04.03.1988
Neðri deild: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5515 í B-deild Alþingistíðinda. (3671)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum 1988. Nefndin kom saman til fundar í morgun. Hún klofnaði í afstöðu sinni. Meiri hl. sendi frá sér eftirfarandi nál., með leyfi forseta:

„Nefndin ræddi frv. á fundi í morgun. Eftirfarandi fulltrúar komu til fundar við nefndina: Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, Sigurður E. Guðmundsson og Hilmar Þórisson frá Húsnæðisstofnun ríkisins, Kristján Guðmundsson, bæjarstjóri í Kópavogi, Guðmundur Árni Stefánsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, og Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, bæjarritari í Hafnarfirði, Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, og Ari Skúlason, hagfræðingur ASÍ, Kristján Thorlacius, formaður BSRB, og Björn Arnórsson, hagfræðingur BSRB, Þórir Daníelsson, framkvæmdastjóri VMSÍ, Tómas Árnason seðlabankastjóri og Bjarni Bragi Jónsson, aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, Snæbjörn Jónasson vegamálastjóri og Hallgrímur Snorrason, formaður yfirstjórnar mannvirkjagerðar á Landspítalalóðinni.

Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Meiri hl. mælir með samþykkt frv. Minni hl. skilar séráliti.

Guðmundur G. Þórarinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins, en Níels Árni Lund sat fund nefndarinnar í hans stað. Einnig sat Ingi Björn Albertsson fund nefndarinnar.“

Undir þetta rita Páll Pétursson, Geir H. Haarde, Einar Kr. Guðfinnsson, Kjartan Jóhannsson og Níels Árni Lund.

Ég vil, herra forseti, til viðbótar þessu láta tvennt koma hér fram. Hið fyrra varðar smávillu sem er í hinum almennu athugasemdum við frv. þetta. Í almennu athugasemdunum við frv. komu fram mistök hvað varðar skiptingu á framlagi til Útflutningsráðs milli fiskvinnslu og útgerðar. Þetta er neðst á bls. 5 og efst á bls. 6 í frv. Hið rétta er að framlagi til Útflutningsráðs skal skipt hlutfallslega milli fiskvinnslu og útgerðar og verður hlutur fiskvinnslu þá 673 millj. kr. af uppsöfnuðum söluskatti, en hlutur útgerðar 234 millj. kr.

Í öðru lagi vildi ég láta koma fram, herra forseti, að í nefndinni var sérstaklega rætt um þau áform, sem fram koma í athugasemdum við frv., að lækka framlag til K-byggingar Landspítalans um 20 millj. kr. Í því sambandi vil ég láta koma fram þann vilja meiri hl. nefndarinnar og að ég hygg nefndarinnar allrar að leitað verði allra leiða til að beina þessum sparnaði inn á aðra þætti í heilbrigðiskerfinu þannig að skerðing framkvæmdafjár til þessarar mikilvægu byggingar verði sem minnst og helst engin.

Það mun hafa verið gert ráð fyrir því að starfsemi í K-byggingunni gæti hafist með haustinu, en 20 millj. kr. skerðing framlags í ár gæti frestað því um a.m.k. þrjá mánuði, að því er kom fram í máli formanns yfirstjórnar mannvirkjagerðar á Landspítalalóðinni á fundi nefndarinnar í morgun.

Það er vilji meiri hl. nefndarinnar og eflaust allra nefndarmanna að þannig verði staðið að málum að þessari framkvæmd þurfi sem minnst að seinka og óþægindi af völdum hugsanlegra seinkana verði sem minnst. Rétt er að taka fram að ákvæði um þetta atriði er ekki að finna í lagafrv. sjálfu heldur er aðeins um að ræða skýringar í athugasemdum. Þess vegna þótti rétt að láta þennan hug meiri hl. nefndarmanna koma fram hér í framsögu.