07.03.1988
Sameinað þing: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5554 í B-deild Alþingistíðinda. (3700)

265. mál, launabætur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég man hvernig hv. 3. þm. Norðurl. e. Árni Gunnarsson skýrgreindi nýfrjálshyggjuna fyrir kosningarnar fyrir norðan og nú er komið í ljós að hann hefur mætt henni hér inni á Alþingi. Skýrgreining hv. þm. á nýfrjálshyggjunni er holdi klædd og hefur líkamnast í núv. viðskrh. Og ég minni á það að við hvert það orð sem þessi hv. þm. segir um vaxtastefnuna og peningamálin, þá hittir hann málflutning hæstv. viðskrh. fyrir og vegna þess að hv. þm. eru löngu orðnir leiðir á endurtekningunum héðan úr þessum stól skal ég ekki hafa uppi rökstuðning hæstv. viðskrh. um þessi efni, en vísa þessum hv. þm. og öðrum þingheimi á þingtíðindi til þess að þeir geti þar lesið og gengið úr skugga um það hvernig nýfrjálshyggjan lítur út og hvað frá henni kemur hér í sölum Alþingis.

Herra forseti. Þessi tillaga sem hér liggur fyrir er fyrir margra hluta sakir athyglisverð, ekkí aðeins hvernig hún er hugsuð heldur líka hitt hver hafa orðið viðbrögð hv. þm. við henni. Það er auðvitað eðlilegt að þm. sem aðrir hafi áhyggjur af því hvernig kjörum hinna lægst launuðu verði komið þegar við verðum vitni að því að þeir kjarasamningar sem gerðir voru eru nú felldir víðs vegar um landið. Ég hef sömu áhyggjur af því og hv. 7. þm. Reykv. að það muni e.t.v. leiða til þess að til mikillar ókyrrðar komi á vinnumarkaðnum. Hann talaði um það að fólk vilji nú berjast fyrir launum sínum. Auðvitað vilja menn berjast fyrir sínum launum, en erfiðleikarnir í sambandi við það að rétta hlut hinna lægst launuðu eru vitaskuld þeir, og ekki síst þegar afrakstur þjóðarbúsins minnkar, að einn getur ekki rétt hlut sinn nema ganga á hlut annarra. Afrakstur þjóðarbúsins er nú minnkandi í þessu landi. Það þýðir auðvitað á mæltu máli að ef við ætlum að bæta hlut hinna lægst launuðu verðum við að gera það á kostnað annarra þegna þjóðfélagsins, og mér finnst rétt að gera það nú undir þessum kringumstæðum, nema við stefnum að hinu, að auka erlendar skuldir landsmanna. En þær eru þegar orðnar svo miklar að sá kostur gengur illa að stefna vísvitandi að því að auka viðskiptahallann meir en við sjáum fram á að hann hlýtur að verða nú í lok þessa árs.

Ég man eftir því fyrir um 20 árum síðan að þáv. formaður Einingar á Akureyri, Björn Jónsson, ásamt Hannibal Valdimarssyni, sem þá var formaður Alþýðusambands Íslands, flutti um það tillögu hér á Alþingi að á því yrði gerð úttekt hvernig hægt yrði að koma því til leiðar að hinir lægst launuðu gætu lifað sómasamlegu lífi af sínum dagvinnutekjum. Ég man að sá forsrh. sem þá sat tók þessari tillögu mjög vel. Síðan var skipuð nefnd til þess að reyna að benda á leiðir að þessu marki og við munum síðan hvernig árangurinn hefur orðið. Á stundum hefur sú stefna verið uppi hér í þjóðfélaginu að hlutur hinna lægst launuðu hefur heldur batnað. Hlutdeild þeirra í þjóðarauðnum hefur vaxið borið saman við aðra þegna þjóðfélagsins. Á öðrum stundum hefur svo borið við að hlutur þeirra stétta sem betra hafa það hefur vaxið á kostnað hinna lægst launuðu.

