03.03.1988
Neðri deild: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5436 í B-deild Alþingistíðinda. (3649)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum 1988. Tilgangurinn með þessu lagafrv. er að bæta starfsaðstöðu fyrirtækja og starfsfólks í sjávarútvegi, fiskiðnaði og útflutningsgreinum. Og jafnframt að hamla gegn skuldasöfnun og viðskiptahalla.

Veigamiklar forsendur þessa máls þegar menn meta áhrif þessara aðgerða eru að fiskverð haldist óbreytt og í annan stað að fylgt verði í þeim kjarasamningum sem nú er unnið að í stórum dráttum þeirri stefnu sem aðilar vinnumarkaðarins höfðu komið sér saman um í nýgerðum kjarasamningum, þ.e. kjarasamningum á Vestfjörðum og samningum Vinnuveitendasambandsins og Verkamannasambandsins.

Þessar aðgerðir eru í meginatriðum þríættar. Það eru annars vegar sérstakar aðgerðir til þess að bæta hag útflutningsgreinanna og styrkja greiðslugetu þeirra og þar með greiða fyrir kjarasamningum. Í annan stað eru það sérstakar aðgerðir til að hamla gegn viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun. Í þriðja lagi er hér um að ræða aðgerðir á sviði peningamála og fela í sér lækkun vaxta og aukið aðhald á fjármagnsmarkaði.

Veigamikill þáttur þessara aðgerða er gengislækkun sem nemur 6% og felur í sér hækkun á verði erlendra gjaldmiðla upp á 6,4% tæplega. Með þeirri aðgerð og öðrum aðgerðum sem þetta frv. felur í sér til að bæta afkomu fiskvinnslunnar sérstaklega má ætla að færðir séu til fjármunir til fiskvinnslu, sjávarútvegs og að nokkru leyti útflutningsgreina sem áætla má á bilinu 3–3,5 milljarðar kr. Þar af eru um 2 milljarðar vegna gengisbreytingarinnar, en um 1250 millj. vegna annarra aðgerða sem fela í sér endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti í fiskiðnaði og sjávarútvegi, skuldbreytingar sjávarútvegsfyrirtækja og að nokkru leyti annarra fyrirtækja í útflutningsiðnaði, endurgreiðsla á launaskatti eða afnám öllu heldur launaskatts frá og með 1. júlí á þessu ári, sem og lækkun tilkostnaðar fyrirtækjanna vegna afurðalána. Alls eru þetta um 1250 millj. kr.

Þar sem þetta mál hefur þegar verið tekið til umræðu í Sþ. er kannski ekki ástæða til að gera því eins ítarleg skil og ella hefði verið nauðsynlegt. Ríkisstjórnin hefur þegar við þær umræður kynnt stefnuyfirlýsingu þar sem gerð er grein fyrir meginatriðum málsins. Málið hefur þegar hlotið allítarlega umræðu í Ed.

Það sem einkum er ástæða til að staldra við við þær umræður er eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er það spurningin um gengisbreytinguna. Það er ekkert launungarmál að kröfur hafa verið uppi háværar í þessu þjóðfélagi um breytingu á gengi krónunnar. Þær kröfur hófust strax á sl. hausti. Ýmsir aðilar héldu því mjög ákveðið fram að grípa þyrfti til meiri gengisfellingar. Ástæðurnar fyrir því eru auðvitað fyrst og fremst þær að á sl. hausti urðu snögg umskipti til hins verra að því er varðaði afkomu í fiskvinnslu sérstaklega. Það má einkum rekja til eftirfarandi þátta: Í fyrsta lagi fall dollars á sl. hausti. Í annan stað horfur um minnkandi afla í kjölfar mótunar fiskveiðistefnu fyrir árið 1988. Í þriðja lagi ótti við versnandi viðskiptakjör á erlendum mörkuðum. En stærsta ástæðan er vafalaust það misvægi í kostnaðarþróun sem annars vegar varð á Íslandi á sl. ári í samanburði við kostnaðarþróun í helstu viðskiptalöndum.

