03.03.1988
Neðri deild: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5467 í B-deild Alþingistíðinda. (3655)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég held að enginn áfellist þessa ríkisstjórn fyrir að grípa til ráðstafana í efnahagsmálum eða efist um að þörf hafi verið á því, en þegar ráðstafanirnar ganga fyrst og fremst út á að kippa til baka fyrri ráðstöfunum hvarflar að manni að ríkisstjórninni hefði verið hollara að flýta sér hægar og hefði ekki sakað að leggja einstöku sinnum eyrun við þeim athugasemdum sem þm. stjórnarandstöðu gerðu við fyrri ráðstafanir ríkisstjórnarinnar, svo sem eins og um endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts í sjávarútvegi. Þetta virtist svo sem ágæt ráðstöfun í vor og sumar, en fljótlega sáust teikn á himni. Staða sjávarútvegsins fór hríðversnandi svo að að lokum varð ekki á móti staðið og nú á að endurgreiða söluskattinn að fullu.

Sá dráttur sem varð á því að ríkisstjórnin kyngdi stolti sínu og horfðist í augu við staðreyndir varð ekki til að bæta ástandið. En betra er seint en aldrei.

Sama máli gegnir um niðurfellingu launaskatts í sjávarútvegi og samkeppnisgreinum iðnaðarins. Það var margbent á nauðsyn þessarar niðurfellingar í fjárlagaumræðunum fyrir jólin og sama gildir um hækkun tekjuskatts á fyrirtæki og fluttar tillögur þar að lútandi. Þá þóttu þessar tillögur svartagallsraus og hin mesta firra. Hæstv. fjmrh. var mikið niðri fyrir þegar hann þrumaði yfir þingheimi um óábyrga þm. sem ekki áttuðu sig á hinum réttu línum. Nú er af sömu sannfæringu talað um nauðsyn þess að skipta um línu. Það ber svo sem ekki að lasta það þegar menn snúa frá villu síns vegar og ná áttum, en leiðir þó hugann að því hvort ekki væri eðlilegra og affarasælla fyrir alla, þjóðina jafnt sem þm., að samskipti og skoðanaskipti stjórnar og stjórnarandstöðu væru með öðru sniði. Hvers vegna þarf aðskilnaðurinn að vera svona skýr? Því hlusta menn ekki betur hver á annan í stað þess að standa ævinlega gráir fyrir járnum og sjá ekki sannleiksvott eða skynsemisglætu í því sem andstæðingurinn segir?

Bara þetta orð, andstæðingur, segir kannski sína sögu. Það er ekki háttur manna í daglegum samskiptum að líta á viðmælendur sem andstæðinga og reynist oft notadrjúgt að hlusta á viðhorf annarra af fullri sanngirni og vega síðan og meta hvort eitthvað sem sagt var væri nú ekki þess virði að íhuga betur. En því miður virðist það ekki gilda í stjórnmálum. Þar skulu básarnir markaðir svo kyrfilega að hlaðnir eru himinháir veggir sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. Það er kannski ekki að undra að gamlar stjórnmálakempur skilji ekkert í því að hv. kjósendur finni leið út úr þessum básum því ekki gera þeir það sjálfir.

Fastgengisstefna ríkisstjórnarinnar hefur nú siglt í strand þrátt yfir miklar heitstrengingar. Fastgengisstefna skyldi það vera, einn helsti hornsteinn ríkisstjórnarinnar. Það gildir líkt og um söluskattinn uppsafnaða og launaskattinn. Sjálfsagt varð gengisfellingin ekki umflúin og reyndar eru strax uppi raddir, jafnvel innan stjórnarliðsins, sem segja að 6% nægi ekki og muni verða að grípa til frekari ráðstafana fljótlega. En ríkisstjórnin hefur að vísu tekið upp aftur fastgengisstefnu og stendur sú þá væntanlega þar til gengið verður fellt næst.

Hitt er öllu bágara að ríkisstjórnin hefur strax í hótunum við launafólk. Allar þessar ráðstafanir eru marklausar ef þið haldið ykkur ekki í skefjum, segir hún. Enn er þetta gripið á lofti. Allt sem aflaga fer er launþegum að kenna, fólki sem margt býr við smánarkjör í vellríku þjóðfélagi.

