02.11.1987
Efri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

61. mál, heilbrigðisfræðsluráð

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um heilbrigðisfræðsluráð sem reyndar er mál sem er endurflutt frá árinu 1985 með smávægilegum breytingum. Frv. er nú flutt af tveimur þm. Kvennalistans í Ed., Guðrúnu Agnarsdóttur og Danfríði Skarphéðinsdóttur. Ég ætla að lesa greinar frv. og athugasemdir við þær, með leyfi forseta:

„1. gr.: Ríkið starfrækir stofnun sem nefnist heilbrigðisfræðsluráð.“

Samræmda og skipulega fræðslu um heilbrigðismál vantar hérlendis. Heilbrigðisfræðsla hefur ekki verið aðalviðfangsefni eða á ábyrgð neins ákveðins aðila heldur margra ólíkra og þá aðeins sem hluti af miklu stærra verksviði þeirra. Skortur á fjármagni til aðalstarfsemi þessara aðila hefur allt of oft leitt til þess að fræðsluhlutverkið hefur orðið út undan. Útgjöld ríkisins vegna heilbrigðismála hafa farið vaxandi á sl. áratugum. Þessi kostnaðaraukning hefur orðið fyrst og fremst í rekstri sjúkrahúsa og annarra stofnana heilbrigðisþjónustunnar. Hins vegar hefur í raun orðið hverfandi lítil hækkun á framlagi ríkisins til heilbrigðisfræðslu þrátt fyrir þá vitneskju að miklu hagkvæmara sé að koma í veg fyrir sjúkdóma en að lækna þá. Það er því löngu orðið tímabært að taka afdráttarlaus skref til að snúa þessari þróun við og leggja ríkari áherslu á heilbrigðisfræðslu en áður. Slík áherslubreyting krefst þess að heilbrigðisfræðsla sé ótvírætt á ábyrgð einhvers eins aðila eða stofnunar sem hefur ekkert annað hlutverk. Þannig er tryggara að þessu brýna viðfangsefni verði sinnt sem skyldi.

Ágæt starfsemi hefur nýlega verið skipulögð hérlendis af hálfu heilbrigðisyfirvalda vegna samvinnuáætlunar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Evrópuþjóða um varnir gegn langvinnum sjúkdómum fram til aldamóta og var í raun lögð fram samvinnuáætlun um íslensk heilbrigðismál, íslensk heilbrigðisáætlun, í lok síðasta þings. Hún fékkst hins vegar ekki rædd né heldur samþykkt og mun væntanlega verða lögð aftur fyrir þetta þing.

Verkefni fyrir heilbrigðisfræðslu eru nær óþrjótandi og akurinn lítt plægður í þessum efnum. Það er því rúm fyrir margar hendur á plógi og nauðsynlegt er að heilbrigðisfræðsla eigi sér vel skilgreinda lagalega stoð sem tryggir henni þann sess og þá fjármögnun sem henni ber.

„2. gr.: Heilbrigðisfræðsluráð skal annast heilbrigðisfræðslu sem miðar að því að koma í veg fyrir sjúkdóma og slys. Það skal samræma og skipuleggja heilbrigðisfræðslu fyrir almenning í landinu í samvinnu við stjórnendur heilbrigðis-, skóla- og félagsmála og önnur stjórnvöld. Það skal enn fremur koma á samvinnu milli allra þeirra sem annast heilbrigðisfræðslu.

Heilbrigðisfræðsluráð skal vera miðstöð þekkingaröflunar, miðlunar og sérkunnáttu á öllum sviðum heilbrigðisfræðslu þannig að ráðgjöf sé þar alltaf tiltæk fyrir heilbrigðis- og skólayfirvöld, áhugamannafélög og alla þá sem fást við heilbrigðisfræðslu.“

