02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5357 í B-deild Alþingistíðinda. (3569)

293. mál, áfengislög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það má vel vera að hv. 2. þm. Reykn. hafi þótt lítið sáttahljóð. Ég ætla ekki að vera dómari í sjálfs mín sök, en trúlega er það þá gagnkvæmt að ég varð ekki var við neitt sáttahljóð í hans málflutningi. Mér fannst ekki örla á því. Ég tel að hér hafi ekki verið um neina peningaupphæð að ræða eða neinn kostnað, hvorki fyrir hv. 2. þm. Reykn. eða aðra, þó að málið færi til heilbr.- og trn. Ég fæ ekki séð að það hefði kostað hann eina einustu krónu og fellst þess vegna ekki á þá skoðun að það hafi verið um neinn kostnað að ræða í því sambandi. Þessu vil ég alveg sérstaklega koma á framfæri til að fyrirbyggja misskilning. En ef menn telja að þeir þurfi sérstaklega að lesa yfir eigin handarverk aftur og alvaran sé slík að þeim sé sérstök nauðsyn á að gera það eru þeir fyrst og fremst að friðþægja sjálfa sig fyrir þau vinnubrögð sem þeir telja að séu eðlileg í þessu máli.