það er ekki gefið hvort þeir greiði atkvæði með eða móti málinu, burt séð frá því hvernig það ber að, hvert inntak þess er. Þannig er því varið með ræðumann. Ég hef aldrei haft heita sannfæringu með eða móti bjórnum eins og það heitir víst. Ég hef í hvert sinn viljað skoða hvernig ætti þá að standa að því að gera þessa breytingu á áfengislöggjöfinni og hef ævinlega sagt: Ef mér sýnist að menn hafi fundið leið til að gera þetta með þeim ráðstöfunum sem tryggi að það leiði ekki til aukinnar áfengisneyslu í landinu styð ég bjórinn að sjálfsögðu vegna þess að ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að meina mönnum að láta ofan í sig áfengi af þessum styrkleika öðrum fremur ef því fylgja þá ekki einhverjir bögglar sem við getum ekki sætt okkur við. Auðvitað er það ekki keppikefli í sjálfu sér að takmarka frelsi manna til að láta ofan í sig fóður eða vökva. Það er hins vegar eitt af því ömurlegasta við allt þetta mál að menn hafa aldrei gert heiðarlega tilraun til að reyna að finna leið til að rýmka áfengislöggjöfina hvað þetta varðar, en gera þá ráðstafanir á móti sem væru trúverðugar og ætla mætti að dygðu til þess að heildarneysla áfengis yxi ekki. Þetta finnst mér það lélegasta, bæði hjá hv. flm. þessa frv. og fyrri frumvarpa. Og ég verð að segja að einnig af hálfu hæstv. heilbrmrh. og heilbrigðisyfirvaldanna hefði verið gaman að fá einhverjar tillögur um það fram í dagsljósið hvað væri hægt að gera að öðru leyti til þá að stýra áfengisneyslunni og reyna að halda utan um hana og missa hér ekki allt á flot.

Það er að vísu þannig að frv. sem við ræðum nú, herra forseti, sem mun vera mál nr. 293, ef ég fer rétt með, er að sínu leyti skárra en hið fyrra, sem kom fyrr fram á þinginu, því að það var óbermi. Hér er um tiltölulega einfaldar og hreinar línur að ræða. Ég tel augljóslega betra að hafa þá meðferð á, sem hér er lögð til, að flokka ölið einfaldlega sem annað áfengi og láta það hlíta sömu reglum og helst að öllu leyti. Það er þó að vísu í athugasemd um 4. gr. atriði sem ég vil spyrja hv. flm. út í. Það segir neðst í athugasemdum um 4. gr.:

„Varðandi dreifingu áfengis er gert ráð fyrir að hún sé á ábyrgð ÁTVR, en jafnframt verði ÁTVR talið heimilt að semja við framleiðendur og flutningafyrirtæki um fyrirkomulag dreifingarinnar til útsölustaða ÁTVR og veitingahúsa.“

Þetta er nokkuð sérkennilegt orðalag þegar verið er að skýra lagagrein, herra forseti, að flm. láta í athugasemd við lagagreinina, ekki í sjálfri lagagreininni, í ljós þá skoðun sína að Áfengis- og tóbaksversluninni verði talið heimilt. Talið heimilt vegna hvers? Af hverju eiga menn í þessu tilviki ekki að hlíta lögunum að öðru leyti og hafa það þannig að Áfengis- og tóbaksverslunin skuli annast þessa dreifingu hvað sem tautar og raular? Ég sé ekki betur en hér sé með mjög sérkennilegum hætti verið að reyna að opna fyrir þá leið að milliliðalaust samband geti verið á milli framleiðenda eða innflytjenda á áfengu öli og neyslustaðanna, t.d. veitingahúsanna, baranna, kránna eða hvað það kemur til með að heita. Ég hefði gjarnan viljað heyra einhvern af hv. flm., t.d. hv. 1. flm. ef um slíkt er að ræða þegar hluti nefndar flytur, skýra þetta aðeins nánar.

