14.10.1987
Efri deild: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

8. mál, Skattadómur og rannsókn skattsvikamála

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spurðist fyrir um hvenær væri að vænta flutnings á frumvörpum um endurskoðun á skattakerfi. Það er af því tilefni rétt að útskýra úr þessum ræðustól þau áform sem lýst er í grg. með fjárlagafrv. og hljóða svo:

Fyrstu mál sem hér verða flutt eru: Staðfesting á bráðabirgðalögum nr. 68/1987, um ráðstafanir í fjármálum, þ.e. fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem voru m.a. um tekjuöflun. Þær urðu til þess að styrkja mjög stöðu ríkissjóðs á yfirstandandi ári og draga úr fjárlagahalla en þó enn fremur á næsta ári því að þær munu á næsta ári afla ríkissjóði tekna á heilu ári sem svara til 31/2 milljarði.

Í öðru lagi: Lög um breytingu á lögum um söluskatt. Það varðar þau áform, sem ég lýsti hér áðan, að fækka enn frekar undanþágum í söluskatti samkvæmt ábendingum og tillögum skýrslunnar um upprætingu skattundandráttar, að lækka því næst álagningarprósentu söluskatts sem er aðgerð sem þýðir verðlækkun á allan þorra neysluvarnings sem landsmenn njóta og í þriðja lagi að fylgja því eftir með því að nýta auknar tekjur til tekjujafnandi aðgerða af því tagi sem ég lýsti í máli mínu hér áðan.

Í þriðja lagi: Lög um nýja tollskrá. Þau miða að því að afnema með öllu tolla á aðföngum samkeppnis- og útflutningsiðnaðar og lækka og samræma tollflokkun að öðru leyti. Þetta er mál sem á sér langan aðdraganda, hefur verið lagt fram á Alþingi áður en við hyggjumst leggja fram á ný með það í huga að fá það samþykkt sem lög fyrir árið 1988.

Í fjórða lagi: Lög um samræmt vörugjald. Áformað er nýtt vörugjald sem verði lagt á í kjölfar niðurfellingar á sérstöku vörugjaldi og vörugjaldi á sælgæti, gosdrykki o.fl. Þetta er til þess að bæta ríkissjóði upp tekjutap sem fyrirsjáanlegt væri ella vegna tollabreytinga.

Í fimmta lagi: Lög um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt, sem nokkuð var drepið á, þar sem stefnt er að því að einfalda tekjuskattsálagningu fyrirtækja en lækka um leið jaðarskattlagningu.

Þá er að geta laga um breytingu á lögum um launaskatt. Tilgangurinn er jafnframt sá að með því að leggja 1% launaskatt á þær atvinnugreinar sem ekki hafa borið slíkan skatt hingað til, aðrar en búrekstur, er verið að stefna í átt til samræmingar á þessum skattstofni.

Því næst er viðamikið mál en það eru lög um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lög um sérstakt gjald af verktökum vegna vinnu á varnarsvæðunum.

Þetta eru þau áform sem fylgja fjárlagafrv. um sérstök frv. sem varða tekjuöflunarkerfi ríkisins og skattakerfið og ástæða var til að vekja athygli á.

Að því er varðar köpuryrði hv. þm. Svavars Gestssonar um breytingar á stefnu, um það að formaður Alþfl. hafi talað tungum tveim og sagt eitt fyrir kosningar en sé að framkvæma annað eftir kosningar, þá eru það staðlausir stafir að sjálfsögðu. Hv. þm. segir þetta gegn betri vitund. Hann þekkti vel málflutning Alþfl. fyrir kosningar. Honum er ekki ofætlan að kynna sér stefnuyfirlýsingu Alþfl. sem birt var fyrir kosningar undir heitinu „Viðreisn velferðarríkis og nýsköpun efnahagslífs“. Þar var því skattaprógrammi lýst mjög rækilega og nánast með sömu orðum og er að finna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að því er varðar alla þætti málsins. Ég geri því ekki skóna að það hafi farið fram hjá hv. ræðumanni að allt frá því að flokksþing Alþfl. árið 1984 samþykkti sérstaka stefnuyfirlýsingu um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu og lagði þá fram fyrstu tillögurnar um allsherjarendurskoðun á tekjuöflunarkerfinu hefur það linnulaust verið málflutningur þess sem hér stendur að það væri lykilatriði við endurskoðun skattakerfisins að fækka og helst afnema að langmestu leyti undanþágur í söluskatti jafnhliða því sem álagningarprósentan væri lækkuð. Þetta fer ekki milli mála. Það kemur því úr hörðustu átt þegar hv. þm. ber öðrum á brýn að vera nú að framkvæma eitthvað annað en menn sögðu fyrir kosningar. Það eru einfaldlega staðlausir stafir, gersamlega.