04.03.1988
Neðri deild: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5516 í B-deild Alþingistíðinda. (3672)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð hv. frsm., 17. þm. Reykv., um K-bygginguna. Það var reyndar sérstök ósk stjórnarandstöðunnar í fjh.- og viðskn. að kannaðir yrðu möguleikar á að falla frá áformum um niðurskurð á fjárframlögum til K-byggingarinnar til að forða því að fallið verði frá þeim áformum að hefja þar starfsemi á komandi hausti. Það er starfsemi ríkisspítalanna ákaflega mikilvægt að þau áform raskist ekki og ég vona að hæstv. heilbrmrh. hafi hlustað með athygli á tilmæli frsm. meiri hl. og undir þau er tekið af minni hl.

Nál. minni hl. á þskj. 660, herra forseti, hefst á þessum orðum, með þínu leyfi: „Frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum var vísað til fjh.- og viðskn. árla sl. nætur.“ Það mun hafa verið rétt um eittleytið sem 1. umr. lauk hér um málið og því var vísað til nefndar. „KI. 8.30 hóf nefndin störf. Málið var afgreitt út úr nefndinni kl. 11.40.“ Síðan er verið að taka málið til umræðu upp úr kl. eitt. Það hefur því unnist mjög skammur tími til að athuga efni frv. milli umræðna og skýrir það að nokkru þá afstöðu minni hl. að sitja hjá við afgreiðslu þess.

Fyrir nefndina komu allmargir fulltrúar eins og frsm. meiri hl. rakti, þar á meðal frá Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka, Húsnæðisstofnun og yfirstjórn mannvirkjagerðar á Landspítalalóðinni, en þar sem þeim málum hafa verið gerð sérstaklega skil í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. vísast til þess hér.

Skal nú vikið nokkuð að því sem aðrir, er fyrir nefndina komu, höfðu fram að færa. Nefni ég þá fyrst fulltrúa frá samtökum launafólks, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Verkamannasambandinu. Við fulltrúa þessara samtaka var rætt um stöðuna í kjarasamningum og horfur í þeim efnum og þar kom fram það mat þeirra manna að líklegt sé að mikill meiri hluti þeirra verkalýðsfélaga, sem aðild eiga að kjarasamningi Verkamannasambandsins og atvinnurekenda, muni fella þá samninga. Þegar hefur meiri hluti þeirra félaga, sem afgreitt hafa samningana, gert það á þann veg. Þeir hafa verið felldir í nær 2/3 þeirra félaga þar sem atkvæðagreiðslur hafa farið fram og eðli málsins samkvæmt er líklegra að þeim félögum fjölgi hlutfallslega en fækki sem fella samningana úr því að sú skriða er þegar komin af stað.

Síðan kom einnig fram í þessum viðræðum að samningar bæði Verkamannasambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem þar gilda, eru þannig úr garði gerðir að í þeim eru samanburðarákvæði við samninga sem aðrir kunna að gera og náist þar fram meiri kjarabætur geta í raun og veru svo til allir kjarasamningar í landinu losnað á næstu vikum. Það er því alveg ljóst að sú niðurstaða, sem nú er að verða í verkalýðsfélögunum víða um landið, gæti leitt til þess að los komist á svo til öll kjaramálin og það hald sem menn ætluðu að væri í þessum samningum er ekki fyrir hendi. Ég held að þetta eigi sérstakt erindi hér inn í umræður, herra forseti, þar sem ljóst er að frv., sem við ræðum nú, um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum er sérstaklega rökstutt og grundvallað á niðurstöðu kjarasamninga Verkamannasambandsins og atvinnurekenda og reyndar er það talin forsenda þessara ráðstafana í yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar að þeir kjarasamningar haldi og ekki bara það heldur verði þeir og að fordæmi fyrir aðra sem eru að leita eftir samningum þessa dagana.