Ég treysti mér ekki, herra forseti, til að standa að samþykkt þessa frv. eins og það er hér fram borið. Ég mun greiða atkvæði gegn því. Ég ætla að rökstyðja það ofurlítið nánar hvers vegna ég mun gera það þó að hér sé e.t.v. ekki mikið eftir af fjölmiðlamönnum og það þyki yfirleitt ekki fréttnæmt þegar menn reyna að ræða þetta mál af einhverjum rökum, heldur er hitt meira fréttaefni hvort það kemst milli umræðna eða tekið fyrir á fundum eða ekki fundum. Það hafa verið settir á langir pistlar í fjölmiðlum um þá hluti en minna gert að því að reyna að kryfja umræðuna efnislega.

Ég get ekki samþykkt frv. vegna þess að ég held að því muni fylgja aukin áfengisvandamál í landinu og ég tel mig ekki hafa nokkurn rétt til að standa að máli sem sannfæring mín segir mér að svo fari um. Burt séð frá því hversu heitt mig langaði til þess að fá áfengt öl inn í landið tel ég mig skuldbundinn til að vera trúan þeirri sannfæringu minni að ég hafi ekki verið kosinn á Alþingi til að standa að ákvörðunum sem geta leitt til aukinna áfengisvandamála.

Ég tel í öðru lagi að þessu geti ekki annað en fylgt aukin útgjöld í heilbrigðisþjónustunni og reyndar miklu víðar í hinni félagslegu þjónustu. Ég hef verið við það á Alþingi að afgreiða fimm fjárlög og ég hef verið í stjórnarnefnd ríkisspítalanna í fjögur ár þannig að ég þekki mætavel þann slag sem hér stendur á hverju einasta ári um að draga undan nöglum fjárveitingavaldsins, ef svo má að orði komast, þær krónur sem þarf til að reka þetta kerfi svo að ekki sé nú talað um einhverja uppbyggingu eins og í K-byggingu Landspítalans sem á að vera miðstöð sérhæfðustu þjónustu læknavísindanna í landinu. Þar liggja núna fyrir uppi í Ed. og eru til umræðu tillögur um niðurskurð. Halda menn að það lækki útgjöldin ef áfengisneyslan vex nú hér og menn gætu innan tíðar staðið frammi fyrir því að þriðji og fjórði hver sjúklingur á heilbrigðisstofnun væri þar vegna áfengisneyslu eins og tíðkast í okkar grannlöndum? Þetta hlutfall er blessunarlega lágt á Íslandi, enda neyslan minni en víðast hvar annars staðar.

Í þriðja lagi, herra forseti, óttast ég að það, sem er í sjálfu sér kostur við bjór umfram t.d. sterkari drykki, að menn verða ekki jafnskjótt ölvaðir af magni, geti líka verið stærsti ókosturinn og mesta hættan, t.d. gagnvart því andrúmslofti sem ríkir í umgengni við þessa tegund áfengis. Ég óttast að áfengt öl, sérstaklega léttara ölið, geti orðið fyrsta sporið inn á braut vímuefnanna, t.d. fyrir unglingana, geti leitt til þess að aldur áfengisneyslunnar færist niður og þetta verði svo lágur þröskuldur að stíga yfir að mati gæslumannanna, foreldranna og annarra slíkra aðila, að á því verði ekki tekið jafnalvarlega og ef um aðrar tegundir vímugjafa, sterkara áfengi, væri að ræða. Ég held að það sé þannig og yrði þannig hér eins og víða annars staðar að foreldrar sem mundu bregðast næsta ókvæða við ef þeir sæju barn sitt, 14–15 ára gamalt, sturta í sig hálfu viskýglasi mundu ekki kippa sér mjög mikið upp við það þó að sami unglingur drykki eina flösku af millisterku áfengu öli. Nákvæmlega sama áfengismagn er á ferðinni, en viðhorf manna og tilfinningar til þessara hluta eru með þessum hætti. Við skulum horfast í augu við það. Að því leyti held ég að ölið sé varasamt.

Ég hef eina ástæðu enn, sem vegur mjög þungt hjá mér, til að treysta mér ekki til að styðja bjórinn. Hún er að hluta til pólitísks eðlis, ég skal viðurkenna það, það er réttast að gera það hér, þannig að pólitískir andstæðingar mínir hér viti að það litar nokkuð afstöðu mína hvað þetta varðar til bjórsins. Ég óttast mjög að hér mundi bætast við enn einn liðurinn sem gerir fólkið að óvirkum neytendum, gerir þjóðfélagið að óvirkara neytendaþjóðfélagi en það þegar er og þykir mér þó nóg um. Hér glotta ýmsir hv. þm. í hliðarsölum, skilja þetta e.t.v. ekki. Ég skal skýra það út nánar.

