02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5385 í B-deild Alþingistíðinda. (3576)

293. mál, áfengislög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Vestf. hefur beint til mín nokkrum spurningum. Mér er bæði ljúft og skylt að reyna að svara þeim, en vegna þess hve þær ber brátt að er ekki víst að ég geti gert þeim viðhlítandi skil því margar þeirra eru býsna vandasamar.

Hann spurði mig fyrst hversu mikill skaðinn hefði verið sem um áramótin varð af sprengjum sem kallaðar eru tívólíbombur og dómsmrh. síðar ákvað að banna. Ég hef ekki svar við því í peningum. Ég spyr þm. á móti: Hvers virði er auga manns? Hvers virði er andlit hálft? Er ekki talað um það stundum að varðveita eitthvað eins og augastein sinn? Og ég vona að þetta gefi honum svarið. Þetta var ákaflega einfalt mál. Þarna urðu þrjú slys sem vel mátti koma í veg fyrir og að fengnu áliti sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar og lögreglunnar varð niðurstaðan sú að þetta væru hættulegir hlutir og fullkomin lagastoð fyrir því að banna þetta, enda hefur ráðuneytið ótvírætt reglugerðarvald í málinu og því alls ekki saman jafnandi við það mál sem hér er rætt í dag, þótt ég vilji engan slíkan samanburð gera að öðru leyti. Hins vegar vil ég alls ekki nota þau orð um það sem þarna var ákveðið sem hv. 2. þm. Vestf. gerði þegar hann kallaði að þetta væri að hafa vit fyrir þinginu. Þar held ég að tungan hafi hlaupið á undan hugsuninni hjá hv. þm.

Í öðru lagi spurði hv. þm. mig hvort þess hefði verið óskað að ég kæmi að máli við hv. allshn. þessarar deildar til að ræða það frv. sem hér liggur fyrir deildinni. Svarið er nei. Þess var ekki óskað af hv. allshn. Ég er ekki viss um að það hefði verið ástæða til þess. Ég heyrði þm. nefna að hann sagði að ráðherrar reiddust því tíðum ef flutt væru mál á þeirra málasviði án samráðs við þá. Ég get sagt það alveg skýrt að ég er ekki einn af þeim ráðherrum því að svo virði ég þingið að þar geti þm. og þingnefndir flutt frv., en auðvitað er það gagnlegt oft málanna vegna, og það er það sem máli skiptir, og kurteisi líka að ræða slík mál við ráðherrann sem fer með framkvæmdarvaldið í þeim málaflokki. Ég get nefnt eitt dæmi um þingmál einmitt af þessu tagi.

Í dag varð að lögum frv. til l. um aðför, breyting á aldargömlum lögum,, upphaflega þmfrv. flutt á málasviði dómsmrn. Ég fagnaði hugmyndinni sem fram kom þegar hv. þm. Jón Magnússon gerði grein fyrir því, sá að þar var bent á þarfa hluti, en benti jafnframt á að breyta þyrfti frv. og fella það betur inn í lögin til þess að það þjónaði þeim tilgangi sem því var ætlað að gera. Allshn. þessarar hv. deildar samdi svo sjálf upp úr ábendingum réttarfarsnefndar og ráðuneytisins nýtt frv., flutti það fram. Reyndar var fyrsti flm. þess að sjálfsögðu formaður nefndarinnar, hv. 2. þm. Reykn. sem hér er einnig í hópi flm. Þetta sýnir að ég tel ekkert í þingstörfum, ekkert þinglegt banna það að hafa þann hátt á sem hér hefur verið hafður við flutning frv. En þetta vil ég þó biðja hv. 2. þm. Vestf. og aðra þm. sem hér taka þátt í umræðum að gera ekki að atriði í málinu því ég tel að það komi því ekki við.

