04.03.1988
Neðri deild: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5536 í B-deild Alþingistíðinda. (3678)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa efnislegar umræður uppi, en ég vil segja við hv. 12. þm. Reykv. að við eigum eftir að hittast í félmn. Nd. og þá ræðum við sjálfsagt nánar um þær umsagnir sem borist hafa. En það sem kom mér til að koma aðeins upp er það að hæstv. félmrh. tíundaði nokkuð samskipti lífeyrissjóðanna við húsnæðiskerfið og las upp nöfn þeirra lífeyrissjóða sem ættu eftir að gera samninga við Húsnæðisstofnun. Einnig tíundaði hæstv. ráðherra nöfn á þremur lífeyrissjóðum sem ekki hygðust kaupa skuldabréf af Húsnæðisstofnun. En það sem kemur mér til að gera athugasemd við þetta, af því að þetta fer inn í þingskjöl, er að það kemur í ljós samkvæmt upplýsingum hæstv. ráðherra að það eru aðeins 54 sjóðir sem hafa samið vegna 1989 og aðeins 33 sjóðir fyrir 1990. Miðað við að 22 sjóðir væru þarna í vanskilum eða hefðu ekki enn þá gert samninga vantar þarna allnokkuð á að allir sjóðir hafi verið tilnefndir, þeir sem ekki hafa staðið við samninga, miðað við að við vitum að lífeyrissjóðirnir eru 80–90 sem eru samningsskyldir um þessi mál. Þess vegna hefði ég talið æskilegt að fyrst farið er að tíunda hvaða sjóðir ekki hafa staðið við kaup væri allur lífeyrissjóðahópurinn nefndur sem ekki hefur staðið við skuldbindingar sínar en ekki aðeins lítill hluti af þeim eins og hér hefur verið gert. Þetta er viðkvæmt mál að sjálfsögðu svo það er ekki víst að það hafi æskileg áhrif að það sé aðeins tíundaður hluti af þeim sem ekki hafa staðið við samninga. Fyrst farið er að gera það á annað borð hefði þurft að fullnægja því að öllu leyti.