02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5362 í B-deild Alþingistíðinda. (3571)

293. mál, áfengislög

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég held að ég neyðist til þess að víkja örfáum orðum að málsmeðferðinni þótt ég hafi ekki löngun til að dvelja lengi við það atriði, bæði vegna þess að hæstv. forseti og raunar fleiri, sem hafa með stjórn þingsins að gera, sáu ekki ástæðu til þess að verða við þeirri einföldu beiðni að þessari umræðu yrði lokið öðruvísi en að menn þæfðu málið á kvöldfundi sem mér vissulega kom á óvart. En það liggur hver eins og hann hefur lund til. Það er ekki fyrst og fremst ég og mínir líkar sem þurfa á því að halda að ná góðri samvinnu hér á hinu háa þingi heldur þeir sem stjórna því.

Ég verð þess vegna að rifja líka upp í örfáum orðum að ég þóttist hafa vaknað upp við vondan draum fyrir viku á miðvikudegi. Á þriðjudeginum kl. 20 mínútur fyrir 4 gekk ég á fund hæstv. forseta og tjáði honum að ég þyrfti skylduverkum að gegna kl. 4 þann dag, sem og var, skyldur sem ég hefði tekist á herðar í embætti mínu sem menntmrh. Það var gott samkomulag milli okkar að 1. umr. um þetta mál yrði ekki lokið á þeim degi, þriðjudegi. Hann tjáði mér að hann stefndi að því að ljúka henni á miðvikudegi og ég hafði ekkert við það að athuga. Þegar ég svo kem á fætur um morguninn og sé Morgunblaðið, þá mæta mér undrunarefni eigi lítil. Þar les ég það að hart hafi verið deilt um frestun fundar. En þegar ég hafði náð þessu samkomulagi við hæstv. forseta um þessa málsmeðferð, þá tjáði ég formanni þingflokks Sjálfstfl. frá þessu samkomulagi. Hann tók því þunglega en mér datt satt að segja ekki í hug að hann mundi gera svo harkalega tilraun til þess að þetta samkomulag yrði brotið á mér eins og síðar bar raun vitni um. Og fyrir því var það sem ég tel líklegt að ýmsir geri sér grein fyrir sem þekkja mig að skapsmunir mínar gátu alls ekki tekið við þessu þegjandi og hljóðalaust.

Og það var miklu fleira. Vegna þess að hæstv. forsetinn sendi mér þær kveðjur fjarverandi að þm. ættu ekki að vera að ráðstafa sér annað þegar umræður stæðu yfir á hinu háa Alþingi um mál sem þeir létu sig varða eða yfirleitt ekki. Hafði ég þó gert honum grein fyrir mínum ástæðum. En hann klykkti út og ég hef þetta upp á þingtíðindum þannig að hér fer ekkert milli mála, að hann segir svo með hans eigin leyfi: „Hins vegar vil ég ekki láta ásaka mig um valdníðslu í þessu máli og mun skera svo úr að þessari umræðu verður nú frestað, þó að það sé ekki ástæða til þess.“

Ég veit reyndar ekki hvernig litið er á orð og efndir hjá þeim á lagernum hjá Kaupfélagi Héraðsbúa á Egilsstöðum. En ef þetta er viðhorfið, þá þurfa piltar þaðan að læra lexíu sína upp á nýtt sem hefur rekið upp í forsetastól í Alþingi. Það að halda því fram eftir að hafa gert samkomulag við einn þm. um málsmeðferð að engar ástæður hafi legið til að standa við það, kemur mér meira en lítið á óvart. Og það reyndist svo, sem kannski ýmsa varði ekki, að Morgunblaðið fór rétt og satt með allt í þessu máli. Og því var það að ég varð ókvæða við og kom í þeim ham til fundar á miðvikudag fyrir viku síðan.

Það hefur margt, og að vonum, orðið fallið í þessari umræðu og ég skil vel að bjórmenn, ölverar og ölkyrjur - og sakna ég nú sárlega hv. 13. þm. Reykv. Guðrúnar Helgadóttur, hinnar vösku ölkyrju, en þegar ég hafði viðhaft þau orð yfir hana að hún væri þorstlát valkyrja var gaukað að mér þessu nýyrði, ölkyrja, sem ég verð að skýra svo menn haldi ekki að ég sé að fara með fúkyrði í garð hv. þm., en ölkyrja er myndað eins og valkyrja. Valkyrja er kona orustunnar, sú sem kýs sér val. Ölkyrja er þess vegna kona ölsins, sú sem kýs sér ölið. Og eins og ég segi, hæstv. forseti: Gæti ég nú tekið upp á þeim ósið eins og aðrir að standa hér uppi og segja: Ég á erindi við hv. þm. og ég mæli ekki orð frá vörum fyrr en hún hefur birst hér, frú Guðrún Helgadóttir, hin vaska ölkyrja.

