02.11.1987
Efri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

60. mál, iðnaðarlög

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Að gefnu tilefni tek ég það fram að hæstv. iðnrh. má ekki taka þetta persónulega til sín. Tortryggni mín beinist ekki að honum persónulega. Hér er fyrst og fremst um að ræða valdaframsal Alþingis til ráðherraembættis og þó að þessi hæstv. ráðherra kynni að vilja íslenskri þjóð allt hið besta og vera bæði víðsýnn og framsýnn er ekki þar með sagt að þeir sem í fótspor hans kynnu að feta þegar upp styttir, eins og hv. 7. þm. Reykv. hafði á orði, verði sama sinnis. Það er vegna slíks valdaframsals sem grundvallarreglu fyrst og fremst sem ég hreyfði málinu.

Hins vegar þætti mér gaman að spyrja ráðherrann: Hvers vegna í raun var þetta ákvæði fellt úr lögum? Hverjar voru ástæðurnar fyrir því að ákvæðið, sem nú er verið að taka upp, var fellt úr lögum?

Í öðru lagi væri fróðlegt að vita hvaða afstöðu hæstv. sjútvrh. hefur til þessa grundvallarmáls, þ.e. rýmkun heimilda fyrir erlenda aðila til þess að öðlast ítök í íslensku atvinnulífi og jafnvel yfirráð yfir íslenskum auðlindum og þá er ég ekki að tala um ákveðna fyrirgreiðslu við vænleg fyrirtæki því að vitanlega verðum við að styðja við bakið á nýsköpun í okkar atvinnulífi, gera götu þeirra sem greiðasta. Þegar hins vegar slík fyrirgreiðsla fer saman við opnun sem gæti orðið hættuleg atvinnulífinu í heild sinni verðum við fyrst og fremst að sýna varfærni. Ég vildi gjarnan fá að heyra afstöðu hæstv. sjútvrh. í þessum efnum, sérstaklega þar sem ég minntist bæði á fiskveiðilögsögu og ferskfiskútflutning.