02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5354 í B-deild Alþingistíðinda. (3563)

293. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. allshn. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Það hefur komið hver þm. á fætur öðrum í ræðustól og tjáð sig um að þeir muni ekki tefja framgang þessa máls og sumir hafa lýst vilja sínum á að gott samkomulag næðist um að ljúka þessari umræðu. Ég ætla að koma mér í hóp þeirra sem hafa óskað eftir því að þessari umræðu megi verða lokið sem fyrst.

Ég vil benda á að þetta er þriðji fundurinn sem haldinn er um 1. umr. þessa máls. Fjórir fundir fóru í 1. umr. um hið fyrra frv. og það hefur nánast ekkert verið rætt nema um fyrra frv. enn þá. Ég spyr hvort menn geti ekki komið sér saman um að ljúka þessari 1. umr. á tiltölulega skömmum tíma og hvort menn hafi ekki þrek í að gera það núna í kvöld.

Auðvitað fer allshn. ekkert að vinna frekar í þessu máli fyrr en því hefur verið formlega vísað til hennar. Það liggur alveg í augum uppi. Mér sýnist nú að menn fái þá allgóðan tíma til að hugsa sitt mál, hvað þeir vilja segja við 2. umr. málsins. Hún fer sýnilega ekki fram fyrr en eftir hálfa aðra eða tvær vikur, tvær vikur í fyrsta lagi. Ég mælist því eindregið til þess að hv. þingdeild ljúki þessari 1. umr. Ég veit ekki hversu margir eru á mælendaskrá, en ég trúi ekki öðru en því að menn geti komið sér sæmilega saman um að stytta mál sitt við þessa 1. umr. og í sjöunda skiptið sem 1. umr. í raun fer fram í þessari hv. deild um þetta sama mál.