03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5412 í B-deild Alþingistíðinda. (3617)

297. mál, fiskimjölsverksmiðjur

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Hæstv. forseti. Undanfarin 15 ár hefur nokkrum sinnum verið gerð úttekt á notkun jarðgufu við fiskimjölsframleiðslu. Þessar athuganir hafa verið gerðar af ýmsum aðilum, t.d. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Háskóla Íslands og nokkrum verkfræðistofum. Niðurstöður hafa allar verið að jarðgufa henti mjög vel til fiskimjölsframleiðslu, en hins vegar eru fiskimjölsverksmiðjur yfirleitt ekki staðsettar í nánd við jarðgufu.

Það stendur til hjá fiskimjölsverksmiðjunni í Grindavík að hefja notkun jarðgufu innan skamms þegar gufulögn fæst úr Svartsengi. Í því tilfelli er hagkvæmni jarðgufunnar augljós. Verð jarðgufu í Grindavík mun verða um þriðjungur af verði gufu framleiddrar með olíu á núverandi olíuverði. Þar sem olía er um 15% af rekstrarkostnaði fiskimjölsverksmiðju mundi jarðgufan spara um 10% af rekstrarkostnaði hjá þeim fiskimjölsverksmiðjum sem ættu kost á jarðgufu á þessu verði. Það verður þó að hafa í huga að verð á jarðgufu er mjög háð vegalengd sem þarf að flytja hana.

Flestar fiskimjölsverksmiðjur á Íslandi nota eldþurrkara til þurrkunar hjá sér og eru auk þess ekki í nánd við nein háhitasvæði. Þar sem vinnslutími fiskimjölsverksmiðja er mjög stuttur eða um það bil 100 dagar hjá flestum verksmiðjunum eru allar fjárfestingar í orkusparnaði oft mjög hæpnar hjá þeim og erfitt reynist oft að sjá fjárhagslegan grundvöll fyrir slíkum fjárfestingum.

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins telur að það sé nánast eingöngu um þrjá staði að ræða, þ.e. þrjár hafnir þar sem , jarðgufa liggur nægilega nálægt sjó til þess að það borgi sig að flytja hana. Það eru Grindavík, Straumsvík og Húsavík. Eins og áður kom fram stendur til að fiskimjölsverksmiðjan í Grindavík hefji notkun á jarðgufu og er þess að vænta að sú tilraun muni leiða betur í ljós hvort hér getur verið um hagkvæma ráðstöfun að ræða, en allar athuganir benda til að svo sé.

Í öðru lagi var fiskimjölsverksmiðja Stranda hf. slegin Fiskveiðasjóði sem langstærsta kröfuhafa á nauðungaruppboði á sl. ári. Þá hafði verksmiðjan staðið ónotuð um alllangt skeið. Fiskveiðasjóður hlýtur að sjálfsögðu að reyna að endurheimta sem mest af vanskilaskuldum gagnvart sjóðnum með því að selja eignirnar. Á síðasta ári fóru fram umræður og athuganir á þeim möguleika að staðsetja tilraunaverksmiðju Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins á þessum stað í því augnamiði að nýta húsakost, aðstöðu og jarðvarma á staðnum. Fiskveiðasjóður beið átekta eftir niðurstöðum þeirra athugana.

Nú hefur Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins komist að þeirri niðurstöðu að uppbygging tilraunaverksmiðju á þessari lóð væri ekki hagkvæmur kostur fyrir stofnunina. Fiskveiðasjóður mun því leita eftir tilboðum í eignirnar á næstunni. Í því sambandi má geta þess að nokkrir aðilar hafa lýst yfir áhuga sínum á því að nýta aðstöðuna á athafnasvæði Stranda hf. við ýmiss konar þurrkun, t.d. á fóðri, m.a. dýrafóðri. Er þess að vænta að jarðvarminn á svæðinu verði nýttur áfram í framleiðsluiðnaði.

Ég vænti þess, hæstv. forseti, að hér sé um fullnægjandi svar að ræða.