03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5401 í B-deild Alþingistíðinda. (3601)

305. mál, útgjöld vísitölufjölskyldu

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel að sú umræða sem er vakin með þessari fsp. frá hv. 2. þm. Austurl. sé þörf og gagnleg. Þetta er það sem brennur á mjög mörgum, að velta fyrir sér hvernig lífskjör eru hér í samanburði við það sem gerist annars staðar, bæði að því er varðar eyðslu, útgjöld og hins vegar að því er varðar launin.

Ég hygg að það sé rétt, sem hæstv. ráðherra sagði, að þegar einkaneysluútgjöld eru borin saman með þeim hætti að þau eru öll tekin og deilt í þau með fjölda vinnandi manna sé niðurstaðan ekki mjög langt frá því sem gerist í grannlöndum okkar. Mismunurinn liggur hins vegar í því að hér vinnur fólk að jafnaði 20%, fimmtungi lengri vinnutíma en gerist í grannlöndum okkar þannig að það er fráleitt að mæla lífskjör út frá útgjaldahliðinni einni. Það verður að mæla lífskjör eftir því hversu lengi hver maður þarf að selja vinnuafl sitt til að geta lifað og komist af í nútímasamfélagi.

Ég kom hins vegar upp vegna þess að nú vill svo til að sami maðurinn fer með viðskrn. og Hagstofuna. Það hefur ekki verið um nokkurt skeið. Ég tel að það sé að mörgu leyti heppilegt í þessu máli og væri skynsamlegt af hæstv. ráðherra að hann beitti áhrifum sínum til þess að í viðskrn. og á Hagstofunni fari reglulega fram samanburðarathuganir á lífskjörum hér og þar, bæði í kaupi og útgjöldum.