03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5411 í B-deild Alþingistíðinda. (3615)

306. mál, umsóknir erlendra manna um landvist

Fyrirspyrjandi (Unnur Sólrún Bragadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra að mörgu leyti greinargóð svör. Nú veit ég nákvæmlega hverjir hafa fengið hér leyfi, en aftur á móti voru svörin ekki alveg jafnskýr um það sem sneri að þeim sem frá hafði verið vísað. Að vísu tók hæstv. ráðherra fram að í flestum tilvikum hefðu þeir fengið landvist sem sótt höfðu um, en þó jafnvel ekki allir og ég fékk ekki fram hverjir það þá voru.

Ég get vissulega samglaðst þeim sem hafa fengið leyfi til að flytjast hingað til lands, en þó hefur óneitanlega hvarflað að manni hvað það sé einkennilegt að þeir sem hér eru að sækja um leyfi eru jafnframt því að sækja um leyfi að fá að koma hingað til lands að sækja um leyfi til að fá að yfirgefa sitt eigið land á meðan milljónir manna bíða og eiga sér jafnvel hvergi hæli og hafa ekki leyfi til að snúa til síns heimalands og það er kannski að hluta til einmitt af þessu sem fsp. mín er sprottin.