Varðandi athugasemdir við 2. gr. hafa rannsóknir sl. ára leitt í ljós að margir þeir sjúkdómar sem mönnum eru skæðastir eiga rót sína að rekja til lifnaðarhátta og umhverfis og eru orsakir þeirra fjölþættar. Með því að breyta lifnaðarháttum og umhverfisþáttum er hægt að koma í veg fyrir marga sjúkdóma. Heilbrigðisfræðsla varðar því flesta þætti mannlegs lífs og hana þarf að skipuleggja í náinni samvinnu við marga aðila. Eðlilegt þykir að stjórnendur heilbrigðis-, mennta- og félagsmála — og nú brosir hv. 3. þm. Vesturl. því að hér eru konur einar saman komnar ýmist að tala eða hlusta, fyrir utan herra forseta. — En ég var komin þar í máli mínu sem ég minntist á það að eðlilegt þætti að stjórnendur heilbrigðis-, mennta- og félagsmála eigi sérstaklega náið samstarf við skipulagningu slíkrar fræðslu þar sem þeir málaflokkar tengjast svo beint viðfangsefnum heilbrigðisfræðslu.

En fræðslan ein nægir þó ekki til þess að tryggja það að einstaklingurinn taki ábyrgð á eigin heilsugæslu. Honum verður jafnframt að vera það kleift efnahagslega og félagslega að velja sér lifnaðarhætti í samræmi við þá heilbrigðisfræðslu sem stunduð er. Það er því nauðsynlegt að stjórnvöld séu vel meðvituð um hagsmuni heilbrigðisfræðslu þegar þau taka ákvarðanir og móta stefnu sína. Jafnframt er mikilvægt að allir þættir stjórnsýslunnar séu samvirkir til að ná markmiðum heilbrigðisfræðslu.

Margir ólíkir aðilar hafa haft með höndum heilbrigðisfræðslu á sl. árum og er vaxandi áhugi meðal almennings á heilbrigðu líferni og þörf fyrir slíka fræðslu. Það er því mikilvægt að tiltæk séu nauðsynleg kennslugögn og ráðgjöf í þessum efnum, bæði fyrir opinbera aðila, áhugamannafélög og aðra þá sem fást við heilbrigðisfræðslu.

„3. gr.: Heilbrigðisfræðsluráð skal ráðleggja um forgang viðfangsefna í heilbrigðisfræðslu á grundvelli bestu upplýsinga sem fyrir liggja hverju sinni.

Heilbrigðisfræðsluráð skal stuðla að rannsóknum og könnunum um heilbrigðismál til að tryggja að nýjar upplýsingar og tölfræðilegar niðurstöður séu ávallt fyrir hendi.

Heilbrigðisfræðsluráð skal afla upplýsinga um framfarir á læknis-, farsóttar-, félags- og sálfræðilegu sviði og hagnýta þær í þágu starfsemi sinnar. Enn fremur skal ráðið reyna að meta árangur starfsemi sinnar með hliðsjón af framförum á þessum sviðum.“

Nauðsynlegt er að heilbrigðisfræðsla á hverjum tíma sé byggð á sem réttustum og bestum upplýsingum. Það er því nauðsynlegt fyrir heilbrigðisfræðsluráð að fylgjast vel með framförum á mörgum ólíkum sviðum sem varða viðfangsefni heilbrigðisfræðslunnar. Enn fremur skal ráðið takast á hendur og styðja rannsóknir og kannanir hérlendis sem gefa upplýsingar og haldbærar niðurstöður um ástand mála á þeim sviðum sem heilbrigðisfræðsla nær til. Ráðið skal gefa út niðurstöður slíkra rannsókna eða kannana þegar það á við.

Nauðsynlegt er enn fremur að heilbrigðisfræðsluráð reyni að meta hvern árangur starf þess ber með því að fylgjast með sjúkdómatíðni, breytingum á lífsháttum, t.d. reykingum, og fleiru því sem hafa má til viðmiðunar.

