02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5378 í B-deild Alþingistíðinda. (3575)

293. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. allshn. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Vegna orða hv. síðasta ræðumanns um forustu mína í flutningi þessa frv. vil ég aðeins segja það að hún á ekkert skylt við formennsku mína í þingflokki sjálfstæðismanna. Hún á hins vegar skylt við formennsku mína í allshn. þessarar hv. deildar. Ég skýrði rækilega út þegar ég talaði fyrir þessu frv. í síðustu viku hvers vegna þessi leið var valin sem valin var og þar sem ég legg nú ekki í vana minn að flytja sömu ræðurnar tvisvar, eins og hefur hent nokkuð margan manninn við umræðu um þetta mál, þá ætla ég ekki að gera það. En þetta liggur allt fyrir í þingtíðindum.

Ég hlýt að viðurkenna, herra forseti, að ég varð fyrir vonbrigðum með hversu lágt sumir þm. lögðust í málflutningi sínum við þessa umræðu í sl. viku. En ég verð þó að segja að í dag hafa umræðurnar verið á aðeins hærra plani en þá.

Í framsöguræðu minni fyrir þessu frv., sem nú er hér á þriðja fundi og enn til 1. umr. - og þó raunverulega á sjöunda fundi, þá gerði ég hlutlausa grein fyrir efni frv. Ég fór yfir allar þær umsagnir er borist höfðu allshn. um hið fyrra frv., sagði frá niðurstöðum þeirra, bæði sem voru með og þeim sem voru á móti. Ég gerði engar athugasemdir við þessar umsagnir þótt vissulega hefði verið efni til þess þar sem í sumum þeirra var hallað réttu máli. Ekki eitt einasta atriði í ræðu minni gaf ástæðu til að draga umræðuna niður í það svað sem hún fór. Ég lét í ljós von um að málefnaleg umræða gæti nú farið fram um þetta viðkvæma deilumál, en sú von brást. Ræða hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur gaf heldur ekki tilefni til slíks þótt hún væri nokkuð hvöss á köflum.

Það er sjálfsagt ekki í mínum verkahring að gefa mönnum einkunnir fyrir ræðuhöld hér í þinginu. Ég ætla samt að láta mig hafa það að segja að ræður þeirra hv. þm. Sverris Hermannssonar og Ólafs Þ. Þórðarsonar í síðustu viku voru Alþingi og þeim sjálfum til vanvirðu. En þeir hljóta hins vegar aðdáun hv. þm. Stefáns Valgeirssonar og það hlýtur að vera verðmætt fyrir þá.

Sýnilega þykir t.d. hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni við hæfi að lesa hér upp á Alþingi vikupistil Flosa um fordrukkna danska manndrápara og telja þann lestur hæfilegt innlegg í bjórumræðuna hér. Honum þykir það líka við hæfi að lýsa þeirri skoðun sinni að Grétar Sigurbergsson geðlæknir ætti að fá frí frá störfum til að meta það hvort hann sé ábyrgðarmaður fyrir því tjóni sem hann kann að valda með orðum sínum. Honum þykir líka við hæfi að eyða tíma þingsins í upplestur á nöfnum 133 sérmenntaðra lækna sem hafa leyft sér að láta í ljós þá skoðun að líklegt sé að áfengisneysla beinist frekar að veikari drykkjum og frá þeim sterkari með tilkomu bjórs. Læknarnir hafa líka bent á það álit Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að virkustu ráð til að stjórna heildarneyslu sé markviss verðstýring og takmörkun dreifingar en ekki bann við einstökum tegundum. Við erum ekki með flutningi þessa frv. að leggjast gegn þessari stefnu eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson vildi vera láta. Þessar staðreyndir, sem hinir sérmenntuðu læknar benda á, falla ekki að trúarskoðunum hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar varðandi bjórinn og því er þessum læknum nánast hótað. „Þjóðin mun snúa sér að þessum mönnum“, segir hv. þm., þ.e. ef eða þegar hrakspár hans sjálfs rætast. Hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði hins vegar hér í ræðu sinni í kvöld að þessir menn yrðu aldrei dregnir til ábyrgðar þannig að þeir eru ekki alveg í takt þarna félagarnir. Hv. þm. ætti að vita ... (Gripið fram í: Hvor?) Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. Ég er að tala við hann núna. Ég kem síðar að ... (Gripið fram í: Þú varst að rugla þeim saman. Ég vildi hafa það á hreinu.) Já, við skulum hafa það alveg á hreinu að ég er að tala við hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson. Hann ætti að vita að það er Alþingi eða þeir alþm. sem kunna að mynda meiri hluta með þessu frv. sem bera ábyrgðina. Og þeir eru ekkert að reyna að skjóta sér undan henni. Það er hins vegar auðvelt með því að taka ekki afstöðu eða vera á móti þessu frv. Þegar svo þm. var kominn þar í ræðu sinni að svara framsöguræðu minni, þá hafði hann það eitt að segja að honum hafi þótt hálfgerð olíumalarlykt af henni. Það er reisn yfir þessum málflutningi og það vantar ekki rökfestuna eða drengskapinn. (Gripið fram í.) Hvaða tilgangi þjónar svona málflutningur? Hvaða tilgangi þjónar þetta? Kannski mundi þm. þykja við hæfi í bjórumræðu að ræða eitthvað um andabúskap á tilteknum bæ uppi í Borgarfirði. Það má vel vera. Mér þykir það ekki. (ÓÞÞ: Ég er reiðubúinn, nafni minn, og þú hefur hafið umræðuna og þú getur fengið hana.) Sannleikurinn er sá að það er ekki hægt að leggja sig niður við að ræða þetta mál við mann sem hefur uppi svona ræður og ég ætla heldur ekkert að gera það frekar, enda er mér alveg sama hvernig hv. þm. rausar.