Ég verð að segja það alveg eins og er að mér hreint og beint ofbýður hvernig farið er að framkvæma þingsköp að þessu leyti, að ef ræðumönnum svo dettur í hug að þeir eigi erindi við einhvern ráðherranna t.d., þá geti þeir krafist þess að viðkomandi mæti til fundar hvernig sem á stendur og ef þeim svo sýnist að standa hér þegjandi uppi í stól. Þetta er auðvitað engin hæfa. Það er í hreinum undantekningartilfellum sem þm. eiga einhverja kröfu á því að ráðherra mæti. (GHH: Ekki er þitt athæfi skárra núna.) Hvað á hv. 117. þm. Reykv. við? (GHH: Sama málþófið.) (Forseti: Hv. ræðumaður hefur orðið.) Ég vil nú spyrja hæstv. forseta og sannleikurinn er sá að því víkur nú dálítið ömurlega við fyrir stjórnendur hér í þinginu eins og hæstv. forseta og formann míns þingflokks að þeir sem eru orðnir flytjendur þessa máls skuli nota svona aðstöðu sína til þess að hamast með það áfram gegn venjulegum þinghefðum. En ég vil nú spyrja hann að því hvort hann vilji nú ekki ræða við skrifara sinn um það að við tökum hóflega á þessu öllu saman og reynum að afgreiða málið því að ég hef áður sagt það að það er illt að egna óbilgjarnan og þar á ég við sjálfan mig. Þegar menn svo kjósa þá er hægt að hafa önnur vinnubrögð uppi. En ég skil vel að þeir sem mest beita sér fyrir ölinu séu orðnir óþolinmóðir. Þeir kunna því auðvitað illa og þykir illt að liggja undir ásökunum og þeim rökum sem hægt er að tefla fram í málinu og hafa ekkert sjálfir, hafa orðið að því uppvísir að skrifa undir og upp á vitlausasta málatilbúnað sem nokkurn tímann hefur verið viðhafður á hinu háa Alþingi. Og það er eðlilegt að þeir gerist óþolinmóðir. En starfsmenn forseta sérstakir verða að gá að sér að brjóta ekki mikið af sér í þingsköpum. Ég hafði síður en svo hugsað mér að hafa uppi málþóf, enda er hér ekkert á hættu að þetta mál komist leiðar sinnar og til úrslita í hinu háa Alþingi.

Eins og ég segi hef ég ekki orðið sérstaklega undrandi á þeirri málafærslu sem uppi hefur verið höfð, enda fer lítið fyrir henni af hálfu þeirra ölveranna. En ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum með ræðu hæstv. heilbrrh., Guðmundar Bjarnasonar, og hann virðir mér það til vorkunnar þó að mér kæmi nú í hug kötturinn og heiti grauturinn. Ég gat ekki heyrt eða séð af hans málflutningi í hvora löppina hann ætlaði að stíga. Auðvitað kemur það í ljós við atkvæðagreiðslu um málið. En það var þá helst að heyra að hann flutti þau skilaboð eftir einhverjum fulltrúa frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni - skildi ég það ekki rétt? — að sá hefði látið uppi undrun sína að hér skyldi ekki vera þessi geðslegi drykkur á boðstólum fyrir gesti og gangandi. (Heilbr.- og trmrh.: Það voru nú kannski ekki skilaboð, en það var svona frá samræðum.) Já, ég skil. En það gæti verið fróðlegt og gæti verið mjög mikið til styrktar þeim ölmönnum hér að við fengjum nánari útlistun hans á þessu og frekari rökstuðning því að það gæti kannski orðið til þess að maður skipti um skoðun ef þessi vitmaður í þessum sökum upplýsti hvað á bak við þetta byggi eða biðja stofnunina hans um að upplýsa okkur um þetta.

Ég þarf ekki mörgu við að bæta. Ég er hér með ítarlega grg. sem prófessor Tómas Helgason hefur sent öllum þm. og þeir geta kynnt sér. Ég á satt að segja ekki von á því að það breyti mikið afstöðu manna þótt ég fari að lesa þetta upp. Ég trúi að þeim sem alvara er í hug þeir kynni sér innihald þess, en það er líka svar við ýmsum ótrúlegum firrum sem heilbrigðisstéttir okkar hafa leyft sér að viðhafa í málinu. Og það er meira en lítið alvarlegt og dapurlegt til þess að vita að fá að kynnast slíku frumhlaupi sem það verður að kallast af hálfu lækna þegar þeir fara að skrifa upp á vottorð til handa þeim sem vilja innleiða öl, ekki tugum saman heldur hundruðum saman, eða 133 svo að maður sé nákvæmur.

