03.03.1988
Neðri deild: 64. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5434 í B-deild Alþingistíðinda. (3643)

243. mál, aðgerðir í sjávarútvegi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Fulltrúi Alþb. í sjútvn. deildarinnar ritar undir þetta nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari snýr m.a. að því að alls óvíst sé að þær ráðstafanir sem hér eru til lagðar komi að því gagni sem þyrfti og einnig, og ekki síður e.t.v., að þeim vinnubrögum sem hér eru viðhöfð. Ég tel í raun og veru að það sé varla stætt á öðru en að hafa á fyrirvara og gera grein fyrir honum þar sem að hlutunum er staðið með þeim hætti sem hér ber raun vitni.

Hér er sem sagt á ferðinni draugur einn frá sl. ári sem ég er alveg viss um að hæstv. ríkisstjórn vill gjarnan að gleymist sem fyrst og helst verði sem minnst eftir því munað hvernig fór um stjórn hæstv. ríkisstjórnar á sjávarútvegsmálum síðari hluta ársins 1987 og fyrstu mánuði ársins 1988. Það var sem sé að 10. júlí í sumar greip hæstv. ríkisstjórn til efnahagsráðstafana einu sinni sem endranær. Kannski hafa það verið ráðstafanir nr. 2 í röðinni eða eitthvað svoleiðis. Þær viku að því að hætta nú að endurgreiða sjávarútveginum uppsafnaðan söluskatt því þar væri sú gullöld og gleðitíð að það væri með öllu ástæðulaust og þeir væru vel aflögufærir í sjávarútveginum um nokkur hundruð milljónir í ríkissjóð. Eða a.m.k. væri saklaust að frysta þetta fé hjá þeim.

Þá var gengið á fund forseta Íslands eins og gert er í slíkum tilfellum og forsetanum tjáð að það væri mjög brýnt mál að grípa til ráðstafana í þessu skyni og setja yrði bráðabirgðalög þar um, hvað og varð. Nokkrum mánuðum síðar má svo hæstv. ríkisstjórn flytja hér frv. til að taka til baka þetta frumhlaup sitt og fella í raun úr gildi ákvæði bráðabirgðalaganna þar sem komið hefur í ljós og var reyndar þegar ljóst á haustmánuðum að ráðstafanir þessar, tilefni bráðabirgðalaganna frá 10. júlí 1987 voru hin hrapallegustu mistök og algjörlega úr samræmi við aðstæður í landinu.

Ég tel í sjálfu sér, herra forseti, ekki ástæðu til að hafa um þetta öllu fleiri orð. Rekstrarstaða sjávarútvegsins kemur vafalaust til umræðu hér á eftir í hv. deild þegar tekið verður til við að ræða efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar, þær sem nú eru til meðferðar á Alþingi. En þær eru nokkuð aftar í röðinni, eins og mönnum mun vera kunnugt, heldur en þær ráðstafanir sem hér ræðir um, sem voru frá því í árdaga ríkisstjórnarinnar.

En eins og menn vita hafa með reglubundnu millibili birst ráðstafanir um efnahagsmál síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum, einhvers konar neyðar-og björgunaraðgerðir sem eru að verða nokkuð daglegt brauð og lýkur örugglega ekki með þeim ráðstöfunum sem nú verður tekið til við að ræða hér á eftir. Hefur það m.a. orðið samdóma niðurstaða okkar ræðumanns og virðulegs forseta deildarinnar — hollt fyrir hæstv. fjmrh. að hlusta á þetta — að það sé sérstök ástæða til þess að hraða meðförum efnahagsráðstafananna gegnum þingið til þess að mynda þá pláss og svigrúm til að taka við þeim næstu. Það er mjög óæskilegt og óheppilegt að okkar mati að ráðstafanirnar skarist og gangi hver út yfir aðra þannig að ég held að það sé mjög nauðsynlegt að koma þessum draug hér frá fyrri mánuðum út úr heiminum sem allra fyrst og einnig því frv. sem næst verður rætt á eftir þessu. Því það er næsta víst og mjög líklegt að ekki líði á löngu þar til að ráðstafanir nr. 27 eða eitthvað svoleiðis koma hér inn í þingið, e.t.v. næstu daga, næsta björgunaraðgerð.

Þessa plaggs verður e.t.v. fyrst og fremst minnst, ef þess verður þá nokkuð minnst í þingsögunni, sem heldur snautlegs dæmis um gæfulitla athöfn ríkisstjórnar á fyrstu valdadögum, þegar rokið var til að setja bráðabirgðalög sem nokkrum mánuðum síðar þurfti síðan að afnema með sérstökum aðgerðum af því að þau voru svo vitlaus.