Mér er hins vegar ekki alveg sama um flokksbróður minn Sverri Hermannsson sem er nú ekki hérna í salnum. Og gildir svo sem einu, ég kem þessu til hans, sem ég hef við hann að segja. Mér er ekki sama þegar hann verður sér til minnkunar í ræðustól á Alþingi. Hann hefur að vísu núna í kvöld reynt að gera nokkra grein fyrir því hvers vegna hann var svo ósvífinn í tali, en þær skýringar duga mér nú ekki. Ég er ekki að gera neitt mál úr niðrandi nafngiftum sem hann telur sér sæma að láta falla um þingflokksformann sinn. Svo liggur hver sem hann hefur lund til, sagði þm. í ræðu sinni hér í kvöld og ég býst við að hann geri það nú.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson hefur oft átt í vandræðum með að velja hófsamlegt orðalag þegar hann tjáir sig og þannig fór fyrir honum við þessa umræðu og hann bætti lítið úr í kvöld. Sáralítið. Ég sé haft eftir honum í blaðaviðtali að hann kallar þetta íslensku sem aðeins pempíur kveinki sér undan. Ég veit að vísu ekki við hverja hann á, en ég vil að hann viti það að ég er ekki að kveinka mér undan þessu orðbragði þm. Aðeins segi ég að mér þykir það ekki hæfa hér í þingsölum, síst fyrrv. menntmrh. og fyrrv. forseta þessarar deildar. Það hæfir heldur ekki að ásaka mig og forseta deildarinnar um að hafa ætlað okkur að þvinga þetta mál í gegn með valdi. Þetta er hins vegar borið á borð vegna þess að við erum í hópi flm. þessa frv. Hv. þm. Sverrir Hermannsson veit að þetta er rangt. Það ber svo ekki vott um að menn hafi veigamikil rök fram að færa þegar ræðutíma er eytt í að rífa niður grg. með frv. sem alls ekki er hér til umræðu. Allshn. lagði það frv. til hliðar, frv. sem þm. ræddi á fundi í þessari hv. deild þann 5. nóv. sl.

Þá talaði hann eins og honum er einum lagið um gamla Carlsberg, um eggfullan Íslandsmanninn dansandi á eyrnasneplunum, eins og það hét hjá honum, um fordrukkna Dani í einni bendu, hífða upp úr lestunum á Gullfossi við Islandsbrygge í Kaupmannahöfn og um tillidsman Jensen sem drakk mikinn bjór. Þetta ræddi hv. þm. í nóvember og hann ræddi sumt af þessu enn í síðustu viku. Og allt þetta sem hv. þm. sá í Kaupmannahöfn fyrir mörgum, mörgum árum hefur líklega orðið til þess að hann fékk ógeð á bjór og telur það skyldu sína að forða þeim Íslendingum sem ekki hafa nú þegar aðgang að þessum vökva frá þeirri ógæfu að eiga möguleika á að fá hann keyptan með lögmætum hætti.

