07.03.1988
Sameinað þing: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5556 í B-deild Alþingistíðinda. (3701)

265. mál, launabætur

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég tek mjög undir það að tillaga sú sem hér er nú til umræðu er af hinu góða. Það er oft nauðsynlegt, og kannski oftar en gert hefur verið, að ræða ýmsa þætti launamála hér á Alþingi. Þetta er auðvitað einn anginn af launastefnunni sem hér er til umræðu. Þetta er ekkert nýtt í mínum huga að slíkt skuli koma fram. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og hef verið að mörgu leyti sammála hv. fyrsta flm. að þessari tillögu innan vébanda verkalýðshreyfingarinnar, að það væri kannski komin á það full reynsla að hreyfingunni sem slíkri tækist ekki að rétta hlut þeirra verst settu í gegnum kjarasamninga. Þar þyrfti kannski stóri bróðir til að koma, en þar þarf þá að búa um hnúta þannig að það haldi til þess að það leiði ekki til annarra og verri hluta.

Ég hef því allt gott um þessa tillögu að segja, þó svo að ég sé ekki alveg fullkomlega um það fær núna að segja hvort þetta sé akkúrat það sem þarf að gera. Það kunna að vera til fleiri leiðir sem vísa að sama marki og þær þarf þá að skoða.

Eðlilega hafa komið inn í þessa umræðu hin almennu kjaramál og það sem verið hefur að gerast á vinnumarkaðnum að undanförnu og það er ósköp eðlilegur hlutur. Fyrir um viku síðan var gengið frá samningum með Verkamannasambandinu og Vinnuveitendasambandinu og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og það er óhætt að segja að þeir samningar hafa ekki fengið góðan byr í stéttarfélögunum vítt og breitt um landið. Við því er ekkert að segja. Það er bara hinn sjálfsagði hlutur sem gerist oft á tíðum. Meira að segja hafa forsvarsmenn Verkamannasambandsins verið nokkuð gagnrýndir fyrir það að standa að undirskrift slíkra samninga.

Ég sem einn slíkur tel að það sé rangt mat þegar menn tala á þann veg. Mér var alveg ljóst og er búið að vera það nokkurn tíma að það var mikill órói, mikil ólga og óánægja á meðal hins almenna launafólks. Og það er ekki bara vegna samninganna sem slíkra sem óánægjan er þó að hún sé vissulega mikil vegna þeirra. Það eru fleiri þættir sem þarna koma inn í. Það eru miklu fleiri þættir. Menn muna hvernig staðið var við síðustu samninga, jólaföstusamningana frá 1986, þar sem þáverandi stjórnvöld sviku ásamt vinnuveitendum og skildu þá verst settu eina eftir með lægsta kaupið. Launaskriðið fór til allra annarra en þeirra sem minnst höfðu.

Og núna er að koma yfir fólk almenn hækkun. Ætli menn finni ekki fyrir hækkuninni í gegnum tryggingarnar á bílunum? Ætli a.m.k. landsbyggðin finni ekki fyrir hækkuninni á orkuverðinu þar sem kostar upp í 30 þús. á mánuði að kynda einbýlishús á hinum köldu svæðum? Það kostar öll lágmarkslaunin, bara sá þáttur heimilishaldsins, að kynda upp íbúðarhúsið og rafmagnið í það. Ætli menn finni ekki fyrir þessu? Því segi ég að því er þessa samninga varðar: Ég tel að það hafi verið skynsamlegt af forustu Verkamannasambandsins að láta málið ganga til félaganna, láta þau taka af skarið. Og eins og ég hef alltaf haldið fram þá sannar það sig að það eru ekki forustumennirnir sem ráða ferðinni í hinum einstöku félögum. Það er fólkið sjálft. Og það var vissulega kominn tími til þess að láta fólkið sjálft segja til um það hvað það vildi gera í þessum efnum.

Ég tek mjög undir það að sú þróun sem hefur átt sér stað, annars vegar hér á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar úti á landsbyggðinni að því er varðar fjármagnið, slíkt gengur ekki til lengdar. Það gengur ekki til lengdar að grundvallaratvinnuvegirnir og það fólk sem við þá vinnur skaffi allt fjármagnið öðrum til eyðslu og á öðrum svæðum. Það er það sem er að gerast. Hér á þessu svæði eru peningar á uppboði. Hér fá menn bullandi fjármagn á uppboði og geta fyrir það greitt vegna þess þensluástands sem er á þessu svæði í landinu. Allt öðru máli gegnir úti á landsbyggðinni. Þar eru rótgróin framleiðslufyrirtæki að leggja upp laupana vegna þess að fjármagnshreyfingunum hefur verið stýrt á þann veg að þeim hefur verið haldið til hliðar, þessum fyrirtækjum, en þjónustugeiranum nánast verið skapaðar allar aðstæður til þess að græða. Þarna eiga auðvitað stjórnvöld stóra sök á og ég sagði það við umræður í hv. Ed. í síðustu viku að yrðu þeir kjarasamningar, sem Verkamannasambandið stóð að, gildandi sem fyrirmynd mundi það fyrst og fremst brotna á ríkisstjórninni sjálfri, hvernig hún kynni að standa að málum í framhaldinu. Ef hún guggnar á því sem þar á að gera þarf heldur ekki að búast við því að verkalýðsfélög, einstaklingar innan þeirra eða forustumenn hafi trú á því lengur að hægt sé að standa að þríhliða launakjarasamningi með stjórnvöld innan dyra ef þau bresta einu sinni enn. Það er því mikil ábyrgð sem lögð er á hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum. Og enn eru að bætast við verkefni.

Ég hygg að nú sé að blásast upp óánægja hjá sjómönnum varðandi fiskverðið. Enn bætist í þann bagga sem var nógu þungur og raunar miklu þyngri fyrir að því er varðar launastefnu í landinu. Ég held að nauðsynlegt sé fyrir menn, hvaða pólitíska skoðun sem menn hafa, að fara að huga að því sem er að gerast í reynd í þessum efnum.

Ég skal ljúka máli mínu, herra forseti, aðeins örfá orð til viðbótar. Það væri vissulega ástæða til þess að ræða launamálin sérstaklega í löngum umræðum, ekki síst í ljósi þess sem nú er að gerast og verður væntanlega að gerast í áframhaldi á næstunni. En það er auðvitað númer eitt að þeir sem með þessi mál fara, þeir sem koma til með að ráða ferðinni og þar eru stjórnvöld ekki hvað síst, skynji sinn vitjunartíma, taki á málum á þann veg að leiðrétta þá gífurlegu mismunun sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu, annars vegar milli launafólksins vítt og breitt á landsbyggðinni og á milli fyrirtækjanna þar og hins vegar hér á þessum þéttbýlissvæðum á suðvesturhorninu. Hér hafa menn malað peninga á kostnað grundvallaratvinnuveganna úti á landsbyggðinni. Og fólk segir: Hingað og ekki lengra. Það var kannski kominn tími til og þess vegna var það út af fyrir sig ánægjulegt að fólkið í félögunum skyldi koma til þess sjálft að segja sína skoðun.