Auðvitað er það vondur dómur um hagstjórn Íslendinga að menn skuli þurfa að grípa til gengisfellingar til að bæta hag útflutningsgreinanna strax þegar lýkur einhverju mesta hagvaxtarskeiði sem íslenska þjóðin hefur notið á undanförnum árum. Ætla má að þessi hagvöxtur sl. fjögurra ára hafi skilað íslenskum þjóðarbúskap um 50 milljörðum kr. í auknum verðmætum. Vitað er að sérstaklega upp úr 1984, 1985, 1986 átti þetta hagvaxtarskeið uppruna sinn í sjávarútveginum og hagur fyrirtækja í sjávarútvegi og fiskvinnslu fór batnandi, m.a. vegna stöðugleika í gengi en að öðru leyti vegna hagstæðra ytri skilyrða, vegna aukins afla, vegna hækkandi verðs á erlendum mörkuðum, vegna lækkandi tilkostnaðar, bæði vegna verulegrar lækkunar olíuverðs og lækkunar vaxta á erlendum mörkuðum, og síðan bættust við kjarasamningar sem gerðu stjórnvöldum kleift að nýta sér hagstæð ytri skilyrði til þess að ná niður verðbólgu á þessu tímabili.

Það er ástæða til að spyrja þá sem gagnrýna þessar aðgerðir nú með því að segja að gengislækkunarþörfin hafi verið og sé miklu meiri um rök þeirra fyrir þeim staðhæfingum, einmitt út frá þeirri staðhæfingu hvort meiri háttar gengisfelling hefði verið mjög skammæ aðgerð, hvort menn hafa trú á að hún hefði skilað einhverjum varanlegum bata fyrir þessar útflutningsgreinar. Við erum þar komin í hagsveiflunni að úr þeirri miklu eftirspurnarþenslu sem einkenndi árið 1987 er heldur tekið að draga, þó ekki nægilega mikið. Ef menn hefðu gripið til þess ráðs að fella gengið með miklu stórtækari hætti er ástæða til þess að ætla að ekki hefði reynst unnt að halda fiskverði óbreyttu, en fiskverð er um helmingur af helstu framleiðslukostnaðarliðum í fiskvinnslu, hráefniskostnaður. Það hefði verið borin von að ætla sér að ná kjarasamningum þar sem peningalaunahækkunum hefði verið stillt í hóf. Stórtæk gengisfelling hefði þess vegna þegar í stað hækkað bæði hráefnisverð, launakostnað og kostnað á erlendum aðföngum. Það er ástæða til að ætla að það hefðu ekki liðið margar vikur áður en ástandið væri aftur komið í sama horf. Aðgerð af því tagi hefði þess vegna ekki verið vænleg til frambúðar.

Það er ekkert launungarmál að sá sem hér stendur lagðist mjög sterklega á sveif með þeim sem vildu halda gengislækkuninni sem minnstri. Þar á móti, til þess að draga úr gengislækkunarkröfum, þurfti ríkissjóður að koma til móts við útflutningsgreinarnar til að bæta afkomu þeirra. Það hefði ekki verið unnt að gera ef ríkisstjórnin hefði ekki haft framsýni og pólitískan kjark til að styrkja tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs mjög verulega á liðnu hausti, en segja má að þær aðgerðir hafi skapað forsendu.r fyrir því að ná samkomulagi um annars vegar aðgerðir til að styrkja afkomu fiskvinnslunnar án meiri háttar gengislækkunar og þá um leið leiðréttingu á kjörum fiskvinnslufólks og annarra þeirra sem ekki hafa notið launaskriðs við veisluborðið mikla.

Til eru þeir sem segja að aðgerðir eins og þær að endurgreiða nú uppsafnaðan söluskatt í sjávarútvegi og fiskvinnslu og fella niður launaskatt frá miðju ári sýni að það hafi verið röng stefna hjá stjórnvöldum eða þessari ríkisstjórn þegar hún tók til starfa að beita sér fyrir þessari gjaldtöku. Ekki sannfærist ég af þeim rökum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þegar þessar ákvarðanir voru teknar fyrir mitt sl. ár er það þegar er að ljúka einhverju mesta uppgangstímabili í íslenskum sjávarútvegi sem staðið hafði linnulaust á fjórða ár. Það var ekkert launungarmál að við þær kringumstæður var afkoma í útgerð óvenjugóð og afkoma fiskvinnslunnar hafði verið það einnig á undanförnum árum, auðvitað nokkuð misjafnlega eftir greinum, en engu að síður: þarna hafði verið um að ræða óvenjulega langt tímabil þar sem afkoma í þessum greinum hafði verið býsna góð. Það voru þess vegna forsendur fyrir því að þessar greinar skiluðu gjöldum til samneyslunnar eins og aðrar atvinnugreinar í landinu. Sérstaklega var ástæða til þess vegna þess að vitað var að fjárfestingar höfðu verið miklar í greininni og fjárfestingaráform á næsta ári voru mjög háspennt. T.d. er ástæða til að vekja athygli á því að yfir 80% fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu eru í eigu og rekstri sömu aðila í stórum dráttum og fjárfestingaráform upp á rúmlega 3 milljarða í útgerð benda til þess að afkoma þeirra fyrirtækja sé ekki slæm eða hafi ekki verið slæm.

