03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5417 í B-deild Alþingistíðinda. (3623)

298. mál, einkaleyfi og mynsturvernd

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að með stefnuræðu forsrh. var skjal þar sem sagt var frá því að á þessu þingi yrði lagt fram frv. til l. um einkaleyfi, en þegar þetta mál var kannað af þeim mönnum sem til þess voru skipaðir kom í ljós að mikil vinna þarf að fara fram til undirbúnings slíku frv. Þar á meðal hefur verið ákveðið að ráða ungan lögfræðing, sem er í framhaldsnámi og hefur sérstaklega lagt stund á þetta svið, til að skrifa greinargerð. Þar af leiðandi hef ég tekið ákvörðun um að fresta framlagningu frv. um þetta og önnur atriði, sem ég gat um í minni ræðu, þar til næsta haust. Jafnframt, eins og kom fram áður, vonast ég til þess að um svipað leyti verði hægt að skipa málum þannig að skráningarskrifstofa starfi sjálfstætt en verði ekki með sína starfsemi í húsnæði ráðuneytisins, enda eru því húsnæði skorður settar.