03.03.1988
Neðri deild: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5502 í B-deild Alþingistíðinda. (3664)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Það var hérna í önnum þingsins fyrir jólin þegar hv. 11. þm. Reykn. ávann sér það til frægðar að komast í heimsmetabók Guinness fyrir að hafa þagað lengst í ræðustól að Eiríkur frá Dagverðargerði, sem hv. þm. er vel kunnur, gat ekki orða bundist en sagði:

Heimsmet setti hefðarsjóli,

Hreggviður í þularstóli.

Borgararnir Baldvin hæða.

Betri er þögn en óþörf ræða.

Þetta gæti nú verið mottóið í ræðu minni hér í kvöld út af fyrir sig að eftir þessi ræðuhöld, þá hina seinustu sem við hlýddum á og fleiri, sé óþarfi að vera að lengja þessar orðræður mikið. Þó er ástæða til að staldra við nokkur atriði.

Í fyrsta lagi er ástæða til að þakka stjórnarandstæðingum fyrir stuðning, beinan eða óbeinan, við sumar af þessum tillögum. Það kemur gjarnan fram í því formi að þeir segja: Við lögðum þetta til sjálfir og betra er að þetta skuli vera fram komið nú en ekki. Það er helst að menn staldri við gengislækkun og segi: Hún var of lítil. Það þurfti að fella gengið mun meira. Þetta kom einnig fram í ræðu hv. 2. þm. Vestf. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Út af fyrir sig virðast þeir vera sammála um það, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og Albert Guðmundsson.

Þetta er skoðun út af fyrir sig (ÓÞÞ: Skrá það rétt.) og þá þurfa menn að segja hins vegar fullum fetum hvað þeir meina. Það er ekki hægt að segja: Gengislækkunin var of lítil en harma síðan afleiðingar gengisfellinga eins og fram kom í ræðu seinasta ræðumanns. Mikil gengisfelling hefur nefnilega ótvíræð verðbólguáhrif. Hún hækkar verð á innfluttum vörum o.s.frv.

Það hefur komið fram í þessum umræðum að mikil gengisfelling ein út af fyrir sig hefði orðið skammgóður vermir útflutningsgreinunum vegna þess að allur þeirra tilkostnaður, hráefni, laun og erlend aðföng, hefði hækkað mjög skjótt nema því aðeins að þessu yrði fylgt eftir eins og hæstv. fyrrv. ríkisstjórn gerði í upphafi ferils síns með því að svipta fólk samningsrétti, með því að setja lög sem koma í veg fyrir að verðhækkunarafleiðingar gengislækkunar komi fram í hærri launum. Þeir sem mæla með hærri gengisfellingu sem aðgerð til að bæta hag útflutningsgreina eru þess vegna að segja í reynd: Síðan átti að svipta fólk samningsrétti og setja lög. Og þá er ekki heldur hægt að koma hér upp í ræðustól og segja: Það er verið að fella kjarasamninga, og harma það. Eða eru menn að segja að það hefði átt að stíga þetta skref og svipta fólk samningsrétti?

Það er ljóst af þeim atkvæðagreiðslum sem fram hafa farið hingað til að stærri félögin á höfuðborgarsvæðinu hafa samþykkt. (Gripið fram í: Nei.) Jú, flest hafa þau gert það, Dagsbrún, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur. (Gripið fram í: Smáfélög.) Nei, það eru ekki smáfélög. Það eru stærstu félögin á svæðinu. Um það er ekkert að segja annað en að samningsrétturinn er virtur og það sem gerist í kjölfar þessa er að það verður sest aftur að samningaborði og það tekur sinn tíma.

Út frá umræðum um gengið þegar menn segja: Gengið var fallið. Sumir hafa sagt hér: Það var fallið í haust. Og síðan bæta menn við: Gengisfellingin er allt of lítil. Fáir hafa spurt: Af hverju? Hvað er það sem rennir stoðum undir þessa gengisfellingarþörf? Hvenær halda menn að það hafi verið grafið undan stöðugleika í gengi? Gerðist það snögglega? Haldi menn því fram að gengið sé ranglega skráð er það vegna þess að kostnaðarhækkanir innan lands hafa orðið miklu meiri en í samkeppnislöndum. Svo einfalt er það. Hvenær gerðist það? Hverjir voru það sem söfnuðu þá efnivið í gengisfellingu?

Annað dæmi: Menn harma viðskiptahallann og segja: Hann er allt of mikill. Það hefur komið fram rækilega í þessum umræðum hvernig hann er saman settur. Hann er að stærstum hluta, eins og einkum kom fram í ræðu hv. seinasta ræðumanns, vaxtakostnaður af áður uppsöfnuðum erlendum skuldum. Hverjir stóðu fyrir þeim? Verða þær greiddar niður? Hvers vegna voru þær ekki greiddar niður í góðærinu 1984–1987? Dettur einhverjum manni í hug að 61/2 milljarður í vaxtagreiðslum af áður teknum erlendum lánum verði greiddur niður á einu ári? (AG: 61/2 milljarður?) 61/2 milljarður er neikvæður vaxtajöfnuður. (Gripið fram í.) Nei, nei.