„4. gr.: Heilbrigðisfræðsluráð skal standa að kynningu á einstökum málefnum, er varða heilbrigðisfræðslu, í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld eða aðra aðila eftir því sem við á. Það skal sjá um að safna upplýsingum, gera dreifirit, auglýsingaefni og efni til flutnings í hljóðvarpi eða sjónvarpi í kynningarskyni, svo og til annarrar starfsemi ráðsins. Ráðið skal enn fremur láta slík gögn af hendi við aðra þá er heilbrigðisfræðslu annast.“

Um 4. gr. má segja að útbúa þarf fjölbreytt og gott námsefni og annað efni til dreifingar og auglýsinga um heilbrigðismál. Notkun myndbanda fer vaxandi til afþreyingar og kennslu og miklu varðar að sækja megi gott fræðsluefni um heilbrigðismál í eins konar gagnabanka sem hefur jafnframt það hlutverk að útbúa slíkt námsefni og safna því saman frá öðrum eða halda yfirlit yfir það sem á boðstólum er.

Rétt þykir að heilbrigðisfræðsluráð gegni þessu hlutverki og sé í nánu samstarfi við skólaþróunardeild, Námsgagnastofnun, menntastofnanir, áhugamannafélög og aðra þá er heilbrigðisfræðslu sinna.

„5. gr.: Heilbrigðisfræðsluráð skal stuðla að þjálfun og endurmenntun starfsfólks til að sinna heilbrigðisfræðslu og leiðbeina um hana. Jafnframt skal það gefa út rit sem á erindi til þeirra er starfa við heilbrigðisfræðslu.“

Um 5. gr. vil ég segja að í lögum um Hollustuvernd ríkisins segir í 7. mgr. 13. gr., með leyfi forseta:

„Stofnunin skal, svo sem þurfa þykir, beita sér fyrir námskeiðum til að fræða þá aðila er að þessum málum (mál er varða hollustuhætti) starfa í landinu.“

Í 8. mgr. sömu gr. segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Stofnunin skal sjá um að menntun og fræðslu fyrir heilbrigðisfulltrúa verði komið á og hefur um það samráð við þær deildir Háskóla Íslands sem annast kennslu, er því tengist, og aðra sérfróða aðila.“

Þrátt fyrir þessi ákvæði þykir nauðsynlegt að hvetja til og leiðbeina um þjálfun fyrir þá sem stunda heilbrigðisfræðslu, starfsfólk heilsugæslustöðva, kennara, áhugamenn og aðra en heilbrigðisfulltrúa. Rétt þykir að heilbrigðisfræðsluráð hafi forgöngu um slíkt.

Ágætt tímarit, Heilbrigðismál, er gefið út af Krabbameinsfélagi Íslands og sinnir því hlutverki að miðla fróðleik um heilbrigðismál og hollustuhætti til almennings. Til greina kemur að heilbrigðisfræðsluráð yrði aðili að útgáfu þessa tímarits eða tæki við útgáfu þess og ætti það að styrkja starfsemina.

„6. gr.: Ráðið skal kalla saman samstarfshópa til að vinna að ákveðnum málefnum og leita ráðgjafar sérfræðinga um einstök mál. Laun starfshópa og ráðgjafa skulu ákveðin í samræmi við reglur þóknananefndar hverju sinni.“

Um 6. gr. má segja að gert sé ráð fyrir því að fagleg vinna til undirbúnings heilbrigðisfræðslu um sérstök málefni sé unnin af sérfróðum aðilum í hvert sinn. Sömuleiðis verði leitað ráðgjafar sérfræðinga þegar með þarf. Þessum aðilum skulu greidd laun fyrir vinnu sína í samræmi við reglur þóknananefndar.

„7. gr.: Í heilbrigðisfræðsluráði eiga sæti 21 fulltrúi sem heilbrigðisráðherra skipar til fjögurra ára í senn.

Eftirfarandi aðilar tilnefna einn fulltrúa hver: Áfengisvarnaráð, Félag heilsugæsluhjúkrunarfræðinga, Félag heilsugæslulækna, Félag íslenskra sjúkraþjálfara, félagsmálaráðuneytið, Fóstrufélag Íslands, Geðverndarfélag Íslands, Hollustuvernd ríkisins, Hjartavernd, Bandalag kennarafélaga, Krabbameinsfélag Íslands, landlæknir, Læknafélag Íslands, manneldisráð, menntamálaráðuneytið, Ríkisútvarpið, Samtök aldraðra, Sálfræðideild skóla, Slysavarnafélag Íslands, Tannlæknafélag Íslands, Umferðarráð.

