03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5395 í B-deild Alþingistíðinda. (3590)

267. mál, jöfnuður í verslun við einstök lönd

Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):

Herra forseti. Ég þakka ráðherrunum svör þeirra þó að mér þættu þau heldur mögur. Ég gat ekki fundið neina ákveðna stefnu eða viðleitni í þá átt að bæta þarna úr. Viðskrh. segir einfaldlega, nei, það verður ekki leitast við að jafna þennan mismun. Þetta finnst mér í hæsta máta óeðlilegt. Þó að ég sé talsmaður frjálsrar verslunar hlýtur að mega notfæra sér það þegar um slíkan ójöfnuð í viðskiptum er að ræða eins og hér um ræðir.

Hæstv. sjútvrh. ýjar að því hvort ég sé að kalla á stýringu eða sé á móti frjálsum viðskiptum. Ég er náttúrlega talsmaður frjálsra viðskipta og sem minnstrar stýringar. Þetta er hins vegar hvort tveggja við lýði í dag. Það er bullandi stýring og frjáls viðskipti þekkjast ekki eða getur hann bent mér á það í landbúnaðarafurðunum og í fiskversluninni? Þar er sko langt frá því að vera frjáls verslun. Eina ráðstöfunin sem ríkisstjórnin er að gera þessa dagana lendir má segja á innflutningsversluninni. Það er ekki að neinu gagni komið til móts við útflutningsgreinarnar. Þær eru enn þá reknar með tapi. Ég veit ekki hvort það er stefnan að jafna þetta með 190% jöfnunargjaldi yfir línuna. Það er náttúrlega ein leiðin, en hún er afskaplega óæskileg. Það á að auka gjaldtökur á erlend lán. Heimild til vörukaupalána er ekki til staðar. Það er sem sagt neytandinn og innflutningsverslunin sem á að þola þetta allt. Hins vegar má jafna þennan ójöfnuð milli landa með því að líta kannski aðeins nánar á tollamálin. Það má t.d. líta á ytri tollana frá Bandaríkjunum og lækka þá eða fella niður þannig að innflutningnum verði stýrt meira þangað frá þeim óhagstæðu mörkuðum sem við erum núna að versla við vegna þeirrar tollastefnu sem ríkir hér í dag.