14.10.1987
Efri deild: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

8. mál, Skattadómur og rannsókn skattsvikamála

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann veitti í ræðu sinni með því að lesa upp úr grg. fjárlagafrv. Það kom ekki fram hvenær ætlunin er að leggja hér fram frv. til laga um breytingu á skattlagningu fyrirtækja. Ég spurði hvort meiningin væri að afgreiða það fyrir hátíðar og það komu engin svör um það frá hæstv. ráðherra. Ef það er hins vegar ætlun hæstv. ríkisstjórnar að koma frá sér þeim breytingum á skattamálum sem hann las upp áðan er æskilegt að eitthvað af þessum málum fari að sjást hér í þinginu vegna þess að a.m.k. tollafrv. er örugglega eitt af viðamestu málum sem þing fær til meðferðar og það er óhjákvæmilegt að farið verði að sýna þessi mál ef það er einhver alvara á bak við það að afgreiða eigi þetta. Auðvitað hefði helst þurft að koma því öllu hingað inn með fjárlagafrv. En látum það nú vera því að skammt er liðið frá þingsetningu.

Það sem hæstv. ráðherra vék að að lokum var um köpuryrði af minni hálfu. Ég kannast satt að segja ekki við annað en að ég hafi flutt mitt mál með rökum og köpuryrðalaust, áreitnislaust í garð hæstv. ráðherra. Hann má ekki vera svo typpilsinna og viðkvæmur að það megi ekki víkja að honum orði eins og út um annað munnvikið, þá stökkvi hann hér upp og kvarti undan köpuryrðum og árásum. Ég vil segja það fyrir mitt leyti alla vega að ég er staðráðinn í því að hafa þessar umvandanir ráðherrans að engu (Gripið fram í.) og halda uppteknum hætti varðandi minn málflutning við þennan ráðherra eins og aðra ráðherra á undanförnum árum. Ég tel enga ástæðu til þess að setja á neinar sérstakar kurteisisreglur eða „prótókoll“ fyrir þennan ráðherra fjármála.

En af því hæstv. fjmrh. var að nefna það sérstaklega að Alþfl. hefði alltaf verið sjálfum sér samkvæmur í skattamálum er best að nefna bara eitt dæmi svo kem ég með fleiri í næstu ræðu á eftir.

Matarskattur. Hvar stóð í stefnuskrá Alþfl. að það ætti að byrja stjórnarathafnir og endurbætur hæstv. ráðherra Jóns Baldvins Hannibalssonar á því að leggja á matarskatt númer eitt, algjört forgangsmál? Var það nefnt á fundunum miklu, 100 talsins, 1984–1985? Strax og Alþfl. kemur til valda á að byrja á því að leggja á matarskatt. Var það nefnt í ræðum hæstv. ráðherra í þinginu í fyrravetur? Strax og Alþfl. getur snúið sér við uppi í Stjórnarráði byrjum við á því að leggja á matarskatt. Strax og Alþfl. fær einhverju um þokað í fjármálum ríkisins byrjum við á því að leggja á matarskatt. Var það þannig? Var það þannig fyrir kosningar að hæstv. fjmrh. gengi fram fyrir þjóðina í sjónvarpi eða útvarpi eða hvar það nú var eða á almennum fundum og segði: „ef Alþfl. fær einhverju ráðið byrjar hann á því að leggja á matarskatt“? Nei, hann sagði þetta aldrei. Hann sagði þetta aldrei. Hann kom aftan að kjósendum. Það er kjarni málsins, virðulegi forseti.