Ráðið skal funda a.m.k. fjórum sinnum á ári. Störf í heilbrigðisfræðsluráði eru ólaunuð en fulltrú ar skulu sækja fundi sér að kostnaðarlausu.

Fulltrúar ráðsins velja úr sínum hópi þriggja manna framkvæmdanefnd. Heilbrigðisfræðsluráð skal ráða framkvæmdastjóra og starfsfólk eftir þörfum. Starfsemi ráðsins skal kostuð af ríkinu, þar með talin laun framkvæmdastjóra og annars starfsfólks.

Framkvæmdanefnd sér um að framkvæma áætlanir heilbrigðisfræðsluráðs í samvinnu við framkvæmdastjóra og annað starfsfólk ráðsins.“

Um 7. gr. má segja að hlutverk heilbrigðisfræðsluráðs sé fyrst og fremst að móta stefnu og ákveða forgangsröðun í málefnum heilbrigðisfræðslu og sjá til þess að heilbrigðisfræðslu sé sinnt. Heilbrigðisfræðsluráði er því fyrst og fremst ætlað að koma með hugmyndir og ákveða hvaða viðfangsefni í heilbrigðisfræðslu séu brýnust í hvert sinn. Ekki er reiknað með því að heilbrigðisfræðsluráð þurfi að funda oft á ári og eru störf fulltrúa í ráðinu ólaunuð en skulu vera þeim að kostnaðarlausu þannig að ferðir á fundi og annar kostnaður sé greiddur ef þurfa þykir.

Þó að störf heilbrigðisfræðsluráðs varði málaflokka sem snerta svið flestra ráðuneyta þykir eðlilegt að það heyri undir heilbrigðisráðherra sem skipar það til fjögurra ára í senn.

Vandasamt er að velja heppilegan fjölda fulltrúa í slíkt ráð en jafnframt mikilvægt að tryggja að mörg ólík sjónarmið eigi aðgang að stefnumótun og ákvarðanatöku í þessum efnum. Til þess að tryggja slíka valddreifingu finnst okkur nauðsynlegt að hafa þennan hóp fjölskipaðan. Reyndar má segja að þegar þetta frv. kom til kasta Nd. á sínum tíma var það sent út til umsagnar til allmargra af þeim aðilum sem nefndir voru til setu í ráðinu og við fengum margar jákvæðar umsagnir um málið en sumir komu þó með þá athugasemd að það kynni að vera vafasamt að hafa svo marga aðila í ráðinu, það yrði þungt í vöfum, það yrði erfitt að kalla það saman og ekki hægt að tryggja því þá virkni sem þyrfti.

Við veltum því talsvert mikið fyrir okkur þegar við sömdum þetta frv. hvort við ættum að hafa ráðið fámennt eða hvort við ættum að hafa það fjölskipað og vegna valddreifingarsjónarmiða og til þess að tryggja að sem flestar ólíkar skoðanir kæmust að þótti okkur réttast að halda þessari skipun, en gera jafnframt ráð fyrir því að framkvæmdanefnd ráðsins yrði hinn virki aðili sem stæði að því að koma hugmyndunum á framfæri, en nýtti frekar ráðsmenn eða fulltrúa í ráðinu sem hugmyndauppsprettu eða gagnabanka og um leið þá sem ákvarðanatökuaðila til þess að ákveða forgangsröðina hverju sinni.