Ég held að ein varasamasta félagslega breytingin sem hefur verið að eiga sér stað í vestrænum samfélögum á undanförnum árum og áratugum sé sú að fólkið er í vaxandi mæli að verða óvirkt. Við getum horft á það frá ýmsum hliðum. Við getum t.d. bara horft á lækkandi kosningaþátttöku ár frá ári og áratug frá áratug í mörgum vestrænum ríkjum. Hvað er sú staðreynd annað en vísbending um vaxandi óvirkni fólks í þjóðfélaginu? Það skiptir sér orðið minna af umhverfi sínu og hefur uppi minni tilburði til að reyna að hafa áhrif á hvernig umhverfið er og hvernig með það er farið. Það verður sljórra um sinn hag, það verður sljórra um sín réttindi og það rís síður upp til að reyna að hafa áhrif á umhverfi sitt og gera það meira mannbætandi. Bjórinn og aukin neysla hans, meiri dagleg neysla áfengis, þó í litlum mæli sé hverju sinni, er tvímælalaust af hinu vonda í þessum efnum. Ég bið menn að kynna sér, ef þeir hafa þá áhuga á því og nenna því, hvað t.d. þjóðfélagsfræðingar og félagsfræðingar á hinum Norðurlöndunum, Bretlandi og víðar segja um þetta sérstaklega, t.d. mikla áfengisneyslu atvinnulausra sem leggst yfirleitt ofan á þau vandamál sem þeir eiga við að stríða og er gjarnan í formi bjórs vegna þess að það er einu sinni svoleiðis að í honum er meira fóður en í öðru áfengi og þeir sem hafa lítil fjárráð slá oft tvær flugur í einu höggi með því að halda sér undir áhrifum, en fá líka einhverja fyllingu í magann.

Ég held að það sé langbest að ræða þetta eins og það er og kemur hverjum og einum fyrir sjónir. Ég er alveg ófeiminn við að tala minn hug hreinan í þessum efnum og það getur hver farið með eins og honum líkar.

Ég hef til viðbótar pólitískar ástæður fyrir því að ég vil ekki standa að breytingum hvorki í áfengismálum né annars staðar sem gera fólkið óvirkara og sljórra gagnvart umhverfi sínu. Það tel ég að stóraukin neysla bjórs, jafnvel þó að eitthvað dragi úr neyslu annarra áfengistegunda, mundi gera.

Ég nefni eitt enn og læt það duga af því að líklega sannfæri ég ekki marga í kvöld, hvorki til né frá. (Gripið fram í: Það er aldrei að vita.) Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum ættum við Íslendingar, sem höfum tvímælalaust notið þess á undanförnum árum og áratugum í minni áfengisneyslu að hér hefur ekki verið áfengt öl, sloppið þar af leiðandi við ýmis vandamál sem því hefði væntanlega fylgt, að leyfa bjórinn? Trúi menn ekki geta menn leitað sér upplýsinga um hvernig öðrum þjóðum hefur reitt af sem á þeim tíma sem við höfum ekki haft áfengt öl hafa innleitt slíkt. Með þeim fyrirvörum sem skylt er að hafa held ég að hljóti að mega skoða það.