Mörg verkalýðsfélög eru nú að fella þá samninga sem sagðir eru skilyrði þess að efnahagsráðstafanirnar skili árangri. Fólk er unnvörpum að átta sig á því að það verði að taka ráðin af stjórnmálamönnum og verkalýðsforustu. Það ætlar ekki lengur að sitja undir því að vera gert ábyrgt fyrir ólestri og óstjórn. Handahófskenndar tilraunir til að stjórna efnahagslífi eru ekki því að kenna. Launþegar tóku þátt í þjóðarsáttinni og láglaunafólkið var eina fólkið sem herti sultarólina og axlaði ábyrgð, lét meðaltalshallelújasönginn yfir sig ganga. En mörgum finnst nú nóg komið. Góðærið kom og nú er það liðið hjá. Margir nutu góðs af, en svo sannarlega ekki láglaunafólkið. Bruðl og óhóf varð þess valdandi að allt þjóðfélagið var rekið með bullandi tapi, viðskiptahalla, halla á fjárlögum svo minna en ekkert var eftir. Og nú er nánast hægt að segja um góðærið að það hafi riðið yfir eins og einhvers konar plága.

Þegar verið er að þvinga verkafólk til að samþykkja kauplækkun, því að þessir samningar eru það í raun, er haft í hótunum við það. Kaupmátturinn rýrnaði frá síðasta ári, enn dynja yfir stórfelldar hækkanir ofan á matarskattinn illræmda, þjónusta hækkar, búvörur og nú gengisfelling sem auðvitað verður til hækkana á verðlagi og manni býður í grun að ýmislegt eigi enn eftir að koma í ljós sem muni rýra kjör verka- og launafólks enn frekar. Og dúsan sem á svo að stinga upp í fólk til að hótanirnar og þvinganirnar renni ljúflega niður er hvorki meira né minna en að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir setningu laga um starfsmenntun verkafólks og leggur fram einar 35 millj. í því skyni. Er þetta það sem átt var við í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem farið er fögrum orðum um að bæta kjör hinna tekjulægstu ásamt öðrum fögrum orðum um jafnrétti með sérstakri áherslu á launajafnrétti karla og kvenna, styttri og sveigjanlegri vinnutíma, fjölskyldan og velferð hennar í fyrirrúmi o.s.frv. o.s.frv.? Er nú búið að bræða þetta allt niður í einhvers konar námskeiðahald? Menntun er auðvitað af hinu góða, en svona óljósar yfirlýsingar um starfsmenntun koma ekki í stað bættra kjara. Kjararýrnun minnkar ekki við námskeið. Auk þess hafa nú konur bitra reynslu af því að menntun skilar ekki alltaf betri launum, a.m.k. ekki þegar konur eiga í hlut.

En snúum okkur að fleiri þáttum efnahagsaðgerðanna. Vaxtalækkun er auðvitað af hinu góða, minnkar fjármagnskostnað og gerir bæði fyrirtækjum og einstaklingum lífið léttara. En þegar jafnhliða er dregið stórlega úr erlendum lántökuheimildum er hætt við að eftirspurn eftir lánsfé innan lands verði meiri en framboð og slíkt gæti auðvitað skapað mikla spennu á innlenda lánamarkaðnum og hætt við að vextir muni þá spennast upp aftur. Við bætist hækkun lánskjaravísitölu vegna áhrifa gengisfellingar og munu öll lán hækka sem tengjast þeirri vísitölu og það þýðir aukna greiðslubyrði.

Það kom fram í máli þeirra manna sem fjh.- og viðskn. Ed. kallaði á sinn fund að ærið er misjafnt hljóð í mönnum út af þessum ráðstöfunum. Már Elísson segir að skerðing lánsfjárheimilda Fiskveiðasjóðs kæmi fyrst og fremst niður á fiskvinnslunni. Er það ekki vinnslan sem stendur alla jafnan verst af sjávarútvegsgreinunum? Heitir þetta ekki að taka með annarri hendi það sem þú gefur með hinni? Landsvirkjun, þetta ríki í ríkinu, virtist ekki svo ýkja áhyggjufull. Meira til að segja eitthvað eða sýna lítillega tennurnar er sagt loðnum orðum að niðurskurður lánsfjárheimilda Landsvirkjunar gæti valdið hækkun raforkuverðs. En tónninn er þannig að það hvarflar að manni hvort ekki hefði mátt skerða meira hjá Landsvirkjun. En líklega hefði þá verið glefsað. Þeir hafa kjaftinn til þess.