Vinur okkar mikill, fyrrv. hv. þm. Pétur Sigurðsson átti leið til þess að leita sér lækninga við þessum heljarsjúkdómi sem áfengisnautnin er til Bandaríkjanna eigi alls fyrir löngu. Þar hitti hann fyrir mjög stóran hóp manna auðvitað, því að Bandaríkjamenn eru mjög þjakaðir af þessum sjúkdómi sem er ofdrykkjan. Og þeir eru hlutfallslega miklu meira þjakaðir af honum sem þeir drekka meira en við og alveg sérstaklega af öli. Mikill meiri partur þeirra manna sem þurfa að leita sér lækninga voru eingöngu ölmenn, sumir alveg eingöngu og flestir. Allir áttu þeir það sammerkt að hafa byrjað á öldrykkju. Og þegar þeir lýstu því hvernig þetta hefði tekið þá þessum heljartökum og alveg sérstaklega þessi þjóðsiður sem er orðinn þar að sitja við útvarp eða horfa á sjónvarp og horfa á kappleiki og drekka eins og þeir kalla það þrjá six-packs, það eru þrisvar sinnum sex flöskur í pakkningum sem þeir hafa, eða einar 18 flöskur. Þeir sem hafa nú vit á prósentum og rúmmáli í þessu geta sjálfir reiknað þetta út. En það er af því að segja að meðalsterkur bjór nálgast það að vera að styrkleika eins og sæmilega blandaður tvöfaldur viskísjúss segja barþjónar mér. Svo hugga menn sig jafnan við það að þeir séu ekki að drekka vín heldur bara öl.

Þetta var nú reynslan sem hann heyrði þarna menn segja frá, eigin sárri reynslu, þar sem ölið var snarasti þátturinn í óförum þessara manna sem þeir voru komnir að leita sér lækninga við. En við vitum að það er því miður ekki nema kannski eins og 1/5 sem fær lækningu af þeim sem leita sér lækninga við þessum grimmilega sjúkdómi sem nú um stundir ásamt auðvitað með fíkniefnunum öðrum ber meiri óhamingju í skauti sér en nokkuð annað sem þjóðir heims eiga við að stríða.

Og ölið hefur haldið innreið sína því að gróðadólgarnir láta ekki sitt eftir liggja. Í þriðja heiminum þar sem ölið hefur náð útbreiðslu er þetta þegar í stað að valda stórkostlegum vanda. Allt eru þetta kaldar staðreyndir og það er von að þeir sem fyrir þessu máli berjast vilji reyna að þrýsta þessu hið fyrsta í gegn til þess að losna undan öllum þessum köldu staðreyndum af því að þeir hafa engin rök gegn þeim, bara eitthvert frjálsræðiskjaftæði, eitthvað tal um það að menn eigi ekki að vera að setja sig á háan hest og hafa vit fyrir öðrum þótt, eins og hér var bent á af hv. 4. þm. Norðurl. e. í dag og fleirum, að hv. þingheimur sé allan daginn sem hann er að störfum hér með einhverjum hætti að hafa vit fyrir þjóð sinni, setja henni lög, reglur og takmarkanir. Öll snýst lagasetningin um með einhverjum hætti takmarkanir á þessu sem menn eru að kalla frelsi manna. Einhverjar skorður erum við ævinlega að reisa. Og þótt ég sé að vísu þeirrar skoðunar að það eigi að setja sem minnstar hömlur á athafnafrelsi manna t.d., þá kemur það ekki því við að ég vil ýmislegt á mig leggja til þess að setja skorður við því að t.d. unglingar eigi óheftan aðgang að því sem þeir fara sér að voða með. Engum af bjórmönnunum hérna dettur í hug að þræta fyrir það, og þeir eru reyndar hættir því með þessum nýja frumvarpsflutningi, að tala um að það sé ekki áfengi á ferðinni þar sem bjórinn er. Engum dettur í hug að þræta fyrir það að það eykur við áfengisneysluna. Engum heilvita manni dettur í hug að þræta fyrir það að neyslan fer niður eftir aldursflokkunum. Þetta dettur engum lengur í hug. Samt sem áður ætla menn í nafni einhvers frjálsræðis að láta sér verða það á að samþykkja þetta yfir okkur.