Ég nefni frændur okkar Finna. Hvað er til umræðu í Finnlandi í dag? Að banna allan bjór eða a.m.k. að banna milliölið vegna slæmrar reynslu. Hvaða áherslu leggur t.d. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin eins og hér hefur oft verið bent á? Jú, að reyna að draga úr vandamálum sem áfengisneyslunni fylgja. Það er orðið að einhverju stærsta heilbrigðismálinu í dag, segja þessar stofnanir. Og frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnun berast nú frændum okkar Dönum ítrekuð skilaboð þess efnis að eitt stærsta félagslegt og heilbrigðislegt vandamál í Danmörku sé áfengisneysla. Ef Danir ætli að verða menn með mönnum verði þeir að taka sér tak í þessum efnum. Bretar ræða hið sama og allir vita þá ofboðslegu stöðu sem næstu nágrannar okkar Grænlendingar eru í með þessi mál. Ég spyr því: Úr því að straumurinn er í þessa áttina erlendis hvers vegna í ósköpunum eigum við þá að stökkva mér liggur við að segja hugsunarlaust út í fenið? Við höfum verið svo lánsöm að hafa tíma til að skoða m.a. reynslu annarra. Í þessu tilfelli finnst mér að við ættum að reyna að gera nú ekki einu sinni það, sem allt of oft hefur gerst, að þegar aðrar þjóðir hafa tekið upp eitthvert fyrirkomulag, haft af því nokkra reynslu, gjarnan séð að hún var slæm og ákveðið að falla frá þessari tilbreytni, þá rjúkum við upp til handa og fóta og tökum þetta fyrirkomulag upp. Þetta hefur gerst í mörgum málum. Á mörgum sviðum þjóðfélagsins höfum við 10–15 árum eftir að einhverjar breytingar urðu í nágrannalöndunum rokið til án þess að skoða þá reynslu sem aðrir höfðu af viðkomandi nýbreytni. Ég gæti tekið ýmislegt sem við höfum flutt inn frá annars því mæta ríki Svíþjóð sem þar hefur verið prufukeyrt og kannski aflagt um það leyti sem við rukum til og fórum að taka það upp. Ég tel enga ástæðu til að standa þannig að með bjórinn. Ég hef ekki nokkra trú á því að það yrði lagt mönnum til lasts þó þeir í ljósi t.d. þróunarinnar allra síðustu ár á alþjóðavettvangi og hér allt í kringum okkur hinkruðu við og segðu sem svo: Eigum við ekki aðeins að hugsa okkar gang? Úr því að svo mikil áhersla er lögð á að draga úr áfengisneyslunni allt í kringum okkur hlýtur þá ekki að vera býsna slæmt mál að menn drekki mikið brennivín og er þá ekki nauðsynlegt fyrir okkur að staldra við og gá að okkur? Ég held það væri hyggilegt.

Ég ætla svo að lokum, herra forseti, vegna þess að ég ætla ekki að fjalla um þetta mál í svarthvítu, ég tel að á þessu sé margar hliðar sem nauðsynlegt sé að ræða um, að fara aðeins yfir hvernig ég gæti stutt bjórinn til að hafa það a.m.k. á hreinu fyrir sjálfan mig og þingtíðindin að það gæti gerst og hefði vel getað gerst ef menn hefðu reynt a.m.k. og helst á sæmilega trúverðugan hátt að gera þessa breytingu í áfengismálunum í samhengi við lífið og tilveruna og aðstæður í landinu. Ég hefði t.d. talið í fyrsta lagi að tilkoma bjórsins ætti að vera hluti af heildarstefnumörkun í áfengismálum, ekki flutt sem einangrað mál heldur liður í þá mjög víðtækum ráðstöfunum og heildarstefnumörkun. Hvað gæti falist í slíku? Ég ætla að nefna nokkur dæmi.

Í fyrsta lagi: Ef við hefðum tekið um það ákvörðun samhliða því að leyfa bjórinn að lækka styrkleika brenndu drykkjanna úr t.d. 40% í 30% þannig að í hverri brennivínsflösku og vodka-flösku væri fjórðungi minna áfengi á sama verði. Það er merkilegt að það skuli enginn reka upp hlátur því það hafa menn stundum gert þegar ég hef nefnt þennan kost. En staðreyndin er sú, þó það séu kannski ekki margir hér sem vita það, að þetta hefur verið gert og með ágætum árangri sums staðar erlendis. Menn hafa farið þá leið að minnka styrkleika áfengis í mest seldu brenndu drykkjunum, setja minna áfengi og meira vatn í flöskurnar. Niðurstaðan er sú að ef þetta er selt á sama verði dregur stórlega úr áfengisneyslunni vegna þess að menn halda sig áfram við þessa einingu, flösku. Þetta gætu menn gert. Ég hefði sagt sem svo: Aha. Hér er viðleitni á ferðinni til að vinna á móti áhrifunum af tilkomu bjórsins með öðrum ráðstöfunum.