Sama er að segja um annan meginþátt viðskiptahallans, sem er sérstakur innflutningur, tengist aðallega nýsmíði og meiri háttar endurnýjun á skipum. Það er ekki hægt að harma í öðru orðinu aðhaldssemi í lánsfjárlögum og ekki geta menn neitað því að ríkið hefur gengið þar á undan með góðu fordæmi. Það hefur verið dregið stórlega úr erlendum lántökum ríkissjóðs. En því aðeins hefur það einhver áhrif á viðskiptahallann að það verði öðrum að fordæmi. Í því efni skiptir miklu máli að það verði fylgt fast eftir þeirri kröfu að slíkar heimildir til erlendrar lántöku verði því aðeins veittar að í hlut eigi fyrirtæki sem búa við eiginfjárstöðu af því tagi að þau fái undir risið. Niðurstaða þessa máls er ein. Hún er sú: Þeir sem setja fram kröfu og gera það að megingagnrýni á þessar ráðstafanir að það hefði átt að grípa til meiri gengisfellingar eru um leið að segja annað. Þeir eru að segja að því næst hefði átt að fylgja þeirri aðgerð eftir með lagasetningu sem bannaði frjálsa kjarasamninga vegna þess að ella, án slíkrar lagasetningar, hefði slík gengisfelling ekki orðið neinum að gagni.

Að öðru leyti er ástæða til að staldra aðeins við það mál sem varðar verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þar verða menn líka nefnilega að vera sjálfum sér samkvæmir. Það er eitt að segja: Við vorum á móti þessu máli og hörmum það ekki þótt það frestist eða nái ekki fram að ganga. Annað er að segja: Við styðjum þetta mál og hörmum það síðan þegar það nær ekki fram að ganga. Þetta mál er þannig tilkomið að það var gert um það samkomulag að framkvæma þessa verkaskiptingu, þessar nýju reglur um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, í tveimur áföngum. Forsendurnar fyrir breytingunni voru tvær: Að sveitarfélögin fengju greiddan allan þann kostnað sem í þeirra hlut kom við fyrri áfangann og í annan stað að svokölluð skerðing Jöfnunarsjóðs frá fyrri tíð yrði endurgreidd í tveimur áföngum. Helmingurinn við framkvæmd fyrri áfanga, seinni helmingurinn við framkvæmd seinni áfanga á þar næsta ári. Um þetta var samkomulagið.

Hverjir hafa verið stuðningsmenn þessa frv.? Vissulega stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, vissulega sá sem hér stendur sem gerði þetta að forsendum fjárlagafrv. Hverjir hafa beitt sér gegn því? Vissulega stjórnarandstaðan og síðan hefur það komið á daginn að ýmsir úr liði stjórnarsinna hafa snúist gegn því líka og ekki farið dult með. Hver var það sem krafðist þess að þetta mál yrði tekið aftur til nefndar? Hverjir voru það sem hafa farið fram á síðum dagblaða og snúist gegn málinu? Ekki Samband ísl. sveitarfélaga. Ekki þm. Alþfl.

Við lánsfjárlagaafgreiðslu fyrir jól var lögð fram tillaga um að þar yrði settur fyrirvari um að ef þetta mál næði ekki fram að ganga þýddi það að sjálfsögðu að samkomulagið í heild sinni yrði tekið til baka, ríkið tæki þá á sig kostnaðinn af þessum þáttum, sem sveitarfélögin ella áttu að bera, og um leið líka samkomulagið sem gert var um að eyða svokallaðri skerðingu í tveimur áföngum vegna þess að málið er þá allt til endurskoðunar. Ég segi fyrir mína parta: Ég er ekki fallinn frá áformum um að ná þessu máli fram, en það hefur strandað í þinginu. Það dagaði uppi í nefnd. Það er búið að falla frá svo mörgum þáttum málsins að það var nánast ekkert eftir. Þegar málið var rætt í ríkisstjórn var eftir því leitað: Treysta menn sér til þess að tryggja þessu máli framgang án þess að það verði svo úr lagi fært að ekkert verði eftir? Og svarið var nei. Það er ástæðan fyrir því að þessu máli er slegið á frest.

Þegar þetta mál var gagnrýnt í umræðum fyrir jól vildu menn einskis meta að það væru verulegir fjármunir lagðir fram af hálfu ríkisins til að greiða götu þessa máls. Nú þegar lagður hefur verið steinn í götu málsins hér í þingi og það nær ekki fram að ganga og þar af leiðandi gengur til baka allt í einu rjúka menn upp til handa og fóta og segja: Það er verið að fara illa með sveitarfélögin vegna þess að það eru svo miklir peningar teknir af þeim núna. Það er ekki bæði hægt að eta kökuna sína og geyma hana. Það er ekki hægt að segja: Málið var illa undirbúið. Við viljum breyta því. Við viljum taka til baka tónlistarskóla. Við viljum falla frá ákvæðinu um Íþróttasjóð. Við viljum að ríkið greiði upp allar skuldbindingar fjögur ár fram í tímann með vöxtum og verðbótum að því er varðar Félagsheimilasjóð. Við viljum falla frá tilfærslunni að því er varðar minjasöfn og aðra slíka þætti, skilja ekkert eftir sem máli skiptir.