Það sem næst ber fyrir augu er svo niðurskurður á fjárveitingum og þá eru það sjúklingar sem verða fyrir hnífnum, kannski ekki þeim rétta. Þeir gera það ekki endasleppt við K-álmuna. Ekki er fyrr búið að herja út fjármagn til hennar, sem einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar virðist hafa gert af talsverðu harðfylgi þó hann leggi nú orðalaust blessun sína yfir niðurskurðinn, en því er kippt til baka. E.t.v. ræður þarna framsýni. Sífellt vaxandi skortur á hjúkrunarfræðingum og öðru starfsfólki í heilbrigðisstéttum hefur valdið miklum vanda á sjúkrahúsum og ef ekkert verður að gert í launamálum þessara stóru kvennaláglaunastétta mun þessi vandi vaxa en ekki minnka. Því kann það að vera óraunsæi að vilja að þjóðþrifamálum eins og K-álmunni verði flýtt.

En ekki þykir nóg að gert. 30 millj. kr. niðurskurður vegna lyfja og sérfræðiþjónustu er einnig boðaður. Hver á að borga þann mismun? Eru það sjúklingarnir sjálfir? Önnur lausn er a.m.k. ekki nefnd. Illt er að vita. Það er sem sagt 50 millj. kr. niðurskurður sem beint er að sjúku fólki.

Niðurskurður til vegamála er verulegur og það hefur ekki komið fram enn þá hvar á að skera niður svo lítið er hægt að segja um þessi mál á þessu stigi, en varla verður fögnuður mikill á landsbyggðinni.

Sama gildir um Byggingarsjóð ríkisins. Í Húsnæðisstofnun hefur skapast mikið öngþveiti, ekki síst vegna galopinnar húsnæðislöggjafar þar sem öllum var heimilt að fá lán og varð til þess að allir sjóðir tæmdust. Þó leiðréttingar hafi verið gerðar á löggjöfinni eru skerðingarákvæðin afskaplega lin og útiloka fáa þannig að röðin hefur lítið styst. Lánsloforð þarf að uppfylla, margir hafa beðið lengi og úrræði fá, engir aðrir kostir fyrir hendi en að byggja eða kaupa. En enginn venjulegur launamaður getur komið sér upp húsnæði án hjálpar hins opinbera. Þannig er aftur vegið að þeim sem síst skyldi, þeim sem ekki hafa fjárráð til að koma sér þaki yfir höfuðið hjálparlaust. Fyrst eru í nafni jafnréttis og réttlætis skerðingarákvæðin höfð svo lin að nánast allir rúmast í náðarfaðminum og svo er faðmlagið hert og hverjir kremjast? Þeir verst settu. Framkvæmdalánin munu vera eini lánaflokkurinn sem er aflögufær og verður því líklega verst úti og þá er það á landsbyggðinni sem höggin falla þyngst.

En ekki er nóg að gert. Jöfnunarsjóðurinn er stórlega skertur og eru þá fallin um sjálf sig djarfmannleg orð hæstv. fjmrh. frá því fyrir jól. Þá hét það að Jöfnunarsjóður hefði verið styrktur að mun þó ýmsir aðrir vildu þó fremur orða það svo að hann hefði verið skertur minna en oft áður. En svona eru alltaf tvær hliðar á hverju máli.

Reyndar sagði merkur maður að það væri alltaf sú þriðja sem skipti mestu máli, hvað svo sem hann átti við með því. En í svona skrýtinni fullyrðingu skyldu þó aldrei liggja einhvers konar sannindi um að svarthvítt litarskyn sé ekki fullnægjandi og litrófið milli þessara tveggja öfga í litrófinu er óendanlegt og vel þess virði að skoða. En hér er nú ekki rúm fyrir heimspekilegar vangaveltur fremur en fyrri daginn. Hér gilda hin hörðu rök. Og engin rök hníga gegn því að skerðing Jöfnunarsjóðs er veruleg. Það hlýtur að vakna sú spurning hvort ætlunin sé að slá fátækari sveitarfélög rothöggi. Enn er uppgjöri ríkis við sveitarfélög frestað og skert fé til framkvæmda. Það verður ábyggilega óþarfi að taka upp viðræður við mörg sveitarfélög um að draga úr framkvæmdum. Það er sjálfgert. Ætli ríkisstjórnin geti ekki haldið sig við höfuðborgarsvæðið í þeim viðræðum? En þar er líka mikið í húfi. Framkvæmdaglaður borgarstjóri verður ábyggilega erfiður viðureignar og ólíklegt að hann taki þátt í „þensluspillandi“ aðgerðum og hætti við að reisa sér verðugan minnisvarða ásamt ýmsum smærri verkefnum. En sem betur fer er nú ekki þenslan þar í dagvistarverkefnum og öðrum viðlíka óþarfa svo að ekki þarf að semja við hann um það.

