03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5404 í B-deild Alþingistíðinda. (3604)

307. mál, kosningarréttur Íslendinga erlendis

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég held að hér sé vakið máls á mjög þýðingarmiklu máli fyrir þúsundir Íslendinga og vil aðeins hv. þingheimi til upplýsingar geta þess að varðandi réttindi manna á Norðurlöndum hafa verið vandamál uppi eins og víða annars staðar og nokkur mismunur á því hvernig menn eru skráðir t.d. sem stunda nám í nágrannalöndum okkar norrænum. Ég vil því upplýsa að á þingi Norðurlandaráðs 1985 var samþykkt tillaga, sem ég hafði flutt ásamt fleiri þm. íslenskum og erlendum, um að reyna að samræma þjóðskrár Norðurlandanna og samræma reglur um annars vegar tímabundna dvöl og hins vegar fasta búsetu.

Síðan hefur það gerst að komið var á laggirnar nefnd til að vinna að þessu og í þeirri nefnd situr af Íslands hálfu Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri. Hann hefur hins vegar upplýst mig um að það hafi nokkuð háð störfum nefndarinnar að Danir hafa ekki sýnt þessu máli mikinn áhuga. - Ég held að það sé þýðingarmikið að hv. þm. viti að þetta starf er í gangi. - T.d. gera Norðmenn mun á tímabundinni búsetu og fastri. Það gera Danir hins vegar ekki svo að námsmenn verða beinlínis að flytja úr landi þegar þeir fara til Danmerkur þó ekki sé nema til náms.

Ég hef gert mitt besta til að reyna að fá leiðréttingu á þessu á norræna vísu og vil biðja hæstv. dómsmrh. að vinna að því við þá kollega sína á Norðurlöndum og ekki síst danska dómsmrh. að hvetja hann til þess að sýna þessu starfi dálitla alvöru. Þar kemur auðvitað til að Danir eru með annan fótinn í Efnahagsbandalaginu, en hinn fótinn ... (Forseti: Ég vek athygli á því að þetta er komið langt fram úr örstuttri athugasemd.) Ég held að einhver hafi nú gert hér lengri athugasemdir, en ég skal hætta nú þegar.

Ég vil aðeins minna á þetta og biðja hæstv. ráðherra um að sýna þessu starfi áhuga því ég held að það mundi leysa verulegan hluta þessa vanda.