Því verður meginstarfið áfram við framkvæmd heilbrigðisfræðslunnar í höndum þriggja manna framkvæmdanefndar sem fulltrúar ráðsins velja úr sínum hópi og framkvæmdastjóra er ráðið velur einnig. Þeim er ætlað að fylgja eftir hugmyndum ráðsins. Starfsemi ráðsins skal kostuð af ríkinu og fær framkvæmdanefnd greidd laun fyrir fundi og önnur störf sem unnin eru í þágu ráðsins. Ríkið greiðir einnig laun framkvæmdastjóra og annars starfsfólks ráðsins. Ljóst er að þörf fyrir heilbrigðisfræðslu er brýn og mikið starf óunnið á þeim vettvangi. Ætla má að nokkurn tíma taki að byggja upp starfsemi heilbrigðisfræðsluráðs og er því óvíst hver umsvif þess verða í fyrstu. Til þess að reyna að gera sér nokkra grein fyrir þeim kostnaði sem fylgja mundi stofnun heilbrigðisfræðsluráðs má taka mið af Rannsóknaráði ríkisins til samanburðar.

Rannsóknaráði ríkisins voru ætlaðar tæpar níu milljónir króna á fjárlögum 1986. Þar störfuðu á skrifstofu sjö manns með framkvæmdastjóra. Auk launakostnaðar þeirra var innifalið í rekstrarkostnaði Rannsóknaráðs laun fyrir starfshópa, útgáfa skýrslna, upplýsingaþjónusta, fundahöld, erlend samskipti og margt fleira.

Búast má því við að kostnaður við stofnun heilbrigðisfræðsluráðs verði a.m.k. helmingi minni en sú upphæð sem ætluð er til reksturs Rannsóknaráðs, reiknað á verðlagi ársins 1986.

„8. gr.: Heilbrigðisfræðsluráð sendir heilbrigðisráðuneytinu í lok hvers árs skýrslu um störf ráðsins.“ Um 8. gr. má segja að greinin þarfnast í raun ekki skýringar.

„9. gr.: Ráðherra setur ráðinu starfsreglur að fengnum tillögum ráðsins.“

Það þykir rétt að ráðið sjálft geri tillögur um hvernig það hyggist starfa og sendi síðan ráðherra þær til umfjöllunar og leiðbeiningar.

„10. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Eins og ég áður sagði var þetta frv. flutt á árinu 1985 og er nú endurflutt með smávægilegum breytingum. Helstu efnisbreytingar í raun eru þær að í stað tveggja kennarafélaga, þ.e. Kennarasambands Íslands og Hins íslenska kennarafélags, hefur nú komið eitt, þ.e. Bandalag kennarafélaga. Í öðru lagi breyttum við fulltrúa frá læknadeild Háskóla Íslands í fulltrúa frá Læknafélagi Íslands á þeim forsendum að þar væru margir aðilar með sérmenntun sem henta þætti undirbúningi undir heilbrigðisfræðslu betur en jafnvel sú kennsla sem fram fer í læknadeildinni. Aðrar breytingar hygg ég að hafi ekki verið gerðar — og reyndar jú, þriðja breytingin á fulltrúum í ráðinu var sú að Hollustuvernd ríkisins var tekin inn í ráðið. En fulltrúarnir eru eftir sem áður 21.

Það verður flestum ljóst fyrr eða síðar á ævinni að heilbrigði er verðmæt auðlind sem ber að varðveita. En hvað er heilbrigði?

Í stofnskrá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá 1946 var heilbrigði skilgreint þannig í þýðingu Vilmundar Jónssonar, fyrrv. landlæknis: „Heilbrigði er fullkomið líkamlegt, andlegt og félagslegt velferli, en ekki einungis firrð sjúkdóma og vanheilinda. Fagnaður fyllstu auðinnar heilbrigði telst til frumréttinda allra manna án tillits til kynflokka, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, fjárhags eða þjóðfélagsstöðu. Heilbrigði allra þjóða er frumskilyrði þess, að höndlað verði hnoss friðar og öryggis, og er komið undir fyllstu samvinnu einstaklinga og ríkja.“

Þessi skilgreining, svo háleit sem hún er, telur heilbrigði til grundvallarmannréttinda, en þau hafa löngum verið viðfangsefni löggjafans. Íslensk löggjöf endurspeglar reyndar þessa hugmynd um mannréttindi og jöfnuð því að í 1. gr. laga um heilbrigðisþjónustu frá 1983 segir, með leyfi forseta: „Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.“

Mönnum er orðið æ ljósara hið margslungna orsakasamband sem veldur ýmsum algengum sjúkdómum, einkum samband heilbrigðis og félagslegra þátta.