Þá kom einnig fram í viðræðum við fulltrúa samtaka launafólks að þeir mótmæltu mjög harðlega þeim hluta þessara ráðstafana sem lýtur að niðurskurði í húsnæðismálum. Forseti Alþýðusambandsins fór aðeins yfir það hvernig vanefndir ríkisvaldsins á sínum hluta samkomulags um ráðstafanir í húsnæðismálum frá árinu 1986 hafa verið. Þar er um að ræða að nú bætast 100 millj. kr. við þann niðurskurð sem fyrir var og var upp á um 500 millj. sem vantaði upp á lágmarksframlag ríkisins inn í húsnæðiskerfið eins og það var talið nauðsynlegt þegar gengið var frá samningum á öndverðu ári 1986 um þau mál. Þessu til viðbótar eru frystar um 500 millj. af því fé sem kemur frá lífeyrissjóðunum í ríkissjóð og verða ekki til ráðstöfunar í húsnæðislánakerfinu á þessu ári. Samanlagt er hér um að ræða á annan milljarð kr. sem ríkisvaldið hefur svikist um að leggja af mörkum að sínu leyti inn í þetta kerfi. Síðan koma talsmenn jafnvel sjálfrar ríkisstjórnarinnar og tala um ófremdarástand í húsnæðismálunum og það vanti fé inn í húsnæðismálin. En hverjum stendur nú næst að bæta úr því, herra forseti, öðrum en hæstv. ríkisstjórn sjálfri sem hefur með ráðstöfunum sínum nú og fyrr samanlagt tekið um 1100 millj. kr. frá húsnæðiskerfinu og minnkað það fé sem þar er til ráðstöfunar sem því nemur? Þessum stórkostlegu vanefndum ríkisvaldsins í húsnæðismálunum er rétt að halda til haga, herra forseti, og það gerðu fulltrúar samtaka launafólks sem áttu, eins og öllum er væntanlega kunnugt, ákveðna aðild að því á sínum tíma að það samkomulag náðist milli lífeyrissjóðanna og ríkisvaldsins um fjármögnun húsnæðislánakerfisins sem það byggir á.

Fyrir nefndina komu einnig bæjarstjórar Hafnarfjarðar og Kópavogs og mótmæltu þeir harðlega skerðingu Jöfnunarsjóðs. Þeir töldu að tekjutap sinna bæjarfélaga yrði um það bil 15 millj. fyrir Hafnarfjörð og 16 millj. fyrir Kópavog og munar um minna hjá bæjarfélögum sem hafa takmarkað fé til framkvæmda. Þeir lýstu einnig, bæjarstjórarnir, sérstökum vonbrigðum sínum með þessa niðurstöðu vegna þess að hún hljóti óhjákvæmilega að hafa mjög slæm áhrif á samskipti ríkis og sveitarfélaga og rýra enn það takmarkaða traust sem sveitarfélögin bera til ríkisvaldsins í landinu, a.m.k. þeirra stjórnmálaflokka sem hafa farið með það sl. ár. Þeir töldu þetta sérstaklega slæmt einnig, bæjarstjórarnir, vegna þess að ekkert samráð var haft við sveitarfélögin í landinu um þessar ráðstafanir. Hér er um einhliða skerðingu ríkisstjórnarinnar að ræða án nokkurs minnsta samráðs við sveitarfélögin um þessa niðurstöðu, bæði að falla frá verkaskiptingarfrv. og grípa þá til þessara hörðu niðurskurðaraðgerða í staðinn.

Vegamálastjóri kom fyrir nefndina og hann upplýsti að niðurskurður til vegamála ætti ekki að þurfa að raska áður umsömdum verkefnum á sviði vegagerðar, en mundi að sjálfsögðu ganga á það fé sem að öðru jöfnu hefði verið til nýframkvæmda í vegamálum og ekki hafði verið skipt. Það kemur Vegagerðinni til góða í þessu sambandi að um nokkra vanáætlun á tekjum Vegagerðarinnar hafði verið að ræða þannig að þar er öllu meira til skiptanna en menn höfðu gert ráð fyrir við afgreiðslu vegáætlunar á síðasta ári og jafnframt við afgreiðslu fjárlaga fyrr í vetur og má því segja að Vegagerðin sleppi að þessu leyti fyrir horn, en það er þó rétt að minna á í þessu sambandi að langur vegur er frá því að staðið sé við áform langtímaáætlunar um vegagerð um framlög til vegamálanna sem hlutfall af þjóðartekjum.

