03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5412 í B-deild Alþingistíðinda. (3616)

297. mál, fiskimjölsverksmiðjur

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Við Íslendingar höfum yfir að ráða tveimur mikilvægum auðlindum, annars vegar fiskinum í sjónum og hins vegar orkunni í fallvötnunum og iðrum jarðar. Afkoma okkar byggist framar öðru á þessum tveimur auðlindum. Af því tilefni vaknar sú spurning hvort við getum ekki nýtt okkur auðlindir þessar betur og saman á einhvern hátt til enn meiri sköpunar verðmæta fyrir þjóðarbúið.

Með aukinni þekkingu á orkumálum hefur okkur tekist að nýta orku fallvatnanna til raforkuframleiðslu og jarðvarmann til húshitunar og til notkunar í iðnaði. Á sama hátt erum við farin að nýta fiskistofna betur en áður og fiskistofna sem voru vannýttir áður. Spurningin sem hér er varpað fram er því sú hvort ekki megi nota þessa óþrjótandi orkugjafa í fiskvinnslunni í stað annarra sem nú eru notaðir.

Það er ljóst að stærsti kostnaðarþátturinn í fiskimjölsverksmiðjum er olían, en sá útgjaldaliður mun vera u.þ.b. 150 dollarar á hvert framleitt tonn af mjöli eftir því sem mér er tjáð. Fsp. þessi til sjútvrh. gengur út á það hvort ekki megi nota jarðhita í stað olíu til þessarar framleiðslu. Jarðhiti er hér sérstaklega nefndur því tilraun hefur verið gerð af hlutafélagi, er bar heitið Strandir, til að nota jarðhita í stað olíu til framleiðslu fiskimjöls og lýsis. Sá rekstur mun ekki hafa gengið upp og eignir félagsins seldar á uppboði og Fiskveiðasjóður keypti. Fsp. er annars þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hefur verið athuguð hagkvæmni þess að nota jarðhita í stað olíu í fiskimjölsverksmiðjur hér á landi? Ef svo er, gefa þær niðurstöður tilefni til að hafist verði handa um að breyta núverandi verksmiðjum eða setja nýjar á stofn?

2. Hvað hyggst Fiskveiðasjóður gera við fiskimjölsverksmiðju Stranda hf. sem sjóðurinn keypti á nauðungaruppboði fyrri hluta árs 1987?"