Í ræðu sinni í síðustu viku var svo hv. þm. með nokkrar nýjungar þótt hann væri enn að ræða hið fyrra frv. Nú talaði hann um gróðasjónarmiðin sem komin væru á stjá. Þau væru megindriffjöðrin í þessum málatilbúnaði. „Gróðadólgarnir“ voru þeir reyndar kallaðir í ræðunni í kvöld. Hann er kominn í einhverja keppni við félaga sinn og vin, Matthías Bjarnason, sem kallaði þá „gróðapunga“ ef ég man rétt. Ég býst nú við að bjórgerðir yfirleitt séu reknar vegna einhverrar hagnaðarvonar, hvort sem bjórinn er áfengur eða óáfengur. En út af þessum orðum hv. þm. fór ég aðeins að velta því fyrir mér hvers konar útlánapólitík sá bankastjóri mundi stunda sem hefði svona mikla andstyggð á því að viðskiptavinir bankans hans kynnu að græða peninga ef þeir fengju lán hjá honum. Ég verð að viðurkenna að ég komst ekki að niðurstöðu en hef þó ákveðnar grunsemdir.

Ég nenni nú ekki að elta frekar ólar við málflutning þessara hv. þm. Ég segi aðeins það að ég vorkenni þeim sem af einlægni berjast gegn ofnotkun áfengis að eiga svona málsvara hér á hv. Alþingi. Og ég vorkenni þeim sem trúa því að stigið verði mikið ógæfuspor ef þetta frv. verður samþykkt, að talsmenn þeirra sjónarmiða hér á hv. Alþingi skuli vinna með þeim hætti sem þeir hafa gert. Ef þessir hv. þm., Ólafur Þ. Þórðarson og Sverrir Hermannsson, ekki vita það nú þegar, þá get ég sagt þeim að hér á Alþingi finnast bjórandstæðingar sem kunna bara alls ekki við sig lengur í þessum félagsskap.

Herra forseti. Aðrir þeir sem hér hafa talað gegn samþykkt þessa frv. hafa í flestum tilvikum talað málefnalega, flutt rök fyrir sínu máli þótt ég geti ekki á þau fallist. Þannig færði hv. þm. Árni Gunnarsson fram margvíslegar tölur máli sínu til stuðnings og án þess að vera með persónulegan skæting í garð flm. þessa frv. eða hins fyrra. Hann hafði að vísu talið flest þau atriði fram við umræðu um hið fyrra frv. á sl. hausti, en það er hans mál að leggja að nýju áherslu á þessi atriði.

Hann hefur nefnt tölur um áfengisnotkun Íslendinga og ýmissa annarra þjóða og sérstaklega varað við hinni slæmu reynslu sem Svíar höfðu af milliölinu svonefnda. Um þessi atriði langar mig til að fara nokkrum orðum og þá fyrst það að inni í tölum Hagstofunnar um heildarneyslu Íslendinga á vínanda er ekki tekið tillit til nokkurra atriða sem skipta máli.

Í fyrsta lagi áfengi sem selt er í Fríhöfninni. Á síðasta ári munu Íslendingar hafa keypt um 900 þúsund lítra af bjór þar. Ef áætlað er að álíka fjöldi hafi keypt leyfilegan skammt af sterku víni, þá selst þar á ári sem svarar hálfum lítra á hvern íbúa 15 ára og eldri. Hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði hins vegar í ræðu sinni í kvöld að þetta hefði ekkert að segja um heildarneysluna. Þetta er rangt hjá honum.

Þá er heldur ekki talið það áfengi sem farmenn fá að taka með sér inn í landið, en þar er um talsvert magn að ræða. Ef ég man rétt þá er það talið vera um 150 þúsund lítrar af bjór.

