03.03.1988
Sameinað þing: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5424 í B-deild Alþingistíðinda. (3628)

316. mál, bætt vettvangsþekking þingmanna

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka flm. fyrir flutning þessarar tillögu og fyrir þá góðu ræðu sem hún hélt áðan. Verst þykir mér einungis að svo fáir þm. skyldu vera viðstaddir til að hlusta á hana vegna þess að þetta er mál sem skiptir mjög miklu í starfi okkar allra hér.

Síðan kvennalistakonur komu inn á þing hafa þær ítrekað í máli sínu lagt áherslu á mikilvægi þess að þeir umboðsmenn eða fulltrúar sem hér starfa á vegum annarra séu í náinni snertingu við það þjóðlíf sem bærist á hverjum tíma. Öðruvísi geti þeir ekki orðið verðugir fulltrúar. Og einmitt það að vita hvernig aðrir hafa það og kannski ekki síst að hafa hæfileika til að setja sig í spor annarra, því að aldrei getur maður farið í öll störfin þó að maður mundi reyna, er kannski lykillinn að því að geta í raun verið verðugur fulltrúi.

Þessi leið sem hér er lögð til er sannarlega ein aðferð til að halda fólki í tengslum. Mér finnst þetta bráðsnjöll hugmynd í sjálfu sér þó mér hafi ekki gefist tími til að hugsa hana nánar, en strax og ég heyri hana finnst mér hún ekki bara skemmtileg, mér finnst hún líka snjöll. Við höfum hins vegar haft annan hátt á í Kvennalistanum. Við höfum lagt mikla áherslu á að skipta með okkur störfum, bæði inni í þeirri hreyfingu sem Kvennalistinn er og einnig út á við í öllum þeim störfum sem fulltrúar Kvennalistans taka að sér. M.a. þess vegna höfum við lagt áherslu á að þingkonur okkar séu ekki nema takmarkaðan tíma inni á Alþingi vegna þess grundvallarsjónarmiðs sem kemur fram hér í þessari tillögu, til þess að geta verið í lifandi tengslum við það líf sem lifað er í landinu á hverjum tíma, til þess að missa ekki jarðsambandið inni í reglum og siðum þessarar stofnunar sem í eðli sínu ber með sér hættuna á því að þeir einangrist sem hér vinna. Verkefnaskerfurinn er mikill, kvaðirnar eru margir. Það er sífelld beiðni um að sinna málum. Og svo gæti farið ef maður gætir sín ekki að maður megi bara hreinlega ekki vera að því að mæta á fundina með hreyfingunni sinni, með fólkinu í landinu af því að maður er alltaf að vinna að verkefnunum, að málunum. Þetta skeður einmitt smám saman, hægt og sígandi, að menn einangrast. Það er það hættulega. Þá gera menn sér ekki grein fyrir því að þeir eru í raun rofnir úr tengslum. Tengslin hafa rofnað.

Ég álít að þessi tillaga verðskuldi umræður. Ég vona að fleiri taki til máls. Mér þykir miður að svo fáir eru hér viðstaddir. Þessi umræða þyrfti ekki bara að eiga sér stað meðal þm. heldur líka meðal þeirra sem kjósa þá. Mér finnst hún allrar góðrar athygli verð, þessi till., og þakka fyrir flutning hennar.