Þá er þess að geta að séu menn sannfærðir um að stórtækar gengiskollsteypur séu rangar og stefni í hættu öðrum og veigameiri markmiðum, svo sem eins og því meginmarkmiði að ná niður verðbólgu að loknu þessu þensluskeiði, sem er auðvitað stærsta hagsmunamál bæði atvinnulífsins og launþega. Það hefði ekki getað gerst ef fjárhagur ríkissjóðs hefði ekki verið styrktur svo verulega sem raun ber vitni um.

Að því er varðar ríkisfjármálaþátt þessa dæmis má segja í stórum dráttum að aukin ríkisútgjöld sem ákveðin voru af meiri hluta Alþingis eftir að fjárlagafrv. og lánsfjárlagafrv. var lagt fram, sá slaki sem í þau mál kom við umfjöllun þingsins er að nokkru leyti tekinn til baka. Þó ekki að öllu leyti.

Til þess að bæta hag útflutningsgreinanna og standa undir þeim útgjöldum sem af því leiðir hefur verið gert ráð fyrir því að ríkisútgjöld verði lækkuð um 300 millj. kr. Veigamestu þættirnir í því eru útgjöld til vegamála, framlög til byggingarsjóðanna og síðan önnur útgjöld sem fela í sér frestun framkvæmda eða hagræðingu tilkostnaðar á sviði heilbrrn. og fjmrn.

Jafnframt er gripið til tekjuöflunar. Sú tekjuöflun er tvíþætt. Annars vegar er hækkaður tekjuskattur á fyrirtæki og hins vegar hækkað gjald á þau fyrirtæki sem stefna í fjárfestingar fjármagnaðar með erlendum lántökum. M.ö.o.: tekjuöflunarþátturinn er lagður á þau fyrirtæki sem ástæða er til að ætla að notið hafi góðærisins og skili hagnaði og þau fyrirtæki sem stefna að miklum fjárfestingum.

Að öðru leyti er það veigamikill þáttur þessara aðgerða að ríkisstjórnin hefur ákveðið að fresta áformum sínum um breytinguna á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég legg áherslu á orðið „að fresta“ því að ríkisstjórnin er engan veginn fallin frá þeim áformum. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta merka umbótamál hefur mætt verulegri andstöðu, ekki bara af hálfu stjórnarandstöðunnar heldur ýmissa áhrifamanna í liði stjórnarflokkanna. Þannig hafa einstaka þm., t.d. þm. Framsfl., snúist gegn þessu máli og lýst því yfir í heyranda hljóði. Það voru því allar horfur á því að málið væri strandað í meðferð þingsins eða að það kæmist ekki í gegn nema svo limlest að það skipti ekki máli lengur.

Ég skil afskaplega vel að forsvarsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga lýsi gremju sinni yfir því vegna þess að þetta mál var frá upphafi undirbúið í nánu samstarfi við þá og fyrir Liggur að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hafði lýst yfir eindregnum stuðningi við málið, sem og samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga. Þegar ég segi: Það var undirbúið í nánu samráði við þessa aðila, þá lá það fyrir frá upphafi að ekki einasta yrði aukinn kostnaður sveitarfélaga að fullu bættur vegna þessa 1. áfanga tilfærslunnar heldur varð um það samkomulag að ef þetta mál næði fram að ganga í tveimur áföngum á tveimur árum ætlaði ríkissjóður sér að afnema svokallaða skerðingu á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í tveimur áföngum, að hálfu við gildistöku fyrri áfanga og síðan að fullu á seinni áfanga.