Ég skil ákaflega vel þegar forsvarsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga harma þessa niðurstöðu málsins. Það geri ég líka. En það er hins vegar lítt skiljanlegt þegar þeir sem hafa beitt sér gegn málinu rjúka upp til handa og fóta og þykjast nú harma að sveitarfélögin verði fyrir skaða. Það vissu allir menn fyrir fram ef málið næði ekki fram að ganga.

Eftir sem áður stendur að það er rétt að taka til endurskoðunar lög og reglur um úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna þess að það er sjálfstætt mál og það eru veigamikil rök fyrir því að sá sjóður verði endurskoðaður af því að hann á að taka meira tillit í úthlutunarreglum sínum til mismunandi fjárhags og framkvæmdagetu sveitarfélaga.

Að því er varðar einstök atriði önnur sem hér hefur verið vikið að, þá er það fyrst að segja t.d. um húsnæðismálin að það er ástæða til að leiðrétta það. Þessi lækkun á framlögum til húsnæðismála mun að sjálfsögðu ekki bitna á kaupleiguíbúðum af þeirri einföldu ástæðu að þarna er um að ræða 75 millj. úr Byggingarsjóði ríkisins, 25 millj. úr Byggingarsjóði verkamanna. Til kaupleiguíbúða eru ætlaðar á fjárlögum 273 millj. úr Byggingarsjóði verkamanna.

Annað, að því er varðar K-byggingu, frestun framkvæmda þar, 20 millj. Það eru framlög á fjárlögum upp á 23 milljarða til heilbrigðismála. Til K-byggingar er varið 171,2 millj. kr. Það hafa farið fram þegar útboð í nokkra áfanga upp á annars vegar 80 millj. og hins vegar 30 millj. Að öðru leyti hefur verið sýnt fram á það af hæstv. heilbrmrh. að það er unnt að fresta ákveðnum þáttum sem voru undirbúnir til útboðs en ekki samningsbundnir við þetta verkefni.

Að því er varðar lyfjakostnað er þar m.a. stuðst við tillögur nefndar sem hefur haft það verkefni að gera tillögur um lækkun lyfjakostnaðar. Þessir tveir liðir, lyfjakostnaður og sérfræðiþjónusta, hafa hækkað langt umfram verðlag, verið áberandi í útgjöldum heilbrigðisþjónustunnar á undanförnum árum og hafa hækkað langt umfram aðra útgjaldaliði og er þess vegna eðlilegt að þeir séu teknir til sérstakrar athugunar. Þar ber að skoða t.d. ávísanavenjur lækna og aðra þætti sem tengjast lyfjaneyslu sem er allt of mikil. Ég nefni sem dæmi af handahófi að ef menn skoða fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar kemur á daginn að lyfjakostnaður pr. íbúa á Akureyri er upp á 6300 kr. og þótti tilefni til sérstakrar skoðunar þar í bæ og sú skoðun leiddi til umtalsverðrar lækkunar. Hér er ekki um að ræða neinn sjúklingaskatt. Hér er um að ræða eðlilega aðhaldssemi að útgjöldum sem hafa allt of mikið lotið sjálfvirkni eða nánast sjálfdæmi sérfræðingahópa.

Að því er varðar áhyggjur manna af því hvar lækkun útgjalda vegna vegagerðar muni bera niður hefur því þegar verið yfirlýst af borgarstjóranum í Reykjavík í fjölmiðlum að hann muni leggja til innan borgarstjórnar að draga saman framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar um 230 millj., m.a. vegna þeirrar lækkunar á framlögum úr Jöfnunarsjóði til Reykjavíkurborgar sem hefði samsvarað rúmlega 100 millj. og þar á meðal í áformum þeirra um vegaframkvæmdir. Það er þess vegna fátt sem bendir til þess, þótt vegáætlun hafi ekki verið lögð fram, að þessi samdráttur muni bitna á landsbyggðinni.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Kjarni málsins er sá að gagnrýnin á þessar aðgerðir er mótsagnakennd af því að hún beinist fyrst og fremst að því að segja tvennt sem ekki er samrýmanlegt, að krefjast meiri gengisfellingar en kvarta um leið undan því að menn hafi ekki náð nægilega föstum tökum á verðbólgu, að verðhækkanir muni leiða af gengislækkuninni og viðskiptahallinn sé óviðunandi mikill. Það er a.m.k. rétt. Um það eru allir menn sammála. En leiðin til þess að draga úr viðskiptahallanum er ekki að efna til verðbólgukollsteypu. Það er ekkert hægt að gera í því annað en að „sanera“ ríkisfjármálin, að reyna að hafa ríkisbúskapinn í lagi, að byrja að gegna þeim skyldum sínum að greiða til baka eitthvað af þeirri skuldasúpu sem efnt var til í góðærinu á undanförnum árum. Og það greiða það engir aðrir yfirleitt en þegnar þessa lands sem greiða skatta.