03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5394 í B-deild Alþingistíðinda. (3589)

267. mál, jöfnuður í verslun við einstök lönd

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Líkt og hæstv. sjútvrh. var mér ekki alveg ljóst hvað hv. fyrirspyrjandi, 5. þm. Vesturl., átti við með orðalaginu að jafna þann óhagstæða mun sem er á innflutningi Íslendinga frá allmörgum löndum og útflutningi þeirra hingað. Ef það er rétt skilið hjá mér að spurt sé um það hvort ríkisstjórnin ætli að gera ráðstafanir til þess að jafna halla sem er á viðskiptum við einstök lönd er svarið einfalt og skýrt: nei. Ríkisstjórnin telur ekki að stefna beri að jöfnuði í viðskiptum við einstök lönd eða viðskiptasvæði, heldur skuli stefna að því að selja framleiðsluvörur okkar til þeirra landa þar sem markaðurinn er hagstæðastur og kaupa vörur til landsins frá þeim löndum sem bjóða hagkvæmust kjör. Fríverslun er og verður, eins og kom fram í máli hæstv. sjútvrh., meginreglan í okkar utanríkisviðskiptum. Hitt er svo auðvitað jafnljóst að þegar um tvíhliða viðskiptasamninga er að ræða sem verulegu máli skipta fyrir þjóðarbúið getur jafnan verið samband milli þess sem út er flutt og hins sem inn er keypt, ekki síst ef sama fyrirtækið eða tengd fyrirtæki stunda þessa milliríkjaverslun. Þetta er í rauninni allt sem segja þarf um jöfnuð í viðskiptum við einstök lönd. Jöfnuður í viðskiptum við útlönd í heild er svo allt annað og meira mál eins og hæstv. sjútvrh. vék hér að og er mikilvægt markmið fyrir stefnuna í efnahagsmálum. Ríkisstjórnin hefur gripið til margvíslegra aðgerða til þess að ná því markmiði, eins og hæstv. sjútvrh. vitnaði til, og við treystum á stuðning þm. við þær tillögur.

En ein leið að því marki að tryggja til langframa jöfnuð í viðskiptum við önnur lönd er auðvitað að efla markaðssetningu á okkar útflutningi og að því vék fyrirspyrjandi nokkuð í sínu máli og reyndar hæstv. sjútvrh. einnig. Þetta er mikilvægt tæki þegar horft er til framtíðar og þar á einnig að koma til atbeini stjórnvalda og þar hefur stjórnin einmitt hugsað sér að bæta um.