Í öðru lagi hefðu menn getað tekið um það ákvörðun samhliða því að leyfa bjórinn að þrengja reglur um úthlutun vínveitingaleyfa. Ég held að það hafi verið gerð mikil mistök á Íslandi undanfarin ár í því formi að menn slökuðu of mikið á reglum um veitingu vínveitingaleyfa eða öllu heldur að framkvæmdin varð of laus í böndunum hjá mönnum. Við erum ekkert óskaplega löghlýðin þjóð, Íslendingar, og er alveg staðreynd að það þarf að hafa lagaframkvæmd hér í býsna styrkum höndum ef vel á að fara. Þannig er það að sú tenging sem að nafninu til er á milli vínveitingaleyfa og matsölu er ekki í reynd nema algerlega til málamynda. Staðir sem að nafninu til heita matsölustaðir eru fyrst og fremst barir eða krár, jafnvel út á það eitt að geta hitað eldgamlar, þurrar og skorpnar samlokur í örbylgjuofni ofan í fólk ef einhver er svo vitlaus að láta sér detta í hug að biðja um það og fær þá gjarnan með eftirgangsmunum. Þetta er staðreynd. Þarna held ég að menn hafi fallið á prófinu. Við hefðum átt eins og Svíar t.d. að vera mjög ströng í þeim efnum að þessum skilyrðum væri fullnægt, þetta væru alvörumatsölustaðir og þar væri ekki um opinn bar að ræða sem hver og einn gæti gengið inn í af götunni og keypt sér vín. Ég þekki það af eigin raun t.d. þegar ég var einu sinni liðsstjóri fyrir landsliði á erlendri grund einmitt í því téða Svíaríki og menn vildu eftir ákveðið mót fara að hressa sig aðeins. Þá vorum við staddir í þannig hverfum að þarna voru eingöngu matsölustaðir. Þar var ekkert um það að ræða. Menn gátu fengið áfengi ef menn keyptu mat, ella ekki. Við það var staðið. Því var framfylgt. Þannig var haldið á hlutunum þar.

Ég nefni í þriðja lagi, herra forseti, um ráðstafanir sem hefðu getað haft áhrif á afstöðu mína verðstýringarákvarðanir. Ekki flytja þeir ágætu flm. bjórfrv. miklar tillögur um hvernig eigi t.d. að haga verðlagningu á öli eða þá á öðru áfengi í tengslum við þessar breytingar. Þetta skiptir máli.

Ég nefni í fjórða lagi styrkleikaflokkun áfengisins, ölsins t.d. sérstaklega. Ég hefði talið skynsamlegt að reyna að velja einhvern tiltekinn þröngan styrkleikaflokk og hafa ölið á honum. Það hefði haft áhrif að mínu mati ef við hefðum t.d. ákveðið að áfengt öl skyldi vera af styrkleikanum 3,25–3,75, hvorki meira né minna, búið. Frekar létt öl, en samt klárlega áfengi og eingöngu meðhöndlað sem slíkt og selt sem slíkt. (PP: Hvað með þá léttara öl?) Já, hv. formaður fjvn. Ég hefði talið það skynsamlegt vegna þess að ég t.d. tel að það eigi þá að lyfta, ef menn leyfa áfengt öl á annað borð, styrkleikanum svo að menn geti ekki þrætt fyrir að um brennivín sé að ræða og hefði ég talið að t.d. neðri mörkin mættu vera eins og 3,25 og efri mörkin 3,5 eða 3,75.

Í Noregi var gerð á því mjög vönduð könnun hvaða árangri mætti ná í sambandi við áfengisneyslu þar í landi ef neðri styrkleikaflokkurinn af tveimur sem þar tíðkast, pilsen, væri færður niður um 0,2%. Niðurstaðan varð satt best að segja lygileg. Það varð niðurstaða þeirra sérfræðinga að það mundi hafa ótrúlega mikil áhrif til góðs í sambandi við áfengisneyslu í Noregi ef þessi þjóðardrykkur þeirra, pilsen, yrði deyfður þó ekki meira en þetta. En það varð að vísu allt vitlaust í Noregi og menn treystu sér ekki fram með þetta. Þar er hins vegar alveg föst flokkun, tveir flokkar, tiltölulega sterkt öl og þessi eini styrkleikaflokkur af frekar léttu milliöli.

