04.03.1988
Neðri deild: 67. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5539 í B-deild Alþingistíðinda. (3687)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það hillir nú undir að þetta frv. verði að lögum, frv. um sérstakar efnahagsráðstafanir sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt hér fram og leggur mikla áherslu á að fá afgreitt.

Það hafa ýmsir merkir atburðir gerst við meðferð þessa máls í þinginu fremur óvenjulegir. Þannig hefur það gerst að ágreiningur hefur orðið opinber í ríkisstjórninni með skýrari hætti en oftast áður og er þó af nógu að taka í þeim efnum á stuttri ævi þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Hér hefur einn hæstv. ráðherra ekki treyst sér til að fylgja fram í atkvæðagreiðslum á þinginu efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar í tveimur veigamiklum atriðum. Stjfrv. sem slíkt nýtur því ekki einu sinni stuðnings allrar ríkisstjórnarinnar. Einnig hefur brostið á flótti í liði hv. stjórnarþm. þar sem hv. 3. þm. Suðurl. Eggert Haukdal treystir sér ekki til að standa með félögum sínum að meðferðinni á sveitarfélögum. Ber að virða það við hv. þm. og kom hann nú sem oftar á óvart með kjarki sínum sem áður hefur skeð í atkvæðagreiðslum á þingi.

Að öðru leyti þarf ekki að hafa um þetta mörg orð, herra forseti. Þau hafa flest þegar komið fram. Forsendur þessa frv. eru brostnar. Ríkisstjórnin blés í lúðra þegar undirritaðir höfðu verið kjarasamningar fyrir nokkrum dögum og hafði þá skyndilega uppgötvað efnahagsstefnu á einni helgi, dottið það snjallræði í hug að fella allt í einu gengið og grípa til fleiri plástursaðgerða. En þetta var að nokkru leyti þjófstart hjá hæstv. ríkisstjórn og eftir á að hyggja hefði hún eflaust orðað yfirlýsingu sína dags. 29. febr. öðruvísi ef hún hefði gert sér grein fyrir því að fólkið í verkalýðsfélögunum mundi blása af þá niðurstöðu sem þá var nýlega undirrituð.

Þannig eru ummælin í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar, sem eru fjögurra daga gömul, þegar úrelt orðin og efnahagsráðstafanirnar sem slíkar því dagaðar uppi. Það er fjarað undan þeim. Þær forsendur sem þær áttu að byggja á eru ekki lengur fyrir hendi. Málin eru því í algerri óvissu vegna þess að ríkisstjórnin er þar með búin að týna efnahagsstefnunni sinni aftur og verður nú að hefja leit að henni. Ríkisstjórninni hefur orðið það á að týna fleiru en Steina. Allar þessar aðgerðir bera með sér að þær eru fálm. Ríkisstjórnin er að taka til baka aðgerðir sem eru varla komnar til framkvæmda. Skattheimtur og álögur á atvinnuvegina, sem voru að taka gildi núna fyrir nokkrum vikum, er ríkisstjórnin núna að afnema því það hefur komið í ljós svo að segja um leið og þær voru settar að þær voru hin herfilegustu mistök, voru ekki í samræmi við aðstæður.

Svo að síðustu, herra forseti, ætla ég endurtaka það sem ég hef sagt áður í þessari umræðu, ég vil endurtaka það sem ofurlítinn þakklætisvott til hæstv. ráðherra Alþfl. sem hafa öðrum ráðherrum fremur verið samviskusamir og rækt vel þingskyldu sína og setið hér undir umræðunni: Þessi niðurstaða er sérstakur rassskellur fyrir Alþfl. hvernig sem á það er litið. Kjarasamningarnir sem verið er að fella hringinn í kringum landið voru sérstakt óskabarn og dekurbarn alþýðuflokksmanna, sbr. Vestfjarðasamningana og víðar. Það er hæstv. fjmrh. og formaður Alþfl., þ.e. hann er hæstv. sem fjmrh., ekki sem formaður Alþfl., sem er talsmaður ráðstafananna hér á þingi og ber sem slíkur á þeim þyngsta pólitíska ábyrgð í ríkisstjórninni, enda eru aðrir flokkar víðs fjarri þegar þessi mál eru rædd. Þeir eru því fegnastir að láta lítið fara fyrir sér. Þess verður varla langt að bíða að þeir þykist hvergi hafa nærri komið, a.m.k. ekki Framsfl. sem er öðrum flokkum betur þjálfaður í handarþvotti í allri sögu íslenskra stjórnmála. (SvH: Hreinlæti er fyrir miklu.) Auðvitað er hreinlæti gott, en það getur nú gengið út í öfgar, hv. þm. Ég tel að handarþvottur Framsfl. sé hreinlæti sem sé gengið algerlega út í öfgar.

Að síðustu er það svo sú dapurlega niðurstaða að efni ráðstafananna, sem á að fara að lögleiða e.t.v. eftir nokkur andartök, herra forseti, er sömuleiðis langverst fyrir Alþfl. Það er hæstv. félmrh. sem fær svo hraklega útreið í þessu frv., málaflokkar hæstv. ráðherra eru svo grátt leiknir að ráðherrann treystir sér ekki til að styðja frv. í veigamiklum atriðum. Þetta er því fyrir Alþfl. eftir 100 fundina og hina glæstu inngöngu í ríkisstjórn svo dapurleg niðurstaða þegar á fyrsta ári stjórnarþátttöku flokksins að grátgjarnir menn gætu átt það til að fella tár yfir þessari útkomu. Ræðumaður ætlar þó að harka af sér og gera það ekki, en það verð ég að segja að samúð mín með hæstv. félmrh. við þessar kringumstæður er býsna mikil.