Menn segja að það skorti áfengisstefnu og mér er sagt að unnið sé að því af hálfu stjórnvalda. Það væri nú kannski ráð að hinkra við eftir því. En það er misskilningur. Við höfum nefnilega haft áfengisstefnu þótt hún hafi ekki bjargað okkur frá óhamingju. Það er að vísu rétt. En það hefur verið snarasti þátturinn í þessari áfengisstefnu, sem hefur haft gífurleg áhrif til góðs, að leyfa ekki almenna sölu á sterku öli.

Menn tala um samræmið og það er rétt að það var mikil óhamingja þegar lög voru brotin og leyft var ferðamönnum að kaupa sterkt öl á Keflavíkurflugvelli. Og við eigum bara að loka fyrir það hið fyrsta. En með allar þessar staðreyndir í huga þá satt að segja snýr málið þannig nú við mér að þótt ég hafi aldrei verið þjóðaratkvæðagreiðslumaður, það hef ég ekki verið, ég tel að það þurfi mikið að liggja við til þess að menn bregði á það ráð, þá hvarflar það samt að mér núna hvort við ættum að leita þangað vegna þess að mér er það hreint og beint óbærileg tilhugsun að hið háa Alþingi láti sér verða annað eins og þetta á. Ég get miklu fremur sætt mig við það að þjóðin sjálf í almennri opinni atkvæðagreiðslu taki ákvörðun og auðvitað verður farið að vilja meiri hlutans. Ég get miklu betur sætt mig við það en að þessari merkilegustu stofnun, ekki Íslands eingöngu, heldur eins og ég segi einni merkustu stofnun sinnar tegundar sem uppi hefur verið fyrr og síðar, löggjafarþing Íslands, að ætla að láta sér nú verða það á að kalla þetta yfir okkur sem ekkert er nema viðbót við óhamingju, erfiðleika, fjárútlát og þó er það ekkert á borð við óhamingjuna sem þetta ber í skauti sér og hefur í för með sér.

Um það þarf ekkert að ræða hver viðhorfin eru, og það reyndar í öllum löndum, til bjórsins öðruvísi, miklu vægari. Menn eru miklu meðvitundarminni um áhrif þess heldur en venjulegs áfengis. Þetta er svona þótt það eigi engan rétt á sér.

Menn geta haldið áfram að þylja upp reynslu annarra þjóða af þessum málum. Allt kemur í einn stað niður. Það er hægt að segja þetta fyrir. Þetta er eitt af þeim örfáu málum sem alveg er hægt að segja fyrir um til hvers leiðir. Ég hef oft nefnt það áður og þarf ekki að endurtaka það að það sem kom mér til þess sérstaklega að hrökkva við var þessi staðreynd sem allt í einu blasti við mér, að áfengið er nær því í öllu falli undanfari frekari eiturlyfjaneyslu þegar hún tekur við á annað borð. Ærið er auðvitað áfengið sjálft og alkóhólið þegar það hefur náð heljartökum á manninum. En þetta leiðir til þess arna, það segja allar skýrslur, allar rannsóknir, allar staðreyndir sem við blasa. Ég hafði látið þetta afskiptalaust en að því búnu að þetta lá fyrir, þá gat ég hvorki orða né athafna bundist.

Það er auðvitað að menn treysta því, sem samt sem áður ætla að halda áfram að þröngva þessu máli fram, að þeirra verði að engu getið þegar menn fara að taka afleiðingunum. Það verður auðvitað bara Alþingi sem gerði þetta á sínum tíma. Það verður enginn kallaður til ábyrgðar. Það verður engin persóna kölluð til ábyrgðar. Þess verður kannski getið að það hafi verið í tíð hæstv. heilbrrh. Guðmundar Bjarnasonar. Það eru svona einstaka nöfn kannski sem verða nefnd, en ella ekki. Það man enginn eftir þeim sem harðast beita sér fyrir þessu núna. Þeir verða ekki kallaðir til ábyrgðar, að ég tali nú ekki um ef þeir verða hvort sem er löngu fallnir í prófkjörum. Þessir 133 læknar sem voru lesnir upp verða heldur ekki kallaðir til ábyrgðar. Það skeður ekkert annað en það að óhamingjusömu fólki í þjóðfélaginu fjölgar, að við þurfum að leggja hærri skatta á þjóðina til þess að rísa undir þessu sjúka fólki í stórauknum mæli. Þá opnast nýir markaðir, stærri markaðir fyrir þá sem selja eiturlyfin. Á því er heldur enginn vafi. Það stækkar markaðinn.