Minni hl. mun sitja hjá við afgreiðslu málsins, herra forseti. Það er ljóst að forsendur þessara ráðstafana, eins og þeim var lýst af hæstv. ríkisstjórn, eru að hrynja, þær forsendur að kjarasamningar Verkamannasambandsins og atvinnurekenda haldi og verði að almennu fordæmi eru að hrynja þessa dagana og það verður væntanlega orðið ljóst um miðjan dag á mánudag, þegar verkalýðsfélögin, sem aðild eiga að samningunum, þurfa að hafa tekið afstöðu til þeirra, að mikill meiri hluti félagsmanna unir ekki þessari niðurstöðu, telur hana óviðunandi og óásættanlega. Það þýðir væntanlega að eigi að takast hér samningar um kaup og kjör á næstunni verða þær niðurstöður að vera nokkuð aðrar en hér var skrifað upp á. Þar með yrðu forsendur efnahagsráðstafananna væntanlega brostnar, svo ekki sé nú talað um það ef slíkir kjarasamningar takast ekki í landinu fyrr en eftir stórkostleg átök eins og allt eins gæti orðið raunin á.

Út af fyrir sig er ýmislegt í þessum ráðstöfunum til bóta eins og bent hefur verið á. Einkum og sér í lagi þó að ríkisstjórnin er nú að taka til baka margar af þeim ráðstöfunum sem anað var út í af lítilli fyrirhyggju vægast sagt fyrir nokkrum mánuðum, svo sem eins og að leggja launaskatt á útflutningsatvinnuvegina og frysta uppsafnaðan söluskatt þeirra aðila.

Hitt er jafnljóst, herra forseti, að ríkisstjórnin hefur misst öll tök á stjórn efnahagsmálanna. Stjórnin er innbyrðis sundurþykk og bæði hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni og einstakir hv. stjórnarþm. eru í beinni andstöðu við ýmislegt í þessum ráðstöfunum. Það eru stórtíðindi í sjálfu sér eða ættu að vera stórtíðindi þegar slíkt ástand er komið upp hjá einni ríkisstjórn að um sérstakar efnahagsráðstafanir, sem eiga að leggja grunn að efnahagsstefnu ríkisstjórnar, er slíkur ágreiningur uppi að bæði stuðningsmenn stjórnarinnar í þingliðinu og jafnvel hæstv. ráðherrar sjálfir eru í beinni andstöðu við einstaka liði þeirra ráðstafana.

Það ríkir því alger óvissa um framhaldið næstu mánuði. Líkja má ríkisstjórninni við hóp manna sem eru í vonlausu jakahlaupi með þessum sífelldu bráðabirgðaráðstöfunum í efnahagsmálum. Stjórnarandstaðan mun ekki taka þátt í því og situr hjá við afgreiðslu þessa máls, en áskilur sér rétt til að greiða atkvæði á móti einstökum tillögum í frv. en styðja aðrar eftir því sem efni standa til.

Ingi Björn Albertsson sat fund nefndarinnar og er samþykkur þessu nál., en undir það skrifa Steingrímur J. Sigfússon og Kristín Halldórsdóttir.

Ég vil svo bæta því við, herra forseti, að það væri fjöldamargt í þessum ráðstöfunum sem og í þeim upplýsingum sem fram komu í morgun á fundi fjh.og viðskn, sem ástæða væri til að fara ofurlítið út í. Ég vil einungis nefna tvennt eða þrennt.