Í þriðja lagi nefni ég áfengi sem smyglað er til landsins. Það virðist nú vera svo eftir því sem maður heyrir í útvarpi að hver sem er geti orðið sér úti um bjórkassa og það hvenær sem er.

Þá nefni ég að síðustu heimabrugg og landaframleiðslu sem er nú nokkuð þekkt fyrirbæri á Íslandi og hefur verið það frá fornu fari. Tómas Helgason, sem hér er nú mjög vitnað til, segir að þetta gæti numið álíka miklu og selt er í Fríhöfninni. Grétar Sigurbergsson geðlæknir telur að ef ofanritað áfengi væri talið með í heildarneyslu Íslendinga, þá væri heildarneysla áfengis hér svipuð og hjá öðrum Norðurlandaþjóðum.

Árið 1986 drukku Íslendingar 15 ára og eldri 8,55 lítra af sterku víni, Norðmenn 3,90, Svíar 6,55, Danir 4,83 og Grænlendingar 4,43. Aðeins Finnar nálguðust okkur í þessu efni. Og tölur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins fyrir 1987 virðast benda til að sterku vínin séu að sækja á en neysla léttra vína hafi dregist saman.

Grétar Sigurbergsson geðlæknir bendir á að þegar litið er á verðlista Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins komi í ljós að hver sentilítri af hreinum vínanda er langódýrastur í formi sterkustu vínanna. Þetta hygg ég að sé einsdæmi á Norðurlöndum og þó víðar væri leitað.

Einkasala og verðstýring eru langáhrifamestu leiðirnar til að halda niðri heildarneyslu. Það á að skattleggja áfengi í réttu hlutfalli við styrkleika eigi eitthvert vit að vera í áfengisstefnu landsmanna.

Í þessum umræðum hefur mjög verið vitnað til reynslu Svía og þar þykir mér hafa verið ranglega lesið úr tölum, mjög ranglega lesið úr tölum. Og ég ætla aðeins að fara yfir það atriði. Á árunum 1917–1955 var bjórbann og áfengisskömmtun í Svíþjóð. Árið 1955 var bjór seldur í sænsku einkasölunni og skömmtun aflétt. Árið 1965 var leyfð sala á svokölluðu milliöli í matvöruverslunum. Milliöl mun hafa verið 3,6%. Þarna voru engin aldursmörk. Hver sem var gat fengið keypt þetta öl og útsölustöðum fjölgaði úr u.þ.b. 400 í yfir 20 þúsund. Það viðurkenna allir að þetta hafði slæmar afleiðingar svo ekki sé fastar kveðið að orði. Mjög slæmar afleiðingar. Og svo er látið hér í þessum umræðum eins og við séum að panta þetta sama, að við séum að kalla þetta yfir okkur! Þetta er ósæmilegur málflutningur. Það hefur enginn lagt þetta til. Alls enginn. Ég vona að menn hætti að tala hér í þessum umræðum út frá alröngum forsendum.

Árið 1977 var milliölið tekið úr verslununum og þróunin 1977–1987 er jákvæð í Svíþjóð. Bjórneysla hefur aukist, en það hefur dregið stórlega úr neyslu sterkra drykkja og heildarneyslan hefur minnkað. Þetta eru hinar bláköldu staðreyndir. En hér er alltaf verið að tala um eitthvað allt annað og lesa allt aðrar tölur eða skýra þetta með allt öðrum hætti en staðreyndin segir. Bjórneyslan í Svíþjóð er svipuð í lítrum talið og á tímum milliölsins. Það er aðeins sölufyrirkomulagið sem er annað og það er það sölufyrirkomulag sem við erum að leggja hér til. Það er ekkert annað.

Það er einnig vísað mjög í þessum umræðum til reynslu Finna. Þar hefur sterkur bjór alltaf verið leyfður og sala hans verið með svipuðu sniði og hjá Svíum. Árið 1969 fetuðu þeir aftur á móti í fótspor Svía og hófu sölu á millisterku öli í matvöruverslunum. Með því fjölgaði útsölustöðum um 17 500 og það varð auðvitað það sama uppi á teningnum hjá Finnum og Svíum að heildarneyslan jókst við það að salan var leyfð í öllum þessum verslunum. En mismunurinn á Svíum og Finnum er sá að Finnar hafa ekki dregið þetta út úr matvöruverslununum eins og Svíar gerðu.