Í umræðu um þetta mál urðu ýmsir til að halda því fram að hér væri gengið mjög á hlut sveitarfélaganna og að sveitarfélögunum væri ekki að fullu bættur kostnaðarauki þeirra hvað þá heldur að það væri verið að styrkja fjárhag þeirra. Þess vegna kveður við heldur undarlegan tón þegar menn standa frammi fyrir því að málið nær ekki fram að ganga eða um það tekst ekki samkomulag. Þá segja hinir sömu aðilar að nú sé mikil vá fyrir dyrum hjá sveitarfélögunum vegna þess að nú njóti þau ekki þeirra stórauknu fjármuna sem áttu að renna til þeirra í gegnum Jöfnunarsjóðinn, einkum sérdeild Jöfnunarsjóðs, sem samsvarar 260 millj. kr. Nú er allt í einu viðurkennt að hér hafi verið um mikla fjármuni að ræða og að mörg sveitarfélög muni verða fyrir verulegum fjármissi við það að málið nær ekki fram að ganga og strandar á Alþingi. Þetta er heldur dapurleg lýsing á rökvísi manna og heilindum í málflutningi því að hvort tveggja getur ekki verið satt.

Að sjálfsögðu er það svo að fjárhagur sveitarfélaganna hefði styrkst mjög verulega ef þetta mál hefði náð fram að ganga, bæði í þessum áfanga og ekki síður þegar seinni áfanginn hefði komið til framkvæmda þar sem veigamiklir stórir og útgjaldafrekir framkvæmdaliðir hefðu færst af sveitarfélögunum yfir til ríkisins. Öllum sem til þekkja eitthvað aftur í tímann er kunnugt um að þetta er mikið umbótamál. Þetta er mál sem forsvarsmenn sveitarfélaga og landsbyggðar hafa látið sig dreyma um og haft uppi óskir um árum og áratugum saman. Það er slæmt til þess að vita að mótmæli, sem einkum og sér í lagi hafa komið frá fámennari sveitahreppum í tveimur kjördæmum, skuli hafa orðið til þess að beygja þm. fyrir skammtímasjónarmiðum af þessu tagi. Það er leiðinlegt til þess að vita að þeir skuli ekki treysta sér að hafa heildarsýn í svo stóru máli og halda sitt strik og reka svo upp ramakvein þegar afleiðingarnar blasa við.

Það er líka rétt að þetta mál var óvenjulega vel undirbúið. Það hafði tekist um það góð samvinna og það hafði verið mjög rækilega kynnt, eins og hæstv. fyrrv. félmrh. Alexander Stefánsson hefur reyndar lagt megináherslu á í sínum málflutningi. Tillögurnar höfðu nefnilega verið sendar í bókarformi hverjum einasta sveitarstjórnarmanni á landinu með löngum fyrirvara og er sjaldgæft í voru landi að mál hafi verið undirbúin jafn vel.

Ég nefndi áðan að með þessum aðgerðum væri fjárhagur fyrirtækja í fiskvinnslu einkum og sér í lagi bættur sem ætla mætti að nemi 3–31/2 milljarði kr. Þá koma einnig til ýmsar óbeinar aðgerðir fyrir utan þær sem þegar eru nefndar. Það lýtur einkum að lækkun vaxta eða fyrstu skrefum sem stigin hafa verið í þá átt og jafnframt hækkuðu hlutfalli afurðalána.

Ef menn vilja meta áhrif þessara efnahagsaðgerða á hag útflutningsgreinanna má segja að það dæmi, ef við lítum á það reiknað til loka árs, snúist við að því leyti að það má búast við því að hagur útgerðarinnar versni við þessar aðgerðir og hún verði undir árslok að öðru óbreyttu með nokkrum halla, en afkoma fiskvinnslunnar hins vegar batni mjög verulega.

Það er alkunna að staða flestra sjávarútvegsfyrirtækja var seinustu mánuðina orðin mjög óhagstæð. Frystingin var talin vera rekin með 7–8% halla og söltun og útgerð hefur rétt hangið ofan við núllpunktinn að meðaltali. Með þessum aðgerðum batnar afkoma fiskvinnslunnar mjög verulega. Lauslega áætlað gæti frystingin verið komin upp undir núllpunkt og söltun að sama skapi í nokkurn hagnað. Hins vegar, eins og áður sagði, mun afkoma útgerðar heldur versna við þetta og má þar reikna með nokkrum halla. Sá halli er fyrst og fremst á bátaútgerð, en rekstur togara yrði væntanlega í járnum.