Í fyrsta lagi þær upplýsingar sem komu frá bankastjórum Seðlabankans í morgun um afurðalán og vaxtakjör í því sambandi. Það var næsta fróðlegt að heyra bankastjóra Seðlabankans lýsa því, sem hafa nú stundum verið sérstakir talsmenn frelsisins í peningamálunum sem og á fleiri sviðum, að heyra þessa merku spekinga um efnahagsmál fara yfir hvernig bankarnir hefðu notað frelsi sitt í þessum efnum. Það var tvennt sem þar var til umræðu. Það var vaxtamunur á afurðalánum og gjaldtaka eða þjónustugjöld af þeim hinum sömu lánum. Þetta tvennt skiptir miklu máli fyrir ákveðnar greinar atvinnulífsins, þau kjör sem bjóðast á afurðalánum og auðvitað einnig sá hluti sem bankarnir taka til sín fyrir þjónustu á þessu sviði. Og hvernig stendur þetta, herra forseti? Það stendur þannig að þegar bönkunum var gefið frelsi til að ákvarða þessa hluti með gildistöku seðlabankalaganna 1. nóv. 1986 var vaxtamunur gengistryggðra afurðalána 1,25% eins og hann var þá ákvarðaður. Nú er talið að þessi sami vaxtamunur sé á bilinu 1,5–1,6%. Bankarnir hafa þannig tekið um 0,25–0,35% til sín aukalega frá því að þeir fengu frelsið. Þetta eru tæpar 20 millj. kr. á ársgrundvelli í sérstaka þjónustuþóknun sem bankarnir hafa ákveðið að skammta sér sjálfir í þessum efnum. Það eru þessar aukaálögur sem hæstv. ríkisstjórn og Seðlabanki eru nú að fara fram á að menn falli frá, afnema frelsið með þeim hætti eftir að það hefur komið í ljós að bankarnir nýttu sér það til hins ýtrasta. Og hvað varðar eftirlitsgjöldin eða þjónustu- og afgreiðslugjöldin er sá ferill enn ljótari því að 1. nóv. 1986 var bönkunum heimilt að taka um 0,2% af afurðalánasamningum til sín fyrir þjónustu á þessu sviði, en núverandi gjaldtaka bankanna virðist samsvara um 0,7%. Sem sagt: frelsið notuðu bankarnir til að hækka þjónustugjöldin á sviði afurðalánaviðskiptanna úr 0,2% af þessum stofni upp í 0,7% og tóku til sín með þeim hætti um 50 millj. kr. á ársgrundvelli. Þetta eru, herra forseti, tvö dæmi par exellence um hvernig frelsið er meðhöndlað í þessum efnum uppi á Íslandi, blessun frelsisins í bankamálunum fyrir atvinnulífið og mætti segja fleiri sögur af því fyrir ýmsa aðila.

Ríkisstjórnin er nú aðeins að ná áttum. Það er að rofa til, a.m.k. hjá einstökum mönnum. Það hefur dugað til þess að ríkisstjórnin felur Seðlabankanum að láta þessar hækkanir ganga til baka, enda sjálfsagt mál og þótt fyrr hefði verið. Rétt væri að láta nokkur vandarhögg fylgja með að mínu mati.

Þetta var fróðleg lexía um vaxtakostnaðinn og það væri út af fyrir sig ástæða til þess að ræða meira um vextina, en ég ætla aðeins að ítreka það sem ég vék hér að áðan um húsnæðismálin og framlög ríkisins til þeirra mála. Það er rétt að undirstrika það með því að fara yfir þetta aftur að hér er ekki um fyrsta og eina niðurskurðinn af hálfu ríkisstjórnarinnar til húsnæðismálanna að ræða. Vanefndir ríkisstjórnarinnar hvað það varðar að standa við sinn hluta samkomulagsins frá 1986 um fjármögnun húsnæðiskerfisins nema nú á annan milljarð kr. á ársgrundvelli sem skiptast þannig, hæstv. félmrh., að um 500 millj. vantaði upp á fyrir þennan niðurskurð að ríkið legði sambærilega upphæð í formi framlaga inn í húsnæðislánasjóðina og talað var um 1986. 100 millj. til viðbótar koma í þessum niðurskurði og 500 millj. þar á ofan verða frystar í ríkissjóði af því fé sem lífeyrissjóðirnir ættu ella að leggja húsnæðislánakerfinu til miðað við 55% kaup af þeirra ráðstöfunartekjum. Það er ástæða til fyrir hæstv. félmrh. einnig að hafa þessar staðreyndir í huga þegar hún gerir upp hug sinn í atkvæðagreiðslunni á eftir hvað varðar þá liði í frv. sem snerta húsnæðismálin sérstaklega.

