02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5390 í B-deild Alþingistíðinda. (3581)

293. mál, áfengislög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru bara nokkur orð. Hv. 2. þm. Reykn. svaraði fsp. frá hv. 4. þm. Norðurl. e. varðandi dreifingu áfengis, en í athugasemdum með frv. stendur, með leyfi forseta:

„Varðandi dreifingu áfengis er gert ráð fyrir að hún sé á ábyrgð ÁTVR en jafnframt verði ÁTVR talið heimilt að semja við framleiðendur og flutningafyrirtæki um fyrirkomulag dreifingarinnar.“ Við framleiðendur. Ég veit af reynslu að samið er við flutningafyrirtæki, t.d. um að aka áfengi héðan og norður í land þannig að þetta er viðtekin venja. Það sem menn hljóta að hrökkva við við í þessu sambandi er að talað er um framleiðendur. Eiga framleiðendur að hafa dreifinguna á sínum snærum? Er það virkilega ætlun hv. 2. þm. Reykn.?

Í öðru lagi tók ég þannig eftir þegar hann var að ræða um áfengisneyslu að hann taldi Íslendinga neyta mest áfengis. (Gripið fram í: Alls ekki.) Það er ekki nema bara hluti ef menn taka til hreint alkóhól. Hv. þm. ætti að lesa betur skýrslu Tómasar Helgasonar. Slík umræða er villandi.