Og auðvitað er peningasjónarmiðið á bak við, peningafósar sem eru á ferðinni. Og það er komið allt ofan í skólakrakka með umboð fyrir þekktar tegundir af bjór sem bruggaður eru í heiminum. Það verður lið í þeim. Það verður hægt að skattleggja þá í prófkjörsslaginn. Það er dýrt að standa í prófkjöri. Ég veit það að í mínum flokki kostar enga smáaura að kaupa sig inn á þing í Reykjavík. Krakkar í skólum eru komnir með umboð fyrir bjórverksmiðjur í heiminum! Nei, þeir verða ekki kallaðir til ábyrgðar sem skrifa upp á þótt hundruðum saman sé, sem treysta því að þjóðinni muni ekki verða fótaskortur í þessum málum þótt bjór bætist við, hafandi þó í sama orðinu, eins og þessi geðlæknir hafði sagt, að það mundi bráðum vera að því komið að allir Íslendingar þyrftu að ganga undir læknishendi vegna þessa sjúkdóms sem alkóhólisminn er!

Ég skora á hv. þm. að kynna sér síðasta plaggið þar sem færð eru fræðileg rök gegn aukinni áfengisneyslu og bjórfrv. af dr. Tómasi Helgasyni. Þar geta menn ef þeir vilja séð allar staðreyndir málsins í tiltölulega mjög samþjöppuðu formi á tæpum 13 síðum.

Ég hef imprað á því sem sagt hvort í þessu falli við ættum að bregða á það ráð að leita til þjóðarinnar sjálfrar og láta hana kveða upp dóminn. Ég er nefnilega heldur ekkert viss um úr því sem komið er að hún mundi kveða upp þennan dóm yfir sjálfri sér að kalla á meira af þessari óhamingju. Ég er ekkert viss um það. Ég held að það sé margt að breytast í viðhorfum almennings. En þá er að taka því. Ef hún tekur ákvörðun um það sjálf í almennri atkvæðagreiðslu, þá er ekkert um annað að gera en það er þó a.m.k. líðanlegra en það að Alþingi verði þetta á.

Ég get ekki kveðið nógu fast að orði um afstöðu mína til þess arna. Þótt menn hafi á árum áður verið þessarar skoðunar, miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir, þá er þetta með öllu óafsakanlegt eftir að þær staðreyndir og rannsóknir liggja fyrir sem við höfum á borðinu fyrir framan augunum á okkur í dag. Og það dugar ekkert eins og það að hafa það að yfirvarpi að það vanti samræmi í þetta, einhverjir forréttindahópar séu til, þótt sjómenn og flugliðar fái að flytja einhverjar flöskur með sér inn í landið. Ég játa það að vísu að það var mikið óhappaverk þegar fjmrh. krataflokksins leyfði farþegum að kaupa þetta í Keflavík. Það var mikið óhappaverk. En við skulum bara kippa því í liðinn. Þó er þetta algjört smáræði og hefur ekkert að segja upp á heildarneyslu þjóðarinnar, hér um bil ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut og það er aðalmálið. Það er aðalmálið.

Reynsla annarra þjóða, það þýðir víst ekkert lengur að bera hana borð. En þó eru menn hættir að þræta gegn þessu. Þeir eru hættir að segja þetta rangar upplýsingar. Það er í besta falli að það eru í þessum greinum útúrsnúningar og hreinar firrur sem fram er teflt sem eru svo rifnar niður að rótum jafnóðum.

Ég held nú að þótt mönnum liggi mikið á þá sé samt ástæða fyrir hið háa Alþingi að grandgæfa þetta mál sérstaklega og rasa ekki um ráð fram. Ég vil geta þess hér af því að menn tala um málsmeðferðina líka og þingsköp að það er auðvitað fráleitt að þótt mál sé borið fram af nefnd eða mönnum úr nefnd að nefndin sé að einhverju leyti vanhæf að fjalla um það. Það stenst auðvitað ekki, í engu falli. En það væri út af fyrir sig athugandi, sem ég veit að nefndin mun undir eins fallast á, að hún bæði heilbr.- og trn. um álit sitt og þá held ég að við getum nú alveg fallist á að þá kæmi sú nefnd sínum sjónarmiðum að og þá væri þessu að því leyti fullnægt að nefndin mundi þá sérstaklega fjalla um þetta að beiðni allshn. að segja sitt álit. Og ég fer bara beinlínis fram á það að það sé gert til þess að þetta atriði verði mönnunum ekki að ásteytingarsteini því að það gerum við nú reyndar ekki að húrra málum sitt á hvað milli nefnda eftir því hvernig við höldum að standi í bæli einstakra nefndarmanna. Það gerum við ekki í framkvæmd fundarskapa.

En mér dettur í hug það sem Bismarck sagði: Ef þetta mál á að ganga fram, þá er það verra en glæpur. Það er heimska.