03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5414 í B-deild Alþingistíðinda. (3620)

298. mál, einkaleyfi og mynsturvernd

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Þau einkaleyfislög sem nú eru í gildi hér á landi eru frá árinu 1923 og eru að mörgu leyti úrelt. Víðtækt samstarf og hröð framþróun gerir nauðsynlegt að setja hið fyrsta samræmd lög um einkaleyfi og verndun hugverka svo að við Íslendingar getum tekið þátt í fjölþjóðlegu samstarfi á þessum vettvangi. Er þar sérstaklega átt við rannsókn og skráningu einkaleyfa. Slíkt samstarf gerbreytir öllum framgangi þessara mála hér á landi og sparar stórfelld aukaútgjöld samkvæmt því úrelta kerfi sem í gildi er í dag.

Eitt af því sem orðið hefur út undan hjá okkur Íslendingum að því er varðar verndun hugverka er mynsturrétturinn. Um hann hefur fjöldi þjóða, m.a. hinar skandinavísku, sett sérstök lög. Þörf á slíkri löggjöf hefur gert vart við sig hér á landi. Hér á landi starfar fjöldi manns að því að hanna hugmyndir að útliti eða skreytingu á vörum. Sú vernd, sem þessir hönnuðir njóta gegn því að aðrir nýti sér sköpunarverk þeirra án heimildar með eftirlíkingum, er hins vegar takmörkum sett að íslenskum rétti.

Við setningu nýrra laga um einkaleyfi er sérstaklega mikilvægt að vanda vel til ákvæða er fjalla um uppfinningar starfsmanna á vinnustöðum svo af verði tekin öll tvímæli um réttarstöðu vinnuveitenda annars vegar og starfsmanna hins vegar. Slík löggjöf er grundvöllur að víðtæku samstarfi hugvitsmanna og framleiðenda og er forsenda fyrir því að við Íslendingar getum orðið samstiga öðrum þjóðum í framþróun og iðnvæðingu. Af þessum rótum er fsp. á þskj. 602 til iðnrh. sett fram um einkaleyfi og mynsturvernd, en fsp. er annars þannig:

„1. Hvenær má vænta þess að fram komi á Alþingi frv. að nýjum lögum um einkaleyfi og mynsturvernd?

2. Eru fyrir hendi þau skilyrði sem þarf til þess að fá aðild að norrænu samstarfi um einkaleyfisrannsóknir? Ef ekki, hvaða skilyrði þarf að uppfylla og hvenær má búast við því að Íslendingar geti gerst aðilar að þessu samstarfi?"