Ég vil nefna örfá atriði sem komið hafa fram í ræðum manna hér í dag. Hv. þm. Stefán Valgeirsson var að velta því fyrir sér hvort allshn. væri ekki orðin vanhæf til þess að fjalla um þetta mál. Mér finnst nú satt að segja að þetta sé slíkt rugl að það sé alls ekki svaravert. (Gripið fram í: Þá sleppirðu því bara.) Já, eigum við ekki bara að sleppa því? (Gripið fram í: Jú.) Ég held að það sé best að sleppa því. Ef menn ætla að halda þessu fram þá þýðir þetta það að ef nefndarmenn, ég tala nú ekki um meiri hl. einhverrar nefndar, er búinn að tjá sig um mál sem síðan er vísað til nefndarinnar, þá eru þeir orðnir vanhæfir til þess. Ég skil bara ekkert í þm. að láta svona út úr sér. Og auðvitað er þetta ekkert svaravert.

En hv. þm. Stefán Valgeirsson lýsti því hér yfir að þetta mál yrði stöðvað hér í deildinni svo að hann þarf vonandi ekki að hafa meiri áhyggjur af þessu. Við sjáum hvað setur. Ég veit ekki hvernig þetta mál fer í deildinni. (SV: Ég sagðist vona það.) Nú sagðist hann vona það. Ég hef tekið skakkt eftir og ég bið afsökunar. Ég efast ekkert um að þm. vonar það. (SV: Ég ætla að leiðrétta líka töluna um áfengismagn Íslendinga.). Já.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir lagði áherslu á að hér væri um heilbrigðismál að ræða en ekki viðskiptamál. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Öll ofneysla áfengis er auðvitað heilbrigðismál. Það er heilbrigðisvandamál. Ég ætla aðeins að taka það fram svo að mér verði ekki lögð þau orð í munn að ég hafi verið að gera þetta að einhverju viðskiptamáli, það hef ég ekki gert og ekki við flm. þessa frv. En ég man eftir því í grg. hins fyrra frv., en ég er ekkert að ræða það mál. Alls ekki neitt. En hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir féll í þessa sömu gryfju nefnilega og sumir aðrir að tala um grg. hins fyrra frv. Sumir tala nú reyndar um þetta sem mannréttindamál. Ég ætla ekkert að gera neitt sérstakt mál úr því.

Við flm. þessa frv. höfum heldur ekki talað um það að þetta frv. sé sérstaklega flutt til þess að bæta drykkjusiði Íslendinga. Við höfum ekkert verið að segja það. Við vonum það að vísu, en við getum ekki fullyrt það og erum ekki að því.

En það sem mér féll hins vegar illa í ræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur voru vangaveltur hennar um það hvort þetta væri nú nokkur tilviljun að málið væri til meðferðar einmitt hér og nú þegar verið væri að ræða ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum í hv. Ed. Ég vil aðeins að hv. þm. og aðrir viti það að ég geng ekki hér erinda ríkisstjórnarinnar við að tala hér fyrir þessu frv. Það geri ég ekki. (Gripið fram í: Þú ert grunaður um það.) Já, ég heyri það. Og mér líkar það illa að fá á mig slíkan málflutning ofan á ýmislegt annað.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir spurði hvort allshn. hefði fengið til viðtals formann áfengismálanefndar ríkisins, ég held að nefndin heiti það. Við höfum ekki gert það en það er að sjálfsögðu mögulegt að gera svo þegar nefndin fær málið að nýju til meðferðar ef óskað verður eftir því.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon bað um skýringar á því sem segir í umsögn um 4. gr. frv., lokasetninguna þar, sem hljóðar svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi dreifingu áfengis er gert ráð fyrir að hún sé á ábyrgð ÁTVR en jafnframt verði ÁTVR talið heimilt að semja við framleiðendur og flutningafyrirtæki um fyrirkomulag dreifingarinnar til útsölustaða ÁTVR og veitingahúsa.“

