03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5420 í B-deild Alþingistíðinda. (3626)

303. mál, brot á jafnréttislögum

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin og ég efast reyndar ekki eitt einasta andartak um réttlætiskennd hennar í þessum efnum þótt ég hefði reyndar kosið að hún gæfi til kynna ákveðnari viðbrögð.

Að mínum dómi er þetta ákaflega einfalt mál. Félmrh. beindi þeim tilmælum til ráðuneyta og ríkisstofnana í upphafi ferils síns sem ráðherra að þess yrði gætt að auka hlut kvenna í stjórnunarstörfum. Náttúruverndarráð fékk öndvegistilefni til þess, en hundsaði þessi tilmæli. Jafnréttisráð hefur komist að þeirri niðurstöðu að afgreiðsla Náttúruverndarráðs var brot á jafnréttislögum. Jafnréttisráð hefur í samræmi við 16. gr. jafnréttislaganna beint ákveðnum tilmælum til viðkomandi um úrbætur og verði þau tilmæli ekki virt er heimilt skv. 17. gr. að höfða mál til viðurkenningar á rétti aðila. Þetta liggur því afar ljóst fyrir.

Kona var svipt rétti sínum til starfs í samræmi við menntun, reynslu og hæfni. Tæplega þriggja ára gömul lög, sem voru afgreidd á nokkuð táknrænan hátt héðan frá Alþingi á kvenréttindadaginn 19. júní 1985 og áttu að tryggja jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, hafa sannanlega verið brotin. Þess vegna er spurningin ósköp einföld. Hvernig ætla hæstv. ráðherrar og þá fyrst og fremst hæstv. félmrh. sem æðsta yfirvald Jafnréttisráðs og hæstv. menntmrh. sem æðsta yfirvald Náttúruverndarráðs að tryggja framgang þessara laga? Eða áttu þessi lög ekki að vera annað og meira en orð á pappír? Að mínu viti er þetta mál prófsteinn á hvort lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru eitthvað meira en orðin tóm.

Ég er algerlega ósammála þeirri niðurstöðu Jafnréttisráðs að það sé ástæða til að bíða með frekari aðgerðir eftir niðurstöðu í öðru máli. Það er algerlega óaðgengilegt fyrir viðkomandi konu, sem brotið var á, að þurfa að fara í mál upp á eigin spýtur þar sem þá mun hana vanta þann stuðning sem fælist í því að Jafnréttisráð stæði að baki þeirri kæru og ég hygg að það sjái menn, ef þeir líta á þetta mál, að það yrði mjög erfitt fyrir hana.