Það hefur lengi verið lýðum ljóst að hæstv. fjmrh. er lítill vinur bænda og búandliðs og finnst mikið óhagræði að því að fólk skuli búa svona dreift og víst má ýmislegt þar til sanns vegar færa. En er þetta ekki fullharkalegt? Væri ekkert hægt að skera niður sem ekki flokkast undir félags-, byggða- eða velferðarmál? Því var ekki farið í frekari tekjuöflunarleiðir, svo sem fleiri skattþrep eða stóreignaskatt? Eru feitu kýrnar svo heilagar að þær megi alls ekki snerta? Þurfa þær mögru að taka við öllum höggunum? Hvar er réttlætið nú, eitt helsta einkunnarorð hæstv. fjmrh.? En líklega á maður ekki að vera með orðhengilshátt þegar hann er annars vegar. Honum er margt betur gefið en að vera orðvar og finnst gaman í hita leiksins að finna vel hljómandi orð og orðasambönd sem hann svo stundum ofnotar, eins og „réttlæti“ og „hver á Ísland?"

Mikið var deilt hér bæði fyrir og eftir jólin um verkskiptingarfrv. á Alþingi og þótti mörgum sem ýmislegt væri vanhugsað í því frv. jafnframt því sem það væri illa kynnt, svo illa að margir sveitarstjórnarmenn höfðu aldrei heyrt á það minnst. Nú er bara að vona að þeim hafi ekki gefist tími til að kynna sér það of vel því að nú er búið að fresta því og gert til að styrkja hag ríkissjóðs um 260 millj. kr. svo að ekki þarf að velta vöngum yfir því hver missi þá peninga.

Hæstv. fjmrh. játaðist áðan fúslega undir að vera ráðstöfunarglaður og lofaði frekari ráðstöfunum. Þó það nú væri. Auðvitað á ríkisstjórnin að gera ráðstafanir. En það er bara þessi einkennilega ráðstöfun að endurráðstafa sífellt eigin fyrri ráðstöfunum sem vekur vantraust fólks á nýjum ráðstöfunum. Bæði er það að með þessu háttalagi virðist ríkisstjórnin bíta í eigið skott og þegar það er gert fara menn í hring en ekki áfram og hins vegar bitna flestar ráðstafanirnar á þeim verst settu æ ofan í æ svo að nú þykir mörgum nóg um og eru þessa dagana að sýna það í verki. Það er því ekki ráðlegt nú að hafa í hótunum við launafólk. Nær væri að hafa uppi samráð og skilning.

A.m.k. ætti að segja umbúðalaust hvað verður gert ef fólk verður ekki lamið til hlýðni. Verður þá ábyrgðinni af glaumnum og gleði góðærisins velt einhliða yfir á launafólk? Í plaggi Þjóðhagsstofnunar frá 29. febr. 1988 er ekki dregin upp glæsileg mynd. Þar er því spáð að framfærslukostnaður hækki um 15–16% á árinu, jafnframt gert ráð fyrir að launaskrið verði óverulegt, hækkun byggingarvísitölu verði um 12% og hækkun lánskjaravísitölu um 14%. Kaupmáttur ráðstöfunartekna rýrnar um 31/2% frá fyrra ári og spáð er miklum viðskiptahalla eða a.m.k. 10 millj. Líklegt er að engin þessara talna standist heldur hækki og enginn trúir því nú enn að verðbólgan hjaðni.

Að öllu þessu samanlögðu má gera ráð fyrir að kjör fólksins í landinu versni og vissulega má rýra kjör margra í þessu landi. En hættan er sú að það séu ekki hálaunafólk eða sjálfstæðir atvinnurekendur, verslun eða vel stæð þjónustufyrirtæki sem verið er að hóta núna. Það eru þeir sömu og áður, fólk með meðaltekjur og þaðan af lægri.

Þó nauðsynlegt hafi verið nú að rétta af hag helstu atvinnuvega landsins má vara sig á því að rétta allan halla með því móti að meira halli á heimili landsins. Jafnvægi þar er ekki síður nauðsynlegt fyrir sálarheill og velferð þjóðarinnar en jafnvægi í þjóðarbúskapnum.