03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5400 í B-deild Alþingistíðinda. (3600)

305. mál, útgjöld vísitölufjölskyldu

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Fyrst vegna fsp. hv. 13. þm. Reykv. Það hefur ekki verið samin svo ég viti sérstök skýrsla vegna þessarar þál., en ég held að svarið fáist þá fyrst að við höfum náð því að taka þátt í samstarfinu, sem ég nefndi áðan og nú stendur milli aðildarríkja OECD, á vegum Sameinuðu þjóðanna reyndar einnig, um samræmdar mælingar á raunverulegum þjóðartekjum og útgjöldum ýmissa ríkja sem meiningin er að framkvæma þannig að taka sömu vörusöfn og bera þau saman með verðhlutföllum allra ríkjanna á víxl og komast þannig fram hjá þeim vandkvæðum sem á því eru að nota gengið eitt til að bera saman lífskjörin sem getur verið mjög mismunandi og misvísandi reyndar. Þetta er umfangsmikið verkefni, en ég vona að það leiði til einhverrar niðurstöðu á næstu árum.

Ég vildi svo að lokum segja það eitt að ég get fullvissað hv. 2. þm. Austurl. um að slíkar samanburðarathuganir, sem hún nefndi, eiga fullan rétt á sér. Mínar ábendingar voru eingöngu aðferðarfræðilegar áhyggjur af því að þótt maður hefði svörin segðu þau ekki alla sögu og ég reyndi í örfáum orðum að benda á hvað því ylli. Þetta er því miður þannig að það er erfitt að bera saman epli og appelsínur nema maður hafi verðhlutföll og þau eru þá yfirleitt breytileg milli landa. Þetta er kjarni málsins.

Ég segi það að lokum að auðvitað hefur verið gerður víðtækur lífskjarasamanburður milli Íslands og annarra landa með þeim einfalda hætti að taka einkaneyslutölur og dreifa þeim á hvert mannsbarn í löndunum sem saman eru borin. Ísland hefur jafnan staðið hátt í slíkum samanburði og verið því nær jafnfætis Norðurlandaþjóðum mjög oft. Þetta sveiflast hins vegar dálítið með genginu og með gengi okkar atvinnulífs, en því fer víðs fjarri að þær tölur bendi til þess að hér búi menn við öll önnur og lakari kjör en gerist með nálægum þjóðum. En eins og ég ítreka: Þetta er ekki neitt endanlegt fullkomið svar. Betra svar kynni að fást úr því alþjóðasamstarfi sem ég vitnaði til.