Margir minnast þess t.d. enn hve ríkan þátt bættur aðbúnaður og bætt lífskjör áttu í útrýmingu berkla hér á landi. Sú skilgreining heilbrigðis sem hér er gefin og dæmið um berklana eru brot af þeirri vitneskju og reynslu sem renna stoðum undir þau nýju viðhorf í heilbrigðismálum sem nú ryðja sér til rúms, a.m.k. meðal þróaðra þjóða sem svo eru nefndar. Þessi viðhorf leggja áherslu á heilsugæslu og heilsuvernd. Kjörorð þeirra er: Betra er heilt en vel gróið. Sú vitneskja er að verða almennari að orsakir margra þeirra sjúkdóma sem okkur eru einna skæðastir megi í raun rekja til lifnaðarhátta umhverfis og næringar svo að eitthvað sé nefnt.

Meðal fátækra þjóða ríkja smit- og hörgulsjúkdómar en meðal ríkra þjóða er heilbrigðisvandinn oft afleiðing velmegunar eins og umhverfismengunar, kyrrsetu, ofnotkunar tóbaks, áfengis og annarra vímuefna ásamt slæmum matarvenjum.

Þessir þættir ásamt öðrum leiða svo til ýmissa þeirra sjúkdóma sem heilbrigðisþjónustan þarf að kljást við.

Samfélagsbreytingar á sl. áratugum hafa bæði orðið til þess að lengja meðalævi okkar Íslendinga, sem nú er hin lengsta í heimi og jafnframt bætt heilbrigði okkar, en sjúkdómsmyndin hefur sannarlega breyst. Í byrjun aldarinnar dóu um 80 af hverjum 100 manns úr smitsjúkdómum hérlendis, en nú eru helstu dánarorsakir hjarta- og æðasjúkdómar 47%, krabbamein 22%, slys 10%, lungnasjúkdómar 10% og aðrir sjúkdómar 11%.

Ævin hefur sem sé lengst og heilbrigði aukist að verulegu leyti vegna bættra lífskjara og forvarna eins og t.d. ónæmisaðgerða.

Á sama tíma verjum við eins og velflestar hinna efnaðri þjóða heimsins miklu fjármagni til að viðhalda og fullkomna stöðugt flóknara kerfi tæknivæddrar heilbrigðisþjónustu. Sem betur fer hefur það oft leitt til þess að hægt er að greina og jafnvel lækna æ fleiri sjúkdóma.

Tæknivæðing hefur þó einnig verið gagnrýnd og stundum talin leiða af sér aukna notkun tækni án þess að nægilegrar gagnrýni hafi gætt eða að gætt hafi verið að því hvort tækninotkunin sé í samræmi við þau markmið sem heilsugæslan setur sér. Stofnunum heilbrigðisþjónustunnar hefur fjölgað og þær stækkað, starfslið aukist og kostnaður margfaldast. Heilbrigðisþjónusta er hjá velflestum velferðarþjóðfélögum orðin stjórnvöldum vaxandi áhyggjuefni vegna aukins kostnaðar.

Ef miðað er við hlutfall af þjóðarframleiðslu hefur þessi kostnaður hækkað hérlendis úr 3% árið 1950 í rúm 8% árið 1982. Þó að þetta hlutfall hafi verið um 10% sl. 3–4 ár er þó ekki um að ræða raunhækkun frá árinu 1982 heldur fyrst og fremst hækkun sem verður vegna minni þjóðarframleiðslu. Hlutfall kostnaðar vegna rekstrar sjúkrahúsa hefur farið hækkandi frá 37% 1953 í 52% á árinu 1980. Einungis lítið brot af heildarfjármagni til heilbrigðisþjónustunnar rennur til forvarna. Flestir mundu þó samþykkja að í forvörnum liggur vænlegasti fjárfestingarkostur framtíðarinnar.