Í þessum umræðum hafa menn staldrað við hinn mikla viðskiptahalla sem við blasir. Það er mat manna að við þessar aðgerðir sé hamlað gegn vaxandi viðskiptahalla þannig að búast megi við því að hann verði um það bil 3 milljörðum lægri en ella hefði orðið. Það sýnir þó ekki meiri árangur en svo að í besta falli mundi haldast í horfinu, að viðskiptahallinn í árslok 1988 yrði um 3,3% af landsframleiðslu eða svipað og á síðasta ári. Þetta er auðvitað mikið álitamál. Um þetta geta verið skiptar skoðanir. Menn meta þetta misjafnlega. Þar þarf að taka tillit til margra matshátta. Einn slíkur þáttur er að sjálfsögðu að hagur fiskvinnslu og útflutningsgreina er bættur með þessum aðgerðum. Þess vegna má ætla að útflutningsverðmæti verði meira en ella hefði orðið.

Í annan stað er stór óvissuþáttur sem eftir er að meta og hann er þessi: Hvernig mun til takast í framkvæmd að ná samkomulagi um að draga úr og fresta fjárfestingum sem áætlað er að fjármagna með erlendu lánsfjármagni á þessu ári? Það er nú eitt helsta sprengirými þenslunnar. Þá er ég sér í lagi að tala um meiri háttar mannvirkjagerð sem er bæði mannaflsfrek og þar sem erlendir kostnaðarþættir eru fyrirferðarmiklir. Þar liggur fyrir að stærstu aðilarnir eru annars vegar Reykjavíkurborg og í einstaka tilfellum önnur sveitarfélög. Þar er einnig um að ræða útgerðina sem hefur uppi áform um innflutning fiskiskipa og meiri háttar endurnýjun á skipum upp á a.m.k. 3 milljarða og reyndar rúmlega það ef allt er talið. Og þar er um að ræða ýmis einstök atvinnufyrirtæki sem hafa á undanförnum mánuðum og missirum spennt bogann býsna hátt að því er þetta varðar.

Þessar aðgerðir hafa þegar að einhverju marki áhrif í þá átt að draga úr þessum fjárfestingaráformum. Tvöföldun hins erlenda lántökugjalds mun væntanlega gera það. Minni fjárframlög til sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóðinn munu væntanlega gera það líka. Það er t.d. komið fram að borgarstjórinn í Reykjavík hefur þegar lýst því yfir að hann muni flytja tillögur um að fjárfestingaráform Reykjavíkurborgar verði endurskoðuð og þau minnkuð um rúmlega 200 millj. kr. þegar af þessari ástæðu.

Þá er á það að líta að að því er varðar fjárfestingaráformin um endurnýjun og viðhald fiskiskipa er ráð fyrir því gert að Fiskveiðasjóður fari vandlega yfir stöðu þeirra mála til að meta hverjir af slíkum samningum eru þegar bindandi og í annan stað að staðfesting á slíkum áformum að því er varðar opinbera lánafyrirgreiðslu miði m.a. mjög að því að tryggja að þarna sé fyrst og fremst um að ræða fyrirtæki sem hafa eiginfjárstöðu af því tagi að þau fái risið undir þessari fjárfestingu.

Það er ástæða til að taka undir með þeim sem segja: Viðskiptahallinn er allt of mikill. Hann er hins vegar að verulegu leyti afleiðing af ákvörðunum sem löngu var búið að taka. Hann er afleiðing fyrst og fremst af því að ekki var gripið til aðhaldsaðgerða í árslok 1986 eða í upphafi árs 1987, þegar það var nauðsynlegt, því að það eru engin efnahagsúrræði góð nema þau sem í tíma eru tekin. Hann er síðan að langstærstum hluta afleiðing af ákvörðunum fyrri ríkisstjórnar vegna þess að vaxtaþátturinn, neikvæður vaxtajöfnuður upp á 6,3 milljarða a.m.k., er meginþátturinn í þessum viðskiptahalla. Það eru ósköp einfaldlega afleiðingar af óvarfærnum og óskynsamlegum framkvæmdum sem fjármagnaðar voru á fyrri tíð með erlendu lánsfjármagni og oft og tíðum framkvæmdir sem lítt eða ekki hafa skilað arði. Af þessum sökum er það hins vegar ekki sanngjörn gagnrýni þegar sagt er: Núv. ríkisstjórn á að gera allt í senn: tryggja bætta afkomu útflutningsgreinanna, verja kaupmátt hinna lægst launuðu og á sama tíma að ná niður á einu ári þessum viðskiptahalla sem efnt hefur verið til á mörgum góðærisárum. Það getur ekki gengið upp. Það krefst lengri tíma. Þessi ríkisstjórn hefur endurreist fjárhag ríkisins. Hún hefur fyrir sitt leyti af hálfu ríkisins lagt fram aðhaldssama lánsfjáráætlun og lánsfjárlög. Í gegnum fjárlög og lánsfjárlög hefur verið dregið úr fjárfestingaráformum hins opinbera um 15% milli ára á sama tíma og fjárfestingaráform annarra eru í miklum mun hærri tölum, 40% og yfir 60% í einstaka tilvikum. Ríkisvaldið hefur þess vegna að þessu leyti gert sitt í að móta aðhaldssama stefnu, en það tekur langan tíma að vinda ofan af viðskiptahallavandanum vegna þess að hann er að mestum hluta bundinn við vaxtagreiðslur af fyrri lántökum.