En síðan er spurningin þessi í þriðja lagi, sem hv. 2. þm. Vestf. beinir til mín, hvort ég hafi látið skoða í dómsmrn. og áætla hvaða þörf fyrir fangelsisrými mundi fylgja ef þetta frv. yrði að lögum. Ég verð að svara því að sjálfsögðu að slíka könnun hef ég ekki látið gera og treysti mér varla til þess að leggja mat á það sem um er spurt. En ég vildi þó segja það sem vott af svari til hv. 2. þm. Vestf. að ég er nú að láta vinna í dómsmrn. athugun á og yfirlit yfir fangelsismálin í landinu og þörf fyrir aukið fangelsisrými og breytingar á húsakosti fangelsanna. Ég vonast til að geta lagt slíka skýrslu fyrir þingið í vetur eða áður en þessu þingi lýkur.

Hv. 2. þm. Vestf. spurði í fjórða lagi hver væri dagvistunarkostnaður fyrir mann í fangavist um þessar munc9ir. Ég hef ekki við því nákvæmt svar, en hygg að talan 3000–3500 kr. á dag sé ekki fjarri lagi. Milljón á mann er nýleg tala sem notuð hefur verið í umræðum um þessi mái. Mér heyrðist að tölurnar sem hann nefndi um dagvistunarkostnað á vistheimilum og hælum fyrir áfengissjúka menn væru svona báðum megin við þessa tölu. Þetta er vottur af svari við þeirri spurningu.

Í fimmta lagi spurði þm. hvort ég teldi að afbrot á Íslandi tengdust áfengisnotkun í ríkum mæli. Svarið er ákaflega einfalt: Já. Það er svo og það er flestum vel kunnugt að áfengi og vímuefnanotkun er ákaflega oft förunautur afbrotanna í hvaða röð sem á nú að raða því að þetta fer saman. En saman fer það og það er yfir allan vafa hafið.

Ég vona að þm. færi mér það til betri vegar, að ég hef raðað spurningunum dálítið öðruvísi en þær voru fram bornar, en vík mér svo að því þegar ég segi skilið við fangelsin og afbrotin að svara þeim þætti spurninga hans sem laut að umferðarmálum.

Hann spurði mig fyrst hvort ég teldi að samþykkt þessa frv. um að heimila bruggun og sölu áfengs öls mundi auðvelda framkvæmd þeirra umferðarlaga sem gengu í gildi í gær. Nei, ég á ekki von á því, enda býst ég ekki við að það sé tilgangur frv.

Síðan var spurt í sjöunda lagi, hvort ráðherra hefði látið meta áhrifin af þessu frv. á tíðni þess að menn ækju undir áhrifum áfengis. Nei, ég hef ekki látið athuga þau áhrif og held að það sé erfitt, en vafalaust má leiða að því getum að útbreidd neysla áfengs öls mundi auka hættuna á ölvunarakstri. Ég tel það nokkurn veginn víst. En það er auðvitað kenning sem prófa þyrfti og mætti skoða.

Í áttunda lagi spurði þm. hvort ég teldi þetta frv. gott innlegg í umferðaröryggismálin og almennt hvað varðaði löggæsluna í landinu. Mitt svar við því er ákaflega einfalt: Nei, ég tel þetta frv. ekki gott innlegg í þau mál, en kannski er það ekki það sem hér er til umræðu. Ég vil þó alls ekki víkjast undan að svara spurningu sem borin er fram á þennan einfalda hátt.