Menntun flestra heilbrigðisstétta miðar fyrst og fremst að því að greina og bregðast við sjúkdómum, beinist með öðrum orðum mun meira að björgunarstarfi eða viðgerðarþjónustu en heilbrigðisfræðslu eða heilsuvernd. Þó hafa á sl. árum vaknað efasemdir um hvort þessi forgangsröð sé rétt og viðleitni ýmissa aðila innan sem utan heilbrigðisþjónustunnar hefur beinst að því að leggja meiri áherslu á heilbrigðisfræðslu og ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir í því skyni að draga úr þörf fyrir hina dýru viðgerðarþjónustu. Má í því sambandi geta þess að Íslendingar eru aðilar að Alma Ata yfirlýsingunni sem fjallar um frumheilsugæslu og má finna á fskj. I með frv. Sú yfirlýsing er í samræmi við meginstefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá 1977 um heilbrigði öllum til handa árið 2000, á ensku: „Health for AlI by the Year 2000“. Í framhaldi af því hafa Íslendingar gerst aðilar að samvinnuáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Evrópuþjóða um varnir gegn langvinnum sjúkdómum og var sá samningur undirritaður af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands 10. febr. 1984.

Með langvinnum sjúkdómum er átt við t.d. hjarta- og æðasjúkdóma, krabbamein, slys, geðræna sjúkdóma, þar með talin áfengis- og fíkniefnaneysla, auk ýmissa annarra sjúkdóma.

Snar þáttur þessarar samvinnuáætlunar er almenn fræðsla og upplýsingar, svo og aukin menntun fólks í heilbrigðisstéttum og kennara og aukin fræðsla í skólum.

Langtímastefnumörkun í heilbrigðismálum hefur sárlega skort hérlendis.

Því er ástæða til að fagna aðild Íslendinga að þessari samvinnuáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um varnir gegn langvinnum sjúkdómum sem fylgir meginstefnu þeirrar stofnunar um „Heilbrigði fyrir alla árið 2000“.

Eins og ég gat um áðan var í lok síðasta þings lögð fram á Alþingi skýrsla um íslenska heilbrigðisáætlun og lýsir hún fyrirætlunum heilbrigðisyfirvalda í þessu samvinnuverkefni og markar jafnframt stefnu í heilbrigðismálum hérlendis til langs tíma. Áætlun þessi var þó hvorki rædd á þinginu né samþykkt, eins og ég sagði áðan. Hún var hins vegar rædd á aðalfundi Læknafélags Íslands sem haldinn var í síðasta mánuði og mun væntanlega verða rædd á þessu þingi sem nú stendur yfir og fæst þar vonandi fjallað um hana ítarlega, því stefnumörkun í heilbrigðismálum er afar mikilvægt og brýnt verkefni fyrir okkur.

Í skýrslunni er lögð megináhersla á forvarnir í formi heilsugæslu, heilbrigðra lífshátta og heilbrigðiseftirlits. Hins vegar er eitt að hafa stefnu og annað að framfylgja henni. Fé til forvarna hefur sárlega vantað hingað til. Það er afar brýnt að tryggja nægilegt fjármagn til ýmissa forvarnaraðgerða svo að meiri áhersla verði í raun lögð á að varðveita heilbrigði. Einungis þannig er hægt að draga úr þörf fyrir hina dýru viðgerðarþjónustu sem lækning og meðferð sjúkdóma óhjákvæmilega er.

Nú þegar blasa við ýmis verkefni á sviði forvarna þar sem raunhæft er að ætla að markvissar aðgerðir mundu skila verulegum árangri. Þann árangur má mæla bæði í mannslífum, auknu heilbrigði, bættri líðan og miklum fjárhagslegum sparnaði.

Herra forseti. Ég á enn talsvert eftir af máli mínu og ég sé að tími fundarins er kominn að lokum. Þess vegna mundi ég gjarnan vilja gera hlé á máli mínu hér og hefja aftur máls um þetta frv. á næsta fundi. Umræðu frestað.