03.03.1988
Neðri deild: 64. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5433 í B-deild Alþingistíðinda. (3642)

243. mál, aðgerðir í sjávarútvegi

Frsm. sjútvn. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 632 varðandi frv. til laga um aðgerðir í sjávarútvegi. Þetta frv. fjallar um endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti í sjávarútvegi á liðnu ári, árinu 1987.

Nefndin ræddi frv. og fékk umsagnir frá Sjómannasambandi Íslands, Félagi ísl. fiskmjölsframleiðenda og Félagi Sambandsfiskframleiðenda. Jafnframt barst umsögn eftir að umfjöllun nefndarinnar hafði verið lokið, en efnislegt innihald hennar var þekkt, frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og munnlega létu í ljós álit sitt Félag rækju- og hörpudiskframleiðenda og Samband fiskvinnslustöðvanna.

Umsagnaraðilar mæla allir með samþykkt á 1. gr. frv., en Sjómannasamband og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands mótmæla jafnframt sérstöku gjaldi á ísfiski. Kom nefndarmönnum ekki á óvart afstaða þessara aðila allra saman.

Nefndin varð sammála um að mæla með samþykkt frv.

Undir nál. rita auk undirritaðs Ólafur G. Einarsson, Einar Kr. Guðfinnsson, Kolbrún Jónsdóttir, Guðni Ágústsson, Alexander Stefánsson og Unnur Sólrún Bragadóttir, með fyrirvara.