Við munum eftir mörgum umræðum um þetta í þjóðfélaginu. Við munum eftir því hvernig ýmsir stjórnmálamenn hafa í dag haldið fram launum hinna lægst launuðu en komið svo hingað árið eftir til þess að tala jafnháum rómi fyrir því að nauðsynlegt sé að auka hlut þeirra sem betri hafa launin. Það fer eftir því hvernig um þá er búið hverju sinni. Það fer eftir því hvaða trumbur viðkomandi stjórnmálamenn telja að rétt sé að slá hverju sinni. Þetta þekkjum við allt hér úr þingsölunum. Og við sem höfum staðið nálægt kjarasamningum í hinum almennu verkalýðsfélögum, eins og ég hef gert bæði meðal verslunarmanna, verkamanna og kennara, við vitum það líka hversu viðkvæmt það er fyrir einstaka starfshópa að finna það að ýmis réttindi og ýmis ávinningur, sem þetta fólk hefur náð fram vegna hás starfsaldurs eða ýmiss annars, þessi ávinningur verður minni vegna þess að við erum að hugsa um hina sem enn neðar eru í tröppunni. Það er þessi eilífi samanburður milli einstakra stétta sem gerir þetta svo erfitt sem fyrir hv. flm. vakir, að lyfta nú kjörum þeirra sem lægst launaðir eru.

Ég er alveg sammála því sem hv. 7. þm. Reykv. sagði hér áðan að ekki aðeins launamismunurinn í landinu heldur kjaramismunurinn í landinu - þegar við litum á kjör einstakra starfshópa, einstakra einstaklinga í heild — ég er alveg sammála honum um að sá launamismunur er orðinn óþolandi. Hann er í raun meiri en við getum sætt okkur við í þessu litla landi, við þessi litla þjóð hér norður á hjara. Auðvitað er þessi launamismunur of mikill. En hvers vegna er hann of mikill? Hann er svo mikill vegna þess að skilningur manna hvers á annars högum er nú minni en áður. Hann er svo mikill vegna þess að einstökum stéttum hefur haldist uppi að búa í kringum sig varnarmúr þannig að aðrir komist ekki að. Hann er svo mikill vegna þess að við höfum nú ótal, ótal stéttarfélög í þessu landi og jafnmarga menn á launum fyrir þessi stéttarfélög og fyrir þessa starfshópa. Stéttarfélögin eru mörg og hver og einn þessara manna vinnur ekki fyrir sínum launum nema honum takist að ná einhverju frá öðrum stéttum í þjóðfélaginu. Það er m.ö.o. komin upp stétt manna hér á landi sem hefur það eitt að vinna og iðja að skara eld að þeim hópi sem hann sjálfur vinnur fyrir, burt séð frá öðrum hagsmunum í þjóðfélaginu, hvort við tölum um heildarhagsmuni landsins alls eða hagsmuni annarra stétta. Það er þessi togstreita sem er af allt, allt öðrum toga heldur en sú gamla verkalýðsbarátta og nú er að spilla fyrir þeim árangri að okkur takist að hafa sómasamlegan launamismun í landinu.

Herra forseti. Ég vil aðeins ljúka máli mínu með því að segja að viðbrögðin við tillögunni, þau viðbrögð að hér hafa staðið upp á þessari stuttu stundu sem þessi fundur hefur staðið fulltrúar fjögurra stjórnmálaflokka og við þurftum ekki lengi að hlýða á mál þeirra, hvers einstaks og allra í senn til að finna og skilja hvað allir þessir ágætu hv. alþm. gerðu sér grein fyrir vandanum. En hitt voru þeir ekki reiðubúnir til að segja, í hverju lausnin væri fólgin, enda er það nú svo, að ef hún væri auðfundin, þá væri gæðunum ekki eins misskipt og nú er.

Að síðustu vil ég aðeins segja, herra forseti, að ég tel að það sé brýnast sé nú við þessar aðstæður, þegar afrakstur þjóðarbúsins er að minnka, þegar við erum að verja þau lífskjör sem við höfum í landinu, þá er brýnast fyrir alla og ekki síst fyrir þá sem lægst hafa launin að okkur takist að halda verðbólgunni í einhverjum skefjum. Ef okkur tekst ekki að halda verðbólgunni í skefjum, ef hún á að rjúka upp á nýjan leik, á hverjum bitnar það þá? Er einhver hér inni sem heldur að meiri verðbólga bitni meir á einhverjum en þeim sem lægst hafa launin? Er einhver hér inni sem heldur að verkamaðurinn, að verkakonan sem hefur einungis lægsta og minnsta kaupmáttinn þoli best verðbólguna? Auðvitað ekki. Auðvitað vitum við öll að verðbólgan er ekki aðeins versti óvinur okkar og okkar efnahags í heild. Hún er um leið sá sem leikur þá verst sem verst eru settir.