Ég nefni í fimmta lagi aldurstakmarkanir. Það hefði alveg komið til greina að mínu mati að beita einhverjum ráðstöfunum í þeim efnum til að reyna að tryggja t.d. að drykkjualdurinn færðist ekki niður með tilkomu ölsins og þá er ég að tala um einhverjar reglur og ráðstafanir sem menn mundu framfylgja, ekki bara setja til málamynda.

Ég nefni í sjötta lagi það fyrirkomulag sem Færeyingar hafa og menn hafa nú gjarnan hlegið að, en ættu að hætta því eins og reyndar flestu öðru sem frændur okkar Færeyingar gera. Þeir gera mjög margt betur en við Íslendingar. Þeir láta menn ekki hafa heimildir til að kaupa brennivín nema þeir hafi borgað skattana sína. Þetta er alveg snilldargóð hugmynd, afar góð og holl þjóðfélagsleg hugmynd. Fyrst leggur þú þitt af mörkum til samfélagsins og síðan máttu fara og kaupa eitthvað af brennivíni fyrir afganginn ef einhver er. En þetta kemur ekki í öfugri röð eins og það gerir því miður mjög oft, sérstaklega þegar þessi mál eru komin úr böndunum.

Ég nefni í sjöunda lagi áróður, hræðslu. Ekki gera þeir ágætu flm. bjórfrv. sérstakar tillögur um slíkt í sinni tillögu. Það hefði haft nokkur áhrif á mína afstöðu ef menn hefðu lagt til að 5 eða 10% gjald á hverja einustu ölflösku rynni í sérstakan sjóð sem yrði ráðstafað til að auka fræðslu og reka áróður gegn óhóflegri neyslu áfengis. Ég er enn að tala um hluti sem yrði þá staðið við, yrðu framkvæmdir en ekki skertir strax á næstu lánsfjárlögum eins og þessi ríkisstjórn mundi örugglega gera ef hún sæti þegar svona ráðstöfun yrði gerð.

Þetta hef ég nefnt, herra forseti, til að sýna tvennt: rökstyðja það og láta það vera geymt í þingtíðindunum að afstaða mín til bjórsins byggir á rökum og hefði getað breyst ef öðruvísi rök hefðu legið fyrir, en líka til þess að sýna fram á fátækt þessarar umræðu að mörgu leyti, sérstaklega af hálfu þeirra, herra forseti, sem vilja endilega troða þessu öli inn í landið. (RH: Þm. hlýddi ekki á mína ræðu. Þar voru rökin.) Það hafa örugglega verið mörg og ítarleg rök í þeirri ræðu og ég skal lesa hana með ánægju eins og ég geri yfirleitt þegar ég les efni eftir hv. frammíkallara.

Ég held að það megi með þessum hætti og raunar mörgu fleiru, sem ég gæti tínt hér til en hirði ekki um, rökstyðja að það væri vel hægt að hugsa sér þessa breytingu, það að taka inn áfengt öl með tiltækum og víðtækum ráðstöfunum þannig að það leiddi ekki til aukinnar neyslu og aukinna áfengisvandamála. En það er næstum að segja engin viðleitni uppi af hálfu þeirra sem gerast talsmenn og stuðningsmenn þessarar breytingar í þá átt. Það er lélegt. Það verð ég að segja, herra forseti, með fullri virðingu fyrir forsetanum og öllum öðrum. Það er lélegt vegna þess að þetta mál er ekki nýtt og flm. hafa væntanlega vitað að til að mynda heilbrigðisstéttirnar í landinu upp til hópa eru mjög andsnúnar þessari breytingu og hafa af því miklar áhyggjur hvað gæti fylgt í kjölfar henni. Ég hefði talið meiri manndómsbrag að því fyrir flm. að reyna þá að vanda sig alveg sérstaklega og vera með ítarlegan og rökstuddan málflutning af því tagi að trúverðugt hefði mátt kallast en ekki einhverjar bjálfalegar setningar í greinargerðum og ég tala nú ekki um ósköpin í fyrra frv. sem eins og ég segi var að öllu leyti vitlausara en þetta. Ég fell ekki fyrir þeim. Það vantar meira til. Ég held að menn verði að vanda sig dálítið ef þeir ætla að koma með rök sem halda eitthvað gagnvart þeim yfirgnæfandi rökum af ýmsu tagi sem benda til þess að breyting af þessu tagi mundi verða til ófarnaðar í áfengismálum fyrir þjóðina.

