02.11.1987
Efri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

60. mál, iðnaðarlög

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef ekki fylgst nægilega vel með þessari umræðu en sem svar við þessari spurningu styð ég frv. sem hefur verið lagt fram og tel það nauðsynlegt og skynsamlegt skref miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi. Það eru miklar tækniframfarir í heiminum. Það liggur alveg fyrir að við getum oft ekki notið þessarar tækni nema í samstarfi við erlend fyrirtæki og það hlýtur að vera okkur kappsmál að slík fyrirtæki séu starfrækt hér á landi en ekki annars staðar.

Þetta mál kemur fiskveiðum og starfsemi í sjávarútvegi í sjálfu sér ekkert við og ég vitna til þess sem ég hef áður sagt í þeim efnum. Það á sér nú stað endurskoðun á öllum ákvæðum sem varða þátttöku erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri og ég tel nauðsynlegt að sú endurskoðun eigi sér stað. Ég vitna aðeins til þess sem ég býst við að allir séu sammála um hér á Alþingi að það má ekki standa þannig að málum að erlendir aðilar nái yfirráðum yfir okkar auðlindum. Ég tel að það skref sem hér er stigið sé mjög varkárt og með því sé verið að tryggja að atvinnustarfsemi geti farið fram hér á landi sem mundi ella ekki verða, að með þessu sé tryggt í mörgum tilvikum að ýmis starfsemi eigi sér stað eins og skýrt kom fram hjá hæstv. iðnrh.