03.03.1988
Sameinað þing: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5426 í B-deild Alþingistíðinda. (3632)

7. mál, blýlaust bensín

Frsm. allshn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir samhljóða nál. allshn. á þskj. 625 um undirbúning notkunar á blýlausu bensíni hér á landi, en nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt svo breytt:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er meti hvort taka eigi í notkun blýlaust bensín og hvaða aðgerða sé þörf til að svo geti orðið. Nefndin ljúki störfum eigi síðar en fyrir árslok 1988. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Umsagnir hafa borist frá eftirtöldum aðilum: Iðntæknistofnun Íslands, Olíufélaginu Skeljungi hf., Hollustuvernd ríkisins og Bílgreinasambandinu.

Það er svo að flestar þjóðir eru að leita lausna á sínum mengunarvandamálum þó við segjum og vitum að við búum í landi þar sem mengun er lítil. Eigi að síður verðum við að halda vöku okkar og hvað varðar mengun af útblæstri bifreiða er víða í þéttbýli um talsverða mengun að ræða. Mengunarvarnir ríkisins hafa t.d. stundað mælingar hér í Reykjavík og að sögn Ólafs Péturssonar fara fram stöðugar mælingar á Miklatorgi. Á árunum 1986–1987 mældist þar að meðaltali 0,5 míkrógrömm í rúmmetra og hæst steig þessi tala í 2 míkrógrömm við ákveðin skilyrði. Þessar tölur eru svipaðar því sem mælist í mörgum stórborgum. Ýmsir staðir hér mundu þó mæla meiri mengun en er á Miklatorgi, svo sem Laugavegur, Hlemmur og fleiri staðir, þrátt fyrir að nú er á boðstólum blýminna bensín en var, en þá hefur bifreiðum á móti fjölgað.

Flestar þjóðir hafa verið og eru að setja í gildi stranga útblástursstaðla. Hér er verið að semja nýja reglugerð um mengunarvarnir og þar verða vonandi settir staðlar um útblástur bifreiða.

Nefndin tekur undir þann tilgang sem kemur fram í grg. með tillögunni hjá hv. flm. og gerir að sínum, með leyfi forseta, en þar segjast flm. þessarar till. til þál. ekki ætla sér þá dul að fjalla á faglegan hátt um þau vandamál, en vilja samt vekja athygli stjórnvalda á þeim umræðum sem fram fara í öðrum löndum um þessi mái. Með sívaxandi fjölda bensínknúinna farartækja hér á landi er brýnt að þessi mál verði tekin föstum tökum og reglur og aðgerðir samræmdar. Til þess þurfi kunnáttumenn og sérfræðingar að koma stjórnvöldum til aðstoðar.

Enn fremur er mikilvægt að mati nefndarinnar að í þessari skipuðu nefnd eigi sæti fulltrúar hagsmunaaðila, notenda og seljenda svo og kunnáttumenn um umhverfismál. Nefndin ætti að geta skilað áliti í lok þessa árs.

Undir þetta nál. skrifa eftirtaldir: Guðni Ágústsson, Kristín Halldórsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Jón Kristjánsson, Sverrir Hermannsson, Árni Gunnarsson. Fjarverandi við afgreiðslu málsins var hv. þm. Vilhjálmur Egilsson.