Herra forseti. Ég er að hugsa um að hafa þetta ekki lengra að sinni og þarf í sjálfu sér ekki miklu við þetta blessað bjórmál að bæta. Ég hef áður rætt það og áður rökstutt mína afstöðu og geri það nú orðið eingöngu af einhverjum sagnfræðilegum þráa til að það komi þá fram í þingtíðindunum vegna þess að ég geri mér grein fyrir því að stór hluti þjóðarinnar, mestallir fjölmiðlarnir og reyndar margir þm. eru orðnir gersamlega skotheldir fyrir rökum í þessu máli.

Ég kemst þó ekki hjá því að svara einu sem oft hefur dunið bæði á mér og fleirum held ég sem sérstaklega erum andvígir bjórnum, það er aldrei sagt um hina sem fylgja honum, að við séum að reyna að hafa vit fyrir þjóðinni með afstöðu okkar í bjórmálinu. Þetta á að vera eitthvert ægilegt skammaryrði um okkur hv. þm. sem leyfum okkur að hafa tiltekna afstöðu í þessu máli og þetta sé óþolandi gerræðislegt að því leytinu til að við séum að reyna að hafa vit fyrir þjóðinni, það sé ljótt að reyna að hafa vit fyrir þjóðinni. Ég spyr menn gjarnan, sérstaklega ef það eru stjórnmálamenn að nafninu til sem segja þetta við mig: Hvað eru menn yfirleitt að gera á Alþingi? Með næstum því hverri einustu ákvörðun sinni hér eru menn að hafa vit fyrir þjóðinni í vissum skilningi þess orðs. Menn eru að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á líf og störf og umhverfi fólksins í landinu næstum því ævinlega - eða eru menn ekki að hafa vit fyrir þjóðinni þegar þeir t.d. taka ákveðnar ákvarðanir eins og er verið að ræða uppi í Ed. um ráðstafanir á skattfé hennar? Auðvitað. Þetta er furðulegur málflutningur og barnalegur.

Það má líka í öðru lagi spyrja: Á ekki sá hluti sem er andvígur bjórnum úti í þjóðfélaginu rétt á því að hafa hér sína málsvara? Er hægt að gera kröfu um það að þeir séu nákvæmlega í hlutfalli við það sem kemur út úr einhverri skoðanakönnun þennan eða hinn daginn sem sveiflast til um 10, 15 eða 20%? Auðvitað ekki. Ef bjórinn er slíkt úrslitaatriði fyrir kjósendur í landinu að það ræður öllu skipta þeir um þm. og kjósa þm. sem vilja leyfa bjórinn. Ég hef ekki legið á því við mína kjósendur í Norðurlandi eystra að ég sé á móti bjórnum. Ég er líka á móti hernum og ýmsu öðru. Fólkið verður svo að meta hvað er mikilvægast. Það er kannski fólk sem vill fá bjórinn en vill losna við herinn. Hvað á það að gera? Það verður að svara því sjálft. Meðan eru nógu margir þeirrar skoðunar í Norðurlandi eystra að þrátt fyrir afstöðu mína í bjórnum skuli ég sitja á þingi, þá ræður það. Ég hef mína sannfæringu í mínu máli hvað sem öllu röfli um það líður að ég sé að hafa vit fyrir þjóðinni. Svo einfalt er það mál.

Ég legg svo til, herra forseti, að við reynum að fara að koma okkur í gegnum þetta mál og afgreiða það. Það er okkur öllum fyrir bestu að losna við þetta allt saman, ég ætla ekki að hafa nein orð um það, héðan út úr þingsölum með þeim hætti að við afgreiðum málið. Ég er tilbúinn til þess og mun ekki setja á langar ræður um þetta mál frekar en ég hef þegar gert.