Þetta segir einfaldlega það sem segir jú í lögum um verslun ríkisins með áfengi og tóbak að Áfengisverslunin ein hefur heimild til þess að versla með þær vörur, enginn annar, og það verður engin breyting á því. Hins vegar hefði sjálfsagt mátt orða þetta ákveðnar en það sem liggur í þessum orðum er það, og það höfum við frá forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, að hann telur að heimildin sé í lögunum fyrir ÁTVR að semja beint við flutningafyrirtæki um flutning á þessum varningi, t.d. til veitingastaða eða út á land, í stað þess að ÁTVR þurfi sjálft að koma sér upp flota flutningabíla. Það er eingöngu það sem við er átt. Ef við nánari athugun kemur í ljós að það skortir lagaheimildir, þá er um tvennt að ræða, að afla þeirra áður en þessi lög öðlast gildi 1. mars, ef samþykkt verða hér á þinginu, eða að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins komi upp þeirri aðstöðu sem þarf. Þetta er einfaldlega svona.

Upptalning hv. þm. á þeim skilyrðum sem þyrfti að fullnægja til þess að hann gæti stutt bjórinn var út af fyrir sig fróðleg og sjálfsagt mætti ræða einstök atriði sem hann þar nefndi ef það kynni að verða til þess að breikka samstöðuna um málið. Mér þykir það alveg koma til greina þó að ég geti ekki fallist á allt sem hann þar nefndi. En það má vafalaust ræða.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa um þetta mörg fleiri orð. Ég vil þó bæta því við að mér þykir það ekki góður málflutningur að vera að væna okkur, sem flytjum þetta frv. eða styðjum það, um það að við séum á einhverjum sérstökum atkvæðaveiðum — og ég tala nú ekki um eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson hefur ítrekað gert mál úr að menn séu hér að bæta eitthvað hag sinn í væntanlegu prófkjöri, sérstaklega í Reykjavík. Þar þykir mér hann leggjast nokkuð lágt. En þeir sem eru náttúrlega búnir að koma sér fyrir utan þings þurfa auðvitað ekkert að hafa áhyggjur af prófkjörum. Það er alveg ljóst. Ég veit ekki hvort einstakir þm. verða í raun og veru fyrir einhverjum þrýstingi utan frá eða hér innan þings um það hvernig þeir eigi að greiða atkvæði í þessu máli. Ég segi það alveg satt að ég hef verið blessunarlega laus við einhvern þrýsting núna. Það hefur enginn talað við mig, hvorki um að greiða atkvæði með eða móti. Menn vita náttúrlega nokkuð um mína afstöðu. En ég hins vegar man fyrri tíma þegar bjórfrv. hefur verið hér til meðferðar á Alþingi og það hefur verið það nokkrum sinnum frá því ég tók sæti á Alþingi. Þá varð ég fyrir þrýstingi aðeins úr einni átt og það var frá andstæðingum bjórsins. Og sá þrýstingur var býsna leiðinlegur oft og tíðum. Hann var býsna leiðinlegur án þess að ég ætli nú að fara að lýsa því í smáatriðum. En ég hef ekki orðið fyrir öðrum þrýstingi en úr þeirri átt og hef svona verið kannski í fullri vinsemd verið látinn vita að ef ég greiddi atkvæði með bjórnum, þá þyrfti ég ekki að búast við stuðningi frá tilteknum hópi manna. En ég hef sloppið við þetta núna, sem betur fer, og ég er afskaplega þakklátur fyrir það. (Gripið fram í.) Nei, ég hef ekki gert það og ég mundi satt að segja ekki taka neitt tillit til þessa. Ég hef sagt það hér fyrr í ræðu minni að það er verkefni alþm. að taka um þetta ákvörðun og þeir eiga að hafa þrek til þess að gera það alveg burt séð frá því hvað þeim kann að vera ráðlagt út í frá. Alveg burt séð frá því. Ég sagði það áðan og get ítrekað það að við eigum ekki að skjóta okkur undan þeirri ábyrgð. Þess vegna finnst mér, svo að ég aðeins nefni það svona í framhjáhlaupi, engin ástæða til þess að láta þetta mál fara í þjóðaratkvæði. Ekki nokkur.

Ég lýk máli mínu, herra forseti, með því enn á ný að láta í ljós þá von að hv. alþm. ræði þetta frv. af meiri yfirvegun og rósemi en þeir hafa gert til þessa.