Að lokum vil ég segja frá því að fulltrúi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja viðhafði nokkuð hörð orð á fundinum um þær brigðir ríkisvaldsins sem væru á orðnar í sambandi við stjórnun efnahags- og gengismála miðað við þær forsendur sem samtök opinberra starfsmanna gengu út frá þegar þau undirrituðu síðustu kjarasamninga. Þá var hornsteinninn sá að í engu yrði hvikað frá fastgengisstefnunni og aðhalds yrði gætt á sviði verðlagsmála að öllu leyti þannig að verðbólgutölur yrðu hér mjög lágar og svo héldist út árið 1988 og jafnvel út árið 1989 eins og sum aðildarfélög opinberra starfsmanna gerðu kjarasamninga um. Þessar forsendur eru í raun og veru hrundar gersamlega til grunna þannig að ríkisvaldið hefur svikið sinn hluta samkomulagsins við opinbera starfsmenn sem eykur enn á líkurnar á því að sá hluti vinnumarkaðarins fari einnig á flot, losni einnig upp á næstu vikum og mánuðum.

Að öllu þessu samanlögðu, herra forseti, bæði því sem ég hef farið yfir og varðar kjarasamninga í landinu sem og stjórn hæstv. ríkisstjórnar á efnahagsmálunum eða stjórnleysi og óstjórn væri öllu réttara nafn, er ljóst að í þessum efnum ríkir nánast upplausnarástand. Upplausnin er ekki bara innan ríkisstjórnarinnar þar sem öll samloðun, eins og það heitir í eðlisfræðinni, er horfin þannig að óreiðan er vaxandi eins og það heitir á máli kosmólógíunnar. Eitt grundvallarlögmál kosmólógíunnar er að óreiða heimsins sé vaxandi. Þetta er alveg eins í ríkisstjórninni. Hún hefur tekið þetta sér til fyrirmyndar. Óreiðan þar er vaxandi. Það má ganga út frá því sem eðlisfræðilegu lögmáli og félagsfræðilegu einnig. Ríkisstjórnin er sjálf jafnilla á sig komin og raun ber vitni og tök hennar á stjórn efnahagsmálanna eru í fullkomnu samræmi við samkomulagið á stjórnarheimilinu. Þar er greinilega hver höndin upp á móti annarri og hálfvelgjan ræður ríkjum, en menn vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga.

Þetta eru heldur dapurlegar staðreyndir, herra forseti, sem benda ekki til þess að þetta verði í síðasta skipti sem við ræðum á þessu þingi stöðu efnahags- og þjóðmálanna. Ríkisstjórnin kaupir nú líf sitt, ef svo má að orði komast, dag frá degi með skammtímaráðstöfunum sem er með ólíkindum vegna þess að nú situr ríkisstjórn á fyrsta starfsári sínu eða ætti að gera. Ég ætla ekki að segja að það sé þegar gefið að það verði það síðasta, en óneitanlega hvarflar sú hugsun að manni að þetta verði bæði fyrsta og síðasta starfsár þessarar hæstv. ríkisstjórnar miðað við þá dapurlegu niðurstöðu sem hér er að verða í sambandi við þessar efnahagsráðstafanir eða óráðstafanir, hvað sem við viljum kalla það, hæstv. félmrh.