03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5419 í B-deild Alþingistíðinda. (3625)

303. mál, brot á jafnréttislögum

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Með bréfi dags. 19. okt. 1987 fór Sigrún Helgadóttir líffræðingur þess á leit við Jafnréttisráð að ráðið kannaði hvort gengið hefði verið fram hjá henni vegna kynferðis við ráðningu í stöðu þjóðgarðsvarðar í þjóðgarðinum Skaftafelli, en í stöðuna var ráðinn Stefán Benediktsson arkitekt. Í niðurstöðu Jafnréttisráðs segir m.a. að með bréfi Jafnréttisráðs, dags. 30. okt. 1987, 6. jan. og 20. jan. 1988, hafi Náttúruverndarráði verið gefinn kostur á að gera grein fyrir hvað ráðið hafi vali á umsækjendum um stöðu þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli. Það sé mat Jafnréttisráðs að af hálfu Náttúruverndarráðs hafi ekki komið fram fullnægjandi skýringar. Jafnréttisráð telji að Sigrún Helgadóttir hafi augljóslega menntun og starfsreynslu sem betur samsvari starfslýsingu Náttúruverndarráðs fyrir umrætt starf. Þegar gögn málsins séu virt verði að telja að með ráðningu Stefáns Benediktssonar arkitekts í stöðu þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli hafi verið brotið ákvæði 2. tölul. 5. gr. laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjóra Jafnréttisráðs mun ráðið ekki hafa í hyggju að fylgja niðurstöðu sinni eftir með málsókn að svo stöddu á meðan ekki liggur fyrir dómsniðurstaða í máli sem Jafnréttisráð höfðaði á hendur menntmrh. út af stöðuveitingu lektors við Háskóla Íslands. Þessi mál séu í raun svipaðs eðlis og dómsniðurstaða í fyrra máli hafi fordæmisgildi varðandi öll þau mál sem varða meint brot á 2. tölul. 5. gr. jafnréttislaga þar sem segir að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildi það m.a. um ráðningu, setningu eða skipan í starf. Hins vegar hefur Jafnréttisráð með vísan í 16. gr. jafnréttislaga beitt ákveðnum tilmælum til Náttúruverndarráðs sem fyrirspyrjandi gat um áðan og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka.

Það er Jafnréttisráð sem annast framkvæmd jafnréttislaga og það er því í höndum ráðsins að taka ákvörðun um málshöfðun í framhaldi af niðurstöðum í einstökum málum, en eins og áður kom fram í mínu máli hefur Jafnréttisráð kosið að bíða um sinn þar til dómsniðurstaða liggur fyrir í öðru máli sem ráðið höfðaði á hendur menntmrh.

En eftir sem áður stendur þó að viðkomandi, sem brotið hefur verið á samkvæmt úrskurði Jafnréttisráðs, getur sjálfur höfðað mál í þessu umrædda tilfelli og þá á hendur Náttúruverndarráði. Ég sé ástæðu til að geta þess í þessu sambandi að í athugun hefur verið sérstaklega hvernig unnt er að koma í veg fyrir að konum sé mismunað að því er stöðuveitingar varðar og hvaða leiðir hægt sé að fara til að tryggja konum jafnstöðu við stöðuveitingar. Jafnréttislögin sjálf kveða ekki á um að sæki karl og kona um starf í starfsgrein, þar sem karlar eru í meiri hluta og þau standi jafnt að vígi að því er varðar menntun og starfsreynslu eða jafnvel að konan sé hæfari, skuli veita henni starfið. Þau hvetja eingöngu almennt til þess að konur skuli njóta jafnréttis á við karla. Tillögur í þá veru að koma slíku tímabundnu ákvæði í gegnum þingið á sínum tíma voru allar felldar, en þar var um að ræða að veita konum að öðru jöfnu starf í þeim starfsgreinum þar sem karlar eru í meiri hluta að því tilskildu að konan hefði til að bera sömu menntun og starfsreynslu sem til starfans er krafist.

Nú er í undirbúningi hjá Jafnréttisráði og í félmrn. fundur með forráðamönnum ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja á vegum hins opinbera þar sem þeim tilmælum verður beint til þeirra að þeir hlutist til um að hvert ráðuneyti, fyrirtæki og stofnun hins opinbera vinni framkvæmdaáætlun um hvernig stuðla megi að jafnrétti karla og kvenna í hverju ráðuneyti, fyrirtæki og stofnun. Er þessi hugmynd fengin frá Noregi, en þar starfa fyrirtæki eftir jafnréttisáætlunum.

Hér er lítið dæmi um þetta verkefni. Hjá norsku póst- og símamálastofnuninni er starfandi sérstök nefnd sem er ætlað að vinna að auknu jafnrétti kynjanna. Í þessum starfshópi sitja fulltrúar frá stjórn stofnunarinnar og starfsmannafélagi ásamt ritara. Í jafnréttisáætlun starfshópsins er gerð grein fyrir þeim aðgerðum sem hópurinn vill vinna að til að koma á auknu jafnrétti á vinnustaðnum, t.d. í stöðuveitingum. Fyrsta skref hópsins var að leggja til að auka hlut kvenna í stjórnunar- og ábyrgðarstörfum á öllum sviðum. Hópurinn setur stofnuninni markmið sem síðan er unnið að. Árlegir fundir umdæma póst- og símamálastofnunarinnar norsku ræða áætlunina og endurskoða reglulega.

Með aðgerðum sem þessum, sem hér hefur verið lýst og nú eru í undirbúningi hér, er hugsanlegt að rétta verulega hlut kvenna frá því sem nú er á jákvæðan hátt og án lagaþvingana. Heimildin er til staðar í 3. gr. jafnréttislaga þar sem heimilaðar eru tímabundnar aðgerðir til hagsbóta konum.