Herra forseti. Ég hygg að hér með hafi verið fjallað um stærstu þættina í þeim efnahagsaðgerðum sem hér eru reifaðar. Ég tók eftir því að einn hv. stjórnarandstæðingur komst svo að orði við umræður í Sþ. þegar þessar ráðstafanir voru kynntar að núv. ríkisstjórn væri mikil ráðstafanaríkisstjórn. Það er rétt. Hún hefur gripið til margháttaðra ráðstafana og því verki er ekki lokið. M.ö.o.: hún hefur ekki verið aðgerðarlaus. Hún hefur gert skyldu sína að því er það varðar að snúa miklum halla í ríkisbúskapnum, sem allt stefndi í að gæti orðið varanlegur og jafnvel illviðráðanlegur ef hann hefði haldið áfram, í jöfnuð. Það er grundvallaratriði í þessum aðgerðum að það er hvergi hvikað frá því meginmarkmiði að halda áfram að tryggja jöfnuð í ríkisfjármálum.

Þessi ríkisstjórn hefur tekið allt tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs til endurskoðunar að 4/5 hlutum og rennt þannig traustum stoðum undir ríkisbúskapinn á næstu árum, eins og þegar hefur komið í ljós með því að ríkisstjórnin hefur haft burði til að leggja sitt af mörk.um með því að bæta hag útflutningsgreinanna án þess að gengisfellingin stofnaði í tvísýnu eða í hættu því meginmarkmiði ríkisstjórnarinnar að ná niður verðbólgu.

Það er nú einu sinni svo að það er vandlifað í henni veröld, en það verður að vera eitthvert rökrétt samræmi í gagnrýni á aðgerðir ríkisstjórnar sem ekki er hægt að gagnrýna fyrir aðgerðarleysi. Það er t.d. ekki hægt að segja í sama orðinu: Gengislækkun er of mikil. Það er ekki hægt að segja t.d.: Þetta táknar hrun fastgengisstefnunnar, því það er ekki rétt. Það er ekki hægt að gagnrýna ríkisstjórnina með því að segja: Gengislækkun er of lítil, eða að kvarta yfir því að afkoma útflutningsgreinanna hafi ekki verið bætt nógsamlega eða kvarta yfir því að það hafi dregið úr framkvæmdum og fjárfestingum af hálfu hins opinbera en samt að harma skuldasöfnun og viðskiptahalla.

Hér er gripið til ráðstafana þar sem reynt er að halda gengisfellingunni í algeru lágmarki án þess að stofna í hættu meginmarkmiðinu um hjöðnun verðbólgu. Það var gert sem nauðsynlegt var að gera til að bæta hag útflutningsgreinanna, en það sem skiptir sköpum um hvort sá bati verður varanlegur er spurningin um hjöðnun verðbólgu. Það er hér með dregið úr útgjöldum ríkissjóðs og dregið úr lánsfjárráðstöfun ríkissjóðs til að skapa fordæmi fyrir aðra aðila í þjóðfélaginu til að gera slíkt hið sama. Það er ekki hægt að gagnrýna það á sama tíma og menn gagnrýna að þensluástandið sé of mikið og fjárfestingaráformin of óábyrg. Hér hefur verið þræddur hinn gullni meðalvegur. Menn hafa reynt að gera það sem gera þurfti til að bæta hag útflutningsgreinanna, verja kaupmátt lægstu launa falli án þess að stofna þýðingarmestu markmiðunum í hættu. Og það er kjarni málsins.

Þessarar ríkisstjórnar bíða mörg önnur stór mál að leysa, umbótaverkefni, en það hefði verið mjög gáleysislegt ef menn hefðu á þessari stundu látið undan ýtrustu kröfum um að efna hér til gengisfellingarkollsteypu og nýrrar óðaverðbólgukollsteypu sem af hefði hlotist. Það hefði ekki verið skynsamleg leið.