Og þar með er ég kominn að níundu og samkvæmt minni talningu síðustu spurningunni sem hv. 2. þm. Vestf. bar hér fyrir mig. Hún var einföld, þ.e. hver væri afstaða mín til þessa frv. Ég ætla að svara því á þann veg að ég hafi enn ekki gert hug minn upp um það hvort þetta frv., ef að lögum yrði, horfir til þess að bæta áfengislagastöðuna í landinu. Ég er ekki sannfærður um að þetta frv. mundi bæta ástandið en ég vildi þó nefna það að í þessu máli, málinu hvort hér skuli leyfa bruggun og sölu áfengs öls, sú spurning er býsna flókin. Bjórbannið, sem þó er ekki bann, hefur aðallega þrjú meginatriði í sér fólgin:

Í fyrsta lagi er hættan sem fylgir því að leyfa bruggun og sölu áfengs öls hér á landi sú að þetta valdi mikilli aukningu áfengisneyslu. Við heyrðum upplestur hv. 2. þm. Vestf. úr lokaorðum úr grein eftir prófessor Tómas Helgason þar sem hann taldi næg fræðileg rök til að leggjast gegn öllu sem eykur áfengisneyslu og vitnaði þar m.a. til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ég ætla ekki að efast um vönduð vinnubrögð og heiðarlega aðferð Tómasar Helgasonar, en segi það eitt að þessi þáttur málsins: Fylgir þessu aukin hætta á áfengisneyslu í þeim mæli að það réttlæti - og þar með kem ég að öðrum þætti málsins — þá takmörkun á neysluvali, því frelsi og sjálfsákvörðunarrétti fólks til þess að velja neysluvörur hvort sem þær eru hættulegar eða ekki, er þessi hætta nægileg ástæða til þess að leggja þessar hömlur á valfrelsið? Þetta er spurningin sem við stöndum hér frammi fyrir. Og í þriðja lagi er það ómótmælanlegt að í áfengislöggjöf okkar og framkvæmd hennar er mikill tvískinnungur. Tvískinnungur að því leyti að bjór er bannaður, en er það þó ekki. Við bönnum neyslu á veikustu áfengistegundinni, en leyfum hana á þeim sterkari. Þetta er auðvitað ekki endilega það ástand sem menn helst kysu. Þarna gæfu verið og þyrftu að vera hreinni línur.

Og ég segi það, eins og ég hef sagt oft áður, að ég er ósammála hv. 2. þm. Reykn., flm. þessa frv., þegar hann segir að það sé að skjóta sér undan ábyrgð að vísa slíku máli til atkvæðis þjóðarinnar. Ég tel það þvert á móti vel koma til greina og e.t.v. vera réttu leiðina í þessu máli að skjóta því undir atkvæði þjóðarinnar, enda er það hefðin í okkar áfengislöggjöf, okkar úrslitaaðferð til þess að ákveða hvort opna skuli áfengisútsölur í sveitarfélögum og reyndar mun bannið á sínum tíma hafa verið þannig á sett og þannig af létt, þannig að það væri í samræmi við okkar sögulegu hefð að vísa slíku máli undir dóm þjóðarinnar. Ég er nú ekki að gera tillögu um það en nefni það samt sem eitt af því sem ég velti fyrir mér þegar ég hugleiði hvernig ég skuli greiða atkvæði í þessu máli. Ég tek það fram að ég ber mikla virðingu fyrir málflutningi þeirra manna sem tala gegn þessu frv. þótt málflutningurinn gæti, eins og hv. 2. þm. Reykn. benti á, verið betri. Það sama gildir,reyndar um þá sem mæla með samþykkt þessa frv. Ég tel að þeir hafi kannski ekki alltaf gætt hófs í málflutningi þegar þeir tala fyrir þessu máli.

Þetta er mikilvægt mál. Ég hef því miður ekki getað fylgst með umræðum í því sem skyldi. Það hefur fallið saman við aðrar skyldur mínar hér í þinginu í dag t.d., en það breytir því ekki að ég tel að þingið eigi að taka til þess tíma að kanna þetta mál vandlega og velja í það efnisatriðin áður en ákvörðun er tekin og ég veit að nefndir þingsins munu áfram sinna því verki vel, en segi enn: Ég hef ekki tekið endanlega afstöðu til þess hvernig mitt atkvæði fellur í málinu, er enn að hugleiða það að þjóðaratkvæði sé líklega rétta svarið.