02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5368 í B-deild Alþingistíðinda. (3572)

293. mál, áfengislög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég mun ekki hafa að þessu sinni mörg orð hér. Ég veit það og ég trúi því að enginn af þeim sem setu eiga á Alþingi vilji gera a.m.k. vitandi vits neitt það sem hefur illt í för með sér, þó að umræður og staðreyndir sem við okkur blasa mörgum sé á þá lund að ef þetta mál nær fram að ganga, þá verði afleiðingarnar dapurlegar.

Ég get ekki fallist á það sem hv. 4. þm. Austurl. sagði áðan að setja þetta fyrir almenna atkvæðagreiðslu. Ég get ekki fallist á það fyrir mitt leyti. Ég trúi því að þetta mál verði stöðvað í þessari deild. Það auðvitað sýnir sig að það skuli vera kvöld- og næturfundur um þetta mál að þeir sem harðast berjast fyrir þessu máli finna það hér utan veggja þessa húss að það eru fleiri og fleiri að snúast gegn þessu máli. Og það fer ekkert á milli mála, enda er mér tjáð að sú eina umræða sem fer fram um þetta mál sé að menn gera grín að þessum frv. Menn eru yfirleitt andsnúnir því að fá meira áfengi inn í landið.

Ég man ekki betur en að það kæmi fram í umræðum hér á dögunum að áfengisneysla barna og unglinga í Danmörku hefði leitt það af sér að sögn lækna að 15% af þeim sem byrjuðu innan við 16 ára aldur væru með alvarlegar heilaskemmdir. Við vitum það að ef bjór verður leyfður, ef sala á bjór verður leyfð í landinu þá verður þetta í mörgum, vonandi ekki öllum kæliskápum, en á flestum eða öllum þeim heimilum sem hafa áfengi um hönd á annað borð. Það þýðir það að börn og unglingar komast í þetta í vaxandi mæli. Nóg er nú samt eins og þetta er í dag. Slysum fjölgar auðvitað, hjónaskilnuðum fjölgar, afleiðingar af neyslu áfengis. Við höfum reynslu af því, eins og aðrir, hvað hún leiðir af sér.

Hv. 4. þm. Austurl. var að tala áðan um köttinn Í og grautinn. Mér raunar datt annað í hug. Þegar ég kom hér fyrir 20 árum var mér sögð saga af manni sem var þekktur fyrir það að slá alltaf úr og í sem kallað er. Einn orðhagur maður sagðist hafa staðið , þennan umrædda mann að því að vera að æfa sig á að fara upp og niður stiga samtímis. Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hlustaði á hæstv. heilbrrh. áðan.

Þetta mál er þannig vaxið að réttast væri að fella það, vísa því ekki til nefndar, að það yrði fellt, til þess að menn séu nú ekki að eyða lengri tíma í að ræða þetta mál ef það stendur þannig, sem ég vona og trúi, að meiri hlutinn í þessari deild sé á móti bjórnum. Það væru rétt vinnubrögð og ég vil skjóta því fram til umhugsunar fyrir þá hv. þm. sem hér eru í salnum.

Ég ætla ekki að eyða lengri tíma að sinni en fari þetta til nefndar og komi til 2. umr. hef